Um Origo
Aðstoð
Aðstoð
Leit
Nútíma kröfur og tækni bjóða uppá að hver starfsmaður geti verið með fleiri en eitt tæki til að nálgast upplýsingar og gögn fyrirtækja að heiman, á ferðinni eða frá vinnustað. Þannig er aðgengi nánast ótakmarkað auk þess sem notkun tækja í persónulegu skyni vex.
Með þessu skapast veikleikar og áhættur sem kalla á öryggialausnir en slíka sérfræðiþekkingu er oft ekki að finna innan fyrirtækja.
Á sama tíma og aðgangur verður auðveldari, notendum og tækjum fjölgar ásamt því að netumferð og notkun eykst verða glæpamenn skipulagðari. Þeir sjá tækifæri á skjótfengnum gróða í auknum veikleikum. Oft á tíðum er um að ræða glæpasamtök með starfstöðvar eins og hvert annað fyrirtæki þar sem færustu hakkarar heims mæta til vinnu eins og hver annar. Notast er við allar mögulegar leiðir og útfærslur af tölvuárásum sem í boði eru með það eitt að markmiði að valda skaða eða að hagnast.
Helsta leiðin inn fyrir varnir fyrirtækja liggur í gegnum notendur og tæki þeirra sem oft á tíðum eru ekki með nýjustu öryggisuppfærslur eða hugbúnað, ásamt því að skorta helstu öryggisstillingar. Eftirlitslaus, óuppfærð og illa varin tæki gera það að verkum að glæpamenn eigi greiða leið inn.
Þó svo að stjórnendur fyrirtækja líti almennt á upplýsinga- og gagnaöryggi sem mikilvægan þátt í starfseminni er raunin sú að allt of margir lifa í þeirri trú að starfsmenn opni ekki vafasama pósta, smelli ekki á vafasama hlekki, hali ekki niður vafasömum hugbúnaði eða stundi aðra hegðun sem gæti skaðað fyrirtækið. Þá gera þeir jafnvel ráð fyrir að öryggi sé innbyggt í tækin og hugbúnaðinn sem notaður er, eða það sem verra er, þeir gera ráð fyrir að hættan sé ekki raunveruleg.
Staðreyndin er hins vegar sú að andvara- og fyrirhyggjuleysi getur komið í bakið á þeim sem ekki taka hætturnar alvarlega. Árás á þitt fyrirtæki gæti gerst í dag, eða eftir 1 ár. Engin veit hvenær glæpamaður ákveður að láta til skara skríða og þitt fyrirtæki verður skotmarkið.
Þegar Origo sér um tæknimálin fyrir fyrirtæki gætum við ávallt að þessum öryggisþáttum til að vernda fyrirtækið fyrir árás.