Halda fjar-bingó fyrir starfsfólk < Origo

 
 
 

Halda fjar-bingó fyrir starfsfólk

31.03.2020

Origo ætlar að halda fjar-bingó fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra næsta laugardag. Arnór Fannar Reynisson formaður starfsmannafélags Origo segir að upphaflega hafi verið ákveðið að halda páskabingó eins og árin á undan en vegna samkomubannsins hafi því verið aflýst.

„Við erum hins vegar frekar þrjósk í starfsmannafélaginu og vildum reyna til þrautar að halda bingóið. Þess vegna datt okkur í hug að færa bingó stemmninguna heim í stofu til fólks. Ekki vanþörf á að halda uppi stemmningu og fjöri á þessu skrítnu tímum.“

Hann segir að dreifing bíngóspjalda, glaðnings og vinninga sé í gegnum snjallbox fyrir utan Origo. „Snjallboxið kemur í afar góðar þarfir fyrir okkur. Starfsfólk getur sótt bingóspjöldin þegar því hentar í gegnum kóða sem það fær við skráningu. Til að njóta bingósins þarf fólk að tengja sig við Zoom fundarforritið í gegnum sjónvarpið eða tölvu. Við ætlum svo að verðlauna sérstaklega fyrir skemmtilegustu stemmninguna heima fyrir. Það verður án efa mikið fjör.“

Arnór segir að mikill áhugi sé á viðburðinum enda hafi starfsfólk Origo verið duglegt að reyna að gera skemmtilega hluti í samkomubanninu, hittast á netinu í lok vinnudags eða að vinnudegi loknum. „Við búumst við örugglega hátt í 300 starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Það verða því fleiri hundruð sem taka þátt í fjar-bingói Origo þessa páskana.“