19/10/2020 • Anton M. Egilsson

Hvernig getur bitakeðjutækni nýst þínu fyrirtæki?

Bitakeðjutækni (e. blockchain) hefur nú verið í boði nógu lengi til að fá flest fyrirtæki til að íhuga hvort rétt sé að nota hana og þá hvernig?

Eins og með alla nýja tækni, þegar talað er um eitthvað eins og mikið og bitakeðjur veldur það efasemdum hjá þeim sem hafa ekki beina reynslu af henni. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að þessi tækni er verkfæri til að framkvæma ákveðin verkefni – og ef slík verkefni eru ekki hluti af rekstri þínum þarft þú ekki á þessu verkfæri að halda.

Í þessari grein veitum við yfirlit um þau verkefni sem bitakeðjutækni eru notuð til að sinna. Þannig gefst þér tækifæri til að draga þínar eigin ályktanir um hvernig og hvort hún geti nýst þér.  Til að byrja með er þó rétt að útskýra hvað bitakeðjur eru og hvernig þær virka.

Bitakeðjur útskýrðar – stutta útgáfan

Bitakeðja er nær alveg örugg aðferð til að geyma upplýsingar og miðla þeim. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða keðju stafrænna bita sem hver og einn inniheldur ákveðnar upplýsingar, einkvæman kóða og afrit af einkvæma kóðanum sem tilheyrir næsta bita á undan í keðjunni. Ef einhver fiktar við gögnin í einum bita breytir það einkvæma kóðanum, sem veldur misræmi við kóðann sem er vistaður í næsta bita þannig að viðvörunarbjöllur hringja.

Samkvæmt hinni hefðbundnu aðferð til að geyma gögn á miðlægum stað, svo sem á skrifstofu opinberrar stofnunar, gæti það verið á ábyrgð eins eða tveggja starfsmanna að taka eftir og bregðast við viðvörunarbjöllum. Með bitakeðjum fer sannreyning ekki fram á einum miðlægum stað, heldur er hún dreifð um jafningjanet tækja (sem kallast nóður), sem öll fá tilkynningar um hvers kyns breytingar í keðjunni og þurfa að staðfesta hana áður en hún er samþykkt.

Nýir bitar eru skapaðir af „námumönnum“ sem fá greitt fyrir hvern nýjan bita sem þeir skapa. Til að búa til nýjan bita (námuvinnsla) er stærðfræðilegt vandamál lagt fyrir námumanninn sem afar flókið er að leysa en þó afar einfalt að sannreyna.  Að leysa vandamálið krefst gríðarlega mikillar vinnslugetu, sem gerir það í raun óarðbært að reyna að hakka kerfið. Lausnin á vandamálinu verður svo að einkvæma kóðanum (frálaginu) í nýja bitanum. Nóður sannreyna frálagið á skjótan hátt og ef þær komast að samhljóða niðurstöðu getur nýi bitinn gengið í keðjuna.

Hin dreifða uppbygging bitakeðja útilokar einangraðar bilanir og gerir það að verkum að ekki er heldur hægt að ritskoða bitakeðju. Um er að ræða hlutlausa, landamæralausa og örugga tækni sem kemur í veg fyrir mannleg mistök, flýtir fyrir ferlum og dregur úr kostnaði.

Hvernig geta bitakeðjur komið að gagni?

Sem dæmi um augljós not bitakeðjutækni má nefna flutning rafmynta yfir landamæri, hagræðingu skráahalds, verndun hugverka og að tryggja öryggi persónuupplýsinga. Auðvelt er að sjá hvernig hin dreifða og sjálfvirka virkni bitakeðjutækni getur nýst til að auka öryggi, skilvirkni og aðgengileika slíkra nota. Hún er sérlega nytsamleg á sviðum á borð við fjármálaþjónustu, flutninga, fjölmiðla, heilbrigðisþjónustu og opinbera stjórnsýslu, þar sem hún hefur verið tekin til notkunar með góðum árangri.

Stjórnvöld geta til dæmis spornað við kosningasvindli og stuðlað að aukinni kjörsókn með því að geyma upplýsingar um kjósendur á bitakeðju og nota þær til að gera kjósendum kleift að greiða atkvæði á öruggan hátt úr persónulegum tækjum sínum. Flutningafyrirtæki geta gert birgðakeðjur sínar skilvirkari með því að setja öll flutningsgögn á bitakeðju til að koma auga á mynstur og forðast tvíverknað og frávik í kerfinu.

