07/09/2020 • Snæbjörn Ingi Ingólfsson

Fjórar risabreytingar í upplýsingatækni 2021

Trends in IT 2021

Veistu hvaða nýjungar eru í farvatninu í tækni árið 2021? Hér eru fjórar helstu breytingarnar sem þú mátt ekki láta framhjá þér fara- það er ekki seinna vænna en að fara kíkja á hvað er handan við hornið.

Tækniþróun hefur verið ör á undanförnum árum og gera má ráð fyrir að það verði áfram raunin. Tækni er orðinn fastur liður í tilverunni og er bæði fólki og fyrirtækjum nauðsynleg sem aldrei fyrr. Sama hvar þú býrð í heiminum verður þú óhjákvæmilega og áþreifanlega var við hvernig tæknin umbreytir daglegu lífi fólks. 

Hér eru fjórar helstu nýjungar í upplýsingatækni sem þú ættir að hafa á bak við eyrað góða.

1. Störfum í netöryggi fjölgar hratt

Eftir því sem tækninni fleygir fram og bæði fólk og fyrirtæki nýtir tæknilausnir í auknum mæli verður öryggi á netinu sífellt mikilvægara. Og vegna yfirstandandi heimsfaraldurs er netöryggi orðið enn mikilvægari þáttur í forgangsröðun hvers fyrirtækis.

Hið nýja heimsástand hefur valdið gríðarlegri aukningu í því að fólk vinni að heiman, og því er orðið meira krefjandi en áður að tryggja öryggi starfsfólks og tækja þeirra, ásamt viðkvæmum upplýsingum fyrirtækja. 

Tækni á sviði netöryggis er í stöðugri þróun til að unnt sé að verjast tölvuþrjótum, sem beita sífellt snjallari og háþróaðri aðferðum við að fremja tölvuglæpi. 

Samkvæmt nýjustu upplýsingum nam velta á markaði með netöryggi 173 milljörðum dala á heimsvísu á árinu 2020 og er búist við að sú tala verði orðin 270 milljarðar dala árið 2026.

Störfum á sviði netöryggis fjölgar þrefalt hraðar en störfum í nokkurri annarri tæknigrein, sem endurspeglar vaxandi eftirspurn.

2. Viðbættur veruleiki í skugga í faraldursins

Margir hafa prófað eða heyrt um viðbættan veruleika (e. Virtual Reality), án þess endilega að skilja til fulls hvað í honum felst. En skilningur á viðbættum veruleika er að aukast eftir því sem fleiri fyrirtæki nýta hann í rekstri sínum.

Viðbættur veruleiki er nú þegar mikið notaður í tölvuleikjaiðnaðinum, þar sem hann nýtur síaukinna vinsælda. Fyrirtæki geta nýtt sér kosti viðbætts veruleika með margvíslegum hætti. Þau geta til dæmis boðið sjónrænar lausnir sem gera neytendum kleift að ímynda sér hvernig það væri að eiga vöru eða upplifa þjónustu áður en hún er keypt.

Og eftir því sem heimurinn lagar sig að hinum nýju takmörkunum sem fylgja heimsfaraldrinum gæti viðbættur veruleiki leikið stærra hlutverk í daglegum samskiptum.

3. Ótrúlegur vöxtur í gervigreind 2021

Gervigreind nýtur nú þegar mikilla vinsælda og er mikið notuð og gera má ráð fyrir að hún verði sívaxandi þáttur á mörgum ólíkum sviðum daglegs lífs.

Sérfræðingar spá gríðarmikilli aukningu í notkun gervigreindar á árinu 2021 og að hún verði nýtt í nær allri tækniþjónustu og -vörum. Gervigreind hentar sérlega vel til að spá fyrir um og meta áhættur og viðhald og er nú þegar víða nýtt í þeim tilgangi. Búast má við að gervigreind muni umbylta því hvernig við lifum og störfum ásamt því að skapa gríðarmikil verðmæti og auka framleiðni.

Greiningarfyrirtækið Gartner spáir því að gervigreind muni auka verðmætasköpun um sem nemur 2,9 billjónum dala og framleiðni vinnuafls um 6,2 milljarða klukkustunda á heimsvísu, sem gefur vísbendingu um hin gríðarmiklu áhrif sem þessi tækni kemur til með að hafa.

4. Jaðarvinnsla er næsta stóra skrefið

Skýjavinnsla og skýið eru ekki lengur aðeins upprennandi og efnileg tækni heldur ómissandi þáttur í daglegu lífi, og jaðarvinnsla (e. edge computing) er næsta stóra skrefið fram á við. Jaðarvinnsla er tækni sem var þróuð í fjarskipta- og farsímageiranum og breiðist nú hratt út til nær allra atvinnugreina.

Hugsunin að baki jaðarvinnslu er að færa gagnavinnslu eins nálægt uppruna gagnanna og mögulegt er. Jaðarvinnsla nýtir skýið en er þó verulega þróaðri tækni og er leið til að eyða biðtímanum sem fylgir skýjavinnslu.

https://images.prismic.io/new-origo/078b477b-b957-471b-b9a2-4f02e1bdfee7_Sn%C3%A6bj%C3%B6rn+Ingi.jpg?auto=compress,format

Höfundur blogs

Snæbjörn Ingi Ingólfsson

Viðskiptastjóri hjá Origo

Deila bloggi