03/03/2021 • Inga Steinunn Björgvinsdóttir

Er öryggið falið í skýinu?

Skýjalausnir geta falið í sér verulegan ávinning, svo sem lægri kostnaði, aukin þægindi og áreiðanleika. Skýið hentar vel fyrir þá sem vilja síður festa kaup á eigin netþjónum og tengdum hugbúnaði, sinna viðhaldi og endurnýjun. Notendur skýjalausna þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur af háum stofnkostnaði né kostnaði við viðbætur eftir því sem fyrirtækið vex. Vistun kerfa í skýinu getur einnig falið í sér aukin þjónustugæði því netþjónar eru geymdir í sérsniðum gagnaverum þar sem uppfærsla og afritun hugbúnaðar er oftast hnökralaus og nýjungar innleiddar um leið og þær bjóðast.

Með hýsingu upplýsingakerfa í skýinu verða lausnir, gögn og upplýsingar aðgengilegar hvar sem er, svo lengi sem net sé til staðar. Þessi möguleiki hentar vel fyrir fólk í fjarvinnu því þá er auðvelt að deila skjölum og nálgast þau þegar þeim hentar án þess að hafa áhyggjur af því að allt glatist ef tölvan hrynur eða ef henni er stolið.

Annar kostur við notkun skýjalausna eru fyrirbyggjandi innbyggðir ferlar sem draga úr vandamálum í notkun og niðritíma.

Starfsfólk oft veikasti hlekkurinn

Sú öryggisógn sem flest fyrirtæki þurfa að verjast nú til dags eru tölvuinnbrot á borð við vefveiðiárásir (e. phishing), spilliforrit og DDoS álagsárásir. Sýnt hefur sig að starfsfólkið er því miður oft veikasti hlekkurinn í vörnum gegn tölvuþrjótum. Óvarkárni með tæki er því miður mjög mannlegur eiginleiki sem getur opnað aðgang fyrir alls konar netárásir. Með öruggri hýsingu í skýinu er hins vegar dregið úr þeirri ógn þar sem hvert tæki verður einungis lykill að öryggisgeymslunni en ekki sjálf öryggisgeymslan. Svo framarlega sem lyklarnir eru varðir með öruggum lykilorðum og tvíþættri auðkenningu (þar sem stafrænn kóði er sendur í skráð tæki sem viðbótaröryggisráðstöfun við innskráningu) er ekki hægt að nota fartölvu sem skilin er eftir á glámbekk til að fá aðgang að gögnum fyrirtækisins. 

DDoS er ein helsta ógnunin

DDoS álagsárásir eru helsta ógnin við fyrirtæki sem reiða sig á vefsvæði sín til að veita viðskiptavinum þjónustu, svo sem bankar og netverslanir. Slíkar árásir felast í því að tölvuþrjótar reyna að gera vefsíður óvirkar með því að láta gríðarmikla umferð dynja á síðunni sem lamar þjónustu við viðskiptavini og kostar fyrirtækið gífurlegar fjárhæðir. Þeir krefjast síðan lausnargjalds til að aflýsa árásinni. 

Fæst fyrirtæki hafa burði til að verjast DDoS árásum – til þess þarf umfangsmikið net tengdra vefþjóna – en með áskrift að hýsingu hjá Origo færðu aðgang að öflugasta DDoS varnarkerfi í heimi, Cloudflare. Netkerfi Cloudflare nær yfir 13 milljónir neteigna (e. internet properties) í 150 löndum og státar af 42Tb afkastagetu, sem er 15 sinnum stærra en stærsta DDoS árás sem sögur fara af. 

Þegar kemur að öryggi upplýsingakerfa gilda einkunnarorðin, „sameinuð stöndum við, sundruð föllum við.“

Með áskrift að hýsingu fæst mun öflugri öryggisviðbúnaður en fyrirtæki geta náð á eigin spýtur með því að færa kerfin undir vernd fjöldans um leið og gagnaleynd er tryggð með einkvæmum lykilorðum. 

Þess vegna er öryggi í skýinu eins og best verður á kosið.

https://images.prismic.io/new-origo/b805165a-4dce-423e-9d8a-72cb5f652d41_Origo_myndir10433A.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Inga Steinunn Björgvinsdóttir

Forstöðumaður þjónustulausnir, markaðsmál

Deila bloggi