1.300 afgreiðslukassa og útstöðvar hjá Festi < Origo

 
 
 

1.300 afgreiðslukassa og útstöðvar hjá Festi

22.10.2019

Eignarhaldsfélagið Festi hefur valið Origo sem samstarfsaðila í upplýsingatækni. Samstarfið nær til reksturs og hýsingu á miðlægum innviðum félagsins, rekstur útstöðva og notendaþjónustu. Origo mun meðal annars sjá um rekstur á 1.300 afgreiðslukössum og útstöðvum í félögum Festi. Rekstrarfélög Festi eru N1, Krónan, Elko og Bakkinn.

,,Í lok síðasta árs fór Festi að huga að því að útvista rekstri og hýsingu á miðlægum innviðum félagsins og að lokinni greiningu varð Origo fyrir valinu. Origo hefur frá ársbyrjun séð um rekstur á netþjónum og netkerfum fyrirtækisins. Við höfum verið ánægð með þjónustuna og í kjölfarið var ákveðið að ganga til samninga um rekstur útstöðva,” segir Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Festi.

Jafnframt mun Origo sjá um alla notenda- og bakvaktaþjónustu fyrir starfsmenn Festi og rekstrarfélaga þess.

,,Markmiðin með samstarfinu eru að auka hagkvæmni, lækka kostnað og auka þjónustu við starfsmenn Festi. Með auknu samstarfi verður unnið að því að auka sjálfvirkni þar sem hægt er að einfalda og staðla búnað. Á þessum sviðum hefur Origo náð góðum árangri og verður spennandi að aðstoða Festi við að ná sínum markmiðum,” segir Ottó Freyr Jóhannsson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Origo.

Origo er með starfsemi á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Neskaupstað og segir Ottó að samstarfið gefi Origo færi á að sinna landsbyggðinni enn betur.