04/08/2022

Sjálfbærar og umhverfisvænar ofurtölvur á Íslandi

Nýtt íslenskt félag fetar sjálfbærar slóðir í afkastamikilli skýjahýsingu á skýjaveitumörkuðum ásamt bandaríska fyrirtækinu Rescale. Verkefnið er í samstarfi við Origo og Borealis Data Center og verður stofnað nýtt fyrirtæki utan um það sem kallast Responsible...

Rafmagnsstaurar

Alþjóðlega fyrirtækið Rescale, sem er leiðandi í ofurtölvuvinnslu í skýjunum, hefur nú hafið samstarf við nýtt íslenskt fyrirtæki, Responsible Compute, um að bjóða upp á sjálfbærar HPC-skýjalausnir (e. High Performance Computing) í krafti íslenskrar endurnýjanlegrar orku. Responsible Compute er samstarfsverkefni Origo og Borealis Data Center.

Skýjalausnin er sniðin að þörfum viðskiptavina og getur keyrt smá sem risastór reikniverk á nýjum HPC-innviðum. Þjónusta Responsible Compute mun gagnast viðskiptavinum Rescale um allan heim sem vilja nýta sér sjálfbærar lausnir.

Hýsingar skilja eftir djúp umhverfisspor

Gagnaver og hýsingar eiga um 2% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum ár hver, sem er svipað og allur flugbransinn skilar af sér árlega. Áætlað er að þessi losun muni fara upp í 3% árið 2025. Reiknigetan sem vísindafólk nýtir sér til að rannsaka nýjustu tækni og vísindi er talin menga meira en allt annað sem þau nýta sér við vinnu sína: ferðalög, flugferðir og önnur aðföng. Stór og leiðandi alþjóðleg fyrirtæki keppast nú um að nýta sér sjálfbærar leiðir til reksturs til að minnka áhrif sín á umhverfið.

Afkastamikil reiknigeta mikilvæg vísindum

Mikilvægi afkastamikillar reiknigetu í rannsóknar- og þróunarverkefnum eykst dag frá degi. Leita því fyrirtæki og stofnanir sér leiða til að auka rekstrarhæfni, minnka umhverfisáhrif og auka nákvæmni í greiningu á þáttum sem hafa áhrif á umhverfisvernd og sjálfbærni.

[quote] Við spáum áframhaldandi vexti í eftirspurn á sjálfbærum hýsingarlausnum. Rescale ætlar að mæta þeirri eftirspurn með tólum sem gera viðskiptavinum okkar kleift að ná tökum á kostnaði og afköstum á skýjalausnum þeirra, en á sama tíma tryggja þætti sem hafa áhrif á sjálfbærni og umhverfisvernd. [/quote]

segir Joris Poort forstjóri og stofnandi Rescale. Rescale er bandarískt félag sem sérhæfir sig í þjónustu við fyrirtæki sem nýta sér mikla reiknigetu í gegnum HPC-skýjalausnir á alþjóðlegum mörkuðum. Sem dæmi má nefna að bifreiðaframleiðendur reiða sig í sífellt meiri mæli á HPC-þjónustu við t.d. hönnun á bílum, árekstrarprófanir, verkfræðihönnun og margt fleira.

Gagnaver rafmögnuð með íslenskri vatnsorku 

Responsible Compute, samstarfsverkefni Origo og Borealis Data Center, mun bjóða upp á HPC-innviðaþjónustu í gagnaverum Borealis sem eru keyrð á umhverfisvænum orkugjöfum og kæld með umhverfisvænum leiðum. Borealis Data Center smíða og reka ein sjálfbærustu gagnaver heims með endurnýjanlegri og kolefnissnauðri raforku. Góðir langtímasamningar um raforkuverð minnka áhættu og auka hagkvæmni í rekstri.

Blöndustöð - Mynd eftir Marino Thorlacius/LandsvirkjunBlöndustöð - Mynd eftir Marino Thorlacius/Landsvirkjun

Gagnaver Borealis Data Center hýsa í dag ýmsa þjónustu frá alþjóðlegum viðskiptavinum upp á um 60MW á tveimur stöðum á Íslandi. Gagnaverið á Blönduósi fær sína raforku að mestu leyti frá Blönduvirkjun sem framleiðir 150MW af endurnýjanlegri raforku með vatnsfalli.

Stefna Responsible Compute er að bjóða upp á sjálfbæra HPC-innviðaþjónustu með bestu mögulegu kolefnisskýrslum sem völ er á, byggðar á þekktum og stöðluðum reikniaðferðum. Þetta gerir viðskiptavinum okkar kleift að draga úr umhverfisspori sínu, meta þróun útblásturs og vega möguleg úrræði í átt að kolefnishlutleysi.

Kristján Hafsteinsson

framkvæmdastjóri Responsible Compute.

Deila frétt