Að vernda fyrirtæki með snjallsamningum

Að setja samninga á bitakeðju breytir þeim úr pappírssnepli í röð reglna sem er framfylgt í rauntíma. Með snjallsamningum (e. smart contracts) þarf ekki lengur að leita að pappírum og ráða lögmann þegar brotið er á samningi. Snjallsamningar halda aðilum á mottunni og tryggja að samningum sé fylgt og koma þannig í veg fyrir samningsdeilur með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn.

Snjallsamningar hafa reynst gagnlegir á fjölmörgum sviðum og eru til dæmis notaðir til að miðla heilbrigðisupplýsingum, ganga frá fasteignaviðskiptum og innheimta höfundarlaun listamanna. Snjallsamningar eru dæmi um notkun bitakeðjutækni sem gera má ráð fyrir að fjölmörg fyrirtæki verði búin að tileinka sér innan tiltölulega fárra ára.

Að auka tiltrú á stórgögnum

Hin fjölmörgu tengdu tæki á heimilum og vinnustöðum okkar, sem ganga undir heitinu Internet hlutanna (e. Internet of Things - IoT), eru hver og eitt gagnapunktar sem miðla gríðarlegu magni af gögnum í miðstýrð gervigreindarkerfi sem síðan greina gögnin og framkvæma viðeigandi aðgerðir. Einfalt dæmi er Alexa tækið frá Amazon, sem safnar gögnum um lög sem þú hefur beðið hana að spila og notar þau til að leggja til fleiri lög sem þú gætir viljað hlusta á.

Þetta er það sem okkur líkar svo vel við gervigreind: getu hennar til að taka frumkvæðið og bæta líf okkar með nýjum upplýsingum sem okkur hefði reynst erfitt og tímafrekt að finna sjálf. En það er erfitt að treysta gervigreindinni fullkomlega. Hver sagði henni að vegna þess að ég hlusta á Clash muni ég sennilega hafa gaman af Iggy Pop líka? Var það kannski plötufyrirtækið hans Iggy?

Svipað er uppi á teningnum í heilbrigðisgeiranum. Eftir því sem fjarheilsugæsla verður útbreiddari og læknar nota tölvukerfi í auknum mæli til að ráða bót á því sem hrjáir okkur, hvernig vitum þá að tölvukerfið hafi ekki verið „þjálfað“ af lyfjafyrirtæki sem hagnast á ávísun tiltekins lyfs. Svo lengi sem gervigreind er miðstýrð og nýtir gögn í eigu einstakra fyrirtækja er hætt við að henni sé vantreyst.

Bitakeðjutækni getur skapað traustið sem gervigreind og Internet hlutanna skortir nú á tvennan hátt: í fyrsta lagi með því að gera einstaklingum kleift að stýra því hvaða gögnum þeirra sé miðlað og hverjum ekki, og í öðru lagi með því að fylgjast með uppruna hverrar ákvörðunar sem gervigreindin tekur.

Persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (GDPR) hefur þegar að geyma ákvæði um að það skuli vera mögulegt að útskýra allar ákvarðanir sem teknar eru af vélum og liggja þungar sektir við broti á þessu ákvæði. Í ljósi þess hversu flóknar ákvarðanir gervigreind tekur og mun í auknum mæli taka í framtíðinni gætu bitakeðjur verið eina leiðin til að gera slíkar útskýringar mögulegar.

Að færa valdið aftur í hendur fólksins

Hugmyndin um að færa valdið aftur í hendur einstaklinga kann að virðast undarleg nú þegar hálfgert gullæði ríkir á sviði gagnaöflunar. En öll fyrirtæki vita að gagnkvæmt traust er nauðsynlegt til að byggja upp gott samband við viðskiptavini, og margir neytendur hafa þegar á tilfinningunni að upplýsingasöfnun sé komin úr böndunum.

Sum fyrirtæki hafa hagnast gríðarlega á hagnýtingu upplýsinga um viðskiptavini og þeim mun fara fjölgandi á næstu árum, en rétt eins og í hverju gullæði munu reglur fylgja í kjölfar óðagots og verndun einstaklingins verður sífellt mikilvægari. Bitakeðjutækni mun gera einstaklingum kleift að endurheimta friðhelgi sína – og í því kunna að felast mikil tækifæri.

https://images.prismic.io/new-origo/12b5d5b8-ecda-478d-857b-ab289c8487f2_Anton.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Anton M. Egilsson

Aðstoðarframkvæmdastjóri Syndis

Deila bloggi