28/08/2022 • Birta Aradóttir

Baráttan fyrir íslensku stöfunum

Örn S. Kaldalóns hefur starfað við tölvu- og upplýsingatækni alla sína starfsævi. Eitt merkasta verk Arnar á ferlinum var vinna hans við að koma íslenskum stöfum inn í tölvukerfi IBM, sem er enn í notkun á Íslandi í öllum miðlungs- og stórtölvum IBM.

„Þetta var stanslaust barátta á árunum 1980-1990, í áföngum,‟ segir Örn S. Kaldalóns um ferlið að koma íslenskum stöfum inn í tölvukerfi.

Örn er nú sestur í helgan stein en hann hefur unnið alla sína ævi við tölvur, fyrst hjá Ottó A. Michelsen, við forritun á skýrslugerðarvélum, fyrirrennurum tölvanna, svo hjá IBM, sem Ottó stýrði, sem síðar varð að Nýherja og loks að Origo.

Örn S. KaldalónsÖrn S. Kaldalóns

Setti saman stafatöflu sem er enn í notkun

Eitt meginverkefni Arnar á ferlinum var að koma íslenskum stöfum inn í tölvukerfi IBM, sem var þá langstærsti tölvuframleiðandi heimsins. „Þegar ég var að vinna hjá IBM í Toronto í Kanada árin 1982-1983 bjó ég til stafatöflu. Ég tók saman tvær eldri töflur og sá til þess að íslensku stafirnir væru á sínum stað. Og það tókst að fá þetta samþykkt, taflan heitir CECP 871 og er enn í notkun á Íslandi í öllum miðlungs- og stórtölvum frá IBM.‟

Í fljótu bragði virðist íslenska stafrófið mjög líkt hinu enska, sem var málið sem tölvurnar byggðu á. Þegar nánar er að gætt er það mun stærra og telur 36 stafi, á meðan það enska telur 26. Án allra aukastafanna, bæði broddstafanna sex og Ð Þ Æ og Ö, yrði íslenskt ritmál dapurt og áhrif þess á þróun málsins án efa mikil.

Tyrkland reyndi að fá íslenskum stöfum skipt út fyrir þá tyrknesku

Alþjóðlega staðlastofnunin, ISO, flokkar stafi í mengi. Íslenskan fékk á sínum tíma að fljóta með inn í fyrsta mengið, Latin-1. „Ísland komst snemma inn í fyrsta stafamengið, þökk sé þýskum sérfræðingi í stafatöflum, Wilhelm F. Bohn að nafni. Íslenskan er nú í alþjóðlega staðlinum ISO 8859 en þetta er forsenda þess að íslenskan er auðnotuð í margskonar tölvuhugbúnaði.‟ Wilhelm F. Bohn var síðar sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir vikið.

Einhverju síðar gerðu Tyrkir tilraun til að fá íslensku stöfunum skipt út fyrir þá tyrknesku. Þeir voru síður en svo hrifnir af því að íslenskan, sem hlutfallslega fáir tala og skrifa, væri mun aðgengilegri innan tölvukerfa en tyrkneska.

Íslenskan örugg með sitt sæti

„Ég heyrði af því í gegnum samstarfsfólk mitt í Toronto og okkur tókst að bregðast við, svo íslenskan yrði áfram þarna í fyrsta flokki tungumála. Þetta hefði verið stórslys fyrir Ísland, að þurfa alltaf að biðja um íslensku stafina sérstaklega í hvert skiptið sem það kæmi nýr hugbúnaður! Það tókst að koma í veg fyrir þetta og íslenskan virðist örugg með sitt sæti.‟

Baráttan fyrir prentstöfum tók við

„Í framhaldi af þessu fer ég að sjá um að íslenskan rati ekki bara inn í tölvur, heldur inn í skjái og prentara líka, sem voru framleiddir af öðrum fyrirtækjum. Ég mátti vinna á ýmsum tímum sólahringsins til að vera í sambandi við fyrirtæki í bæði Japan og Bandaríkjunum. Ég þurfti að afla mér upplýsinga um það hvernig hægt væri að skrifa stafina með 5x7 punktaletri. Það var snúið að skrifa stórt Þ og lítið ð. Þverstrikin á Þ-inu eru fyrir ofan og neðan venjulegt miðstrik og ð-ið er í keng. Það kostaði talsverða yfirlegu að sjá til þess að þessir stafir kæmu rétt út á prenti. En það hafðist.‟

Örn hefur lagt mikið af mörkum á sínum starfsferli til þess að efla veg íslenskrar tungu í tölvu- og upplýsingatækni. Nú eru allir séríslensku stafirnir í hinum veigamikla alþjóðlega staðli ISO 8859 en sá staðall er forsenda þess að íslenskan er auðnotuð í margs konar tölvubúnaði og tölvutækni.

https://images.prismic.io/new-origo/35f94eeb-cb16-4598-86cb-fd7a70f56b35_MicrosoftTeams-image+%281%29.png?auto=compress,format&rect=946,0,3098,3442&w=900&h=1000

Höfundur bloggs

Birta Aradóttir

Markaðssérfræðingur

Deila bloggi