06/09/2021 • Inga Steinunn Björgvinsdóttir

Gögn verða lykillinn að skilvirkum risaborgum

Orkunotkun, mengun og úrgangur eru þeir þrír þættir sem helst stuðla að loftslagsbreytingum. Hvernig getum við þá dregið úr þeim þegar íbúafjöldi fer vaxandi?

Krafa um aðgerðir í loftslagsmálum verður sífellt háværarri.

Árið 2050 munu tveir þriðju hlutar jarðarbúa búa í borgum. Risastórborgum (með yfir 10 milljónir íbúa), sem í dag eru 33 talsins og mun fjölga í 43.  Framtíðin verður fjölmenn.

Áhrifanna mun gæta á fjölmörgum sviðum, ekki síst þegar að kemur andlegri heilsu allra þessara borgarbúa. Hvað ættum við þá að leggja áherslu á til að skipuleggja framtíðarborgir okkar þannig að þær verði staðir sem bjóða upp á heilbrigt umhverfi til að búa, starfa og stunda tómstundir á öruggan og þægilegan hátt?

Svarið gæti legið í framtíðarsýn vísindaskáldsagnahöfunda 20. aldarinnar: gögnum. Gögn verða aðaltæki okkar við hönnun og stýringu borgarumhverfisins með það fyrir augum að það nýtist íbúunum sem best og veiti þeim ánægju og vellíðan.

Hvað mun móta framtíðarborgir?

Tvennt mun móta borgir framtíðarinnar: það sem fólk vill og það sem yfirvöld þurfa að stýra. Hið fyrrnefnda nær til atriða á borð við atvinnu, tómstundir og afþreyingu, samgöngur, mat, húsnæði og græn svæði. Hið síðarnefnda lýtur að umferð, mengun, orkunotkun og almannaöryggi.

Í nær öllum tilfellum leiðir hið fyrrnefnda til þess síðarnefnda. Til dæmis kaupir fólk bíla til að komast leiðar sinnar, bílar skapa umferð og mengun, og yfirvöld setja reglur til að hafa hemil á umferðinni og takmarka mengun sem af henni stafar. Borgir hafa alltaf vaxið á þennan hátt. Fólk flytur þangað með venjur sínar og þrár, hegðun þess skapar vandamál og yfirvöld þurfa að finna leiðir til að leysa vandamálin.

Þessi þróun er og hefur alltaf verið viðbragðakennd. Þess vegna er mikilvægt að geta séð breytingar á hegðun fólks fyrir og brugðist við þeim áður en þær eiga sér stað.

Umferðarkerfi risaborga.Umferðarkerfi risaborga.

Skipuleggja fyrirtæki út frá breyttu hegðanamynstri

Í þróaðri ríkjum hefur heimsfaraldurinn leitt til verulegrar endurskoðunar á því hvar fólk vill búa og hvernig það vill vinna. Ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar aðstæður í heiminum ásamt gríðarlegri aukningu í notkun stafrænnar tækni hefur orðið til þess að fólk sem áður ferðaðist daglega til vinnu fór að endurhugsa þessa tímafreku, kostnaðarsömu venju; og þeir sem búa í borgum íhuga að flytja burt, nú þegar þeir geta unnið hvar sem er.

Þetta breytir eðli borgarinnar úr stað þar sem fólk safnast saman í nokkuð fyrirsjáanlegu mynstri til að vinna og umgangast aðra, í stað þar sem það kemur og fer nánast af handahófi. Notkun gagna verður afar mikilvæg til að finna mynstrin í þessari handahófskenndu hegðun, þannig að hægt verði að stjórna staðsetningu matsölustaða, flutningum, byggingarými o.s.frv. til að mæta eftirspurninni á skilvirkan hátt.

Atvinnurekendur, sem átta sig á þessari þróun, munu huga að því hvernig hægt sé að skipuleggja reksturinn með tilliti til þessa breytta hegðunarmynsturs starfsfólksins. Gagnagreining mun hjálpa þeim við að ákvarða hvernig hægt verði að nýta skrifstofuhúsnæði á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt. En atvinnurekendur innan tiltekinnar borgar þurfa einnig að eiga með sér viðtækara samráð svo hægt verði að mæta þörfum þess starfsfólks sem ferðast til vinnu og þarfnast næringar, gistingar og afþreyingar.

Krafa um aðgerðir í loftslagsmálum verður sífellt háværarri. Krafa um aðgerðir í loftslagsmálum verður sífellt háværarri.

Hvernig verður hægt að draga úr loftslagsbreytingum?

Loftslagsbreytingar eru auðvitað efst á dagskrá yfirvalda og almennings í dag. Bara með því að lifa og anda neytir fólk orku og skapar mengun og úrgang. Orkunotkun, mengun og úrgangur eru þeir þrír þættir sem helst stuðla að loftslagsbreytingum. Hvernig getum við þá dregið úr þeim þegar íbúafjöldi fer vaxandi?

Það er aðeins hægt með skilvirkni og eina leiðin til að ná þeirri skilvirkni sem þarf til að jafna út loftslagsáhrif heillar borgar er með nákvæmri beitingu gagna. Með því að læra meira um neyslu og úrgangslosun getum við stjórnað hegðun þeirra sem búa og starfa í borg framtíðarinnar til að nýta endurnýjanlega orku og endurvinnslu á hagnýtan hátt.

Það þarf líka að breyta því hvernig fólk velur að ferðast. Gera má ráð fyrir því að árið 2050 verði bílaeign öðruvísi háttað en í dag. Hvers vegna að borga háar fjárhæðir fyrir fjögurra eða fimm sæta bíl sem yfirleitt situr ónotaður og tekur óþarflega mikið pláss á vegakerfinu þá sjaldan honum er ekið?

Þörf er á því að finna lausnir sem leysa þetta fremur augljósa vandamál, ekki er hægt að reikna með því að fundin verði ein lausn sem leysi þennan vanda heldur er líklegt að finna þurfi nokkrar lausnir sem styðja hver aðra. T.d er sameiginlegur hreyfanleiki (e. shared mobility) vaxandi valkostur sem mun vera skynsamlegri en bílaeign í borgum framtíðarinnar, draga úr fjölda bíla á vegum, minnka kostnað fyrir notendur og nýta kosti stafrænnar tækni til að gera umferð mun skilvirkari.

Að standa vörð um réttindi borgaranna

Þessi aukna notkun gagna vekur óhjákvæmilega upp spurningar um siðferði, persónuvernd og einstaklingsfrelsi. Gagnavernd og upplýsingaöryggi verða eins mikilvæg og gögnin sjálf til að tryggja friðhelgi einstaklinga sem er hverju samfélagi nauðsynleg.

Þróunin frá borg nútímans til borgarinnar árið 2050 mun ekki fela í sér stórkostlega umbreytingu heldur stigvaxandi aðlögun að þörfum fólks, sem næst með því að hafa skilning á óskum og hegðun þess og geta brugðist við með síauknum hraða. Þetta er gjöfin sem gögn færa okkur og þau munu gera gæfumuninn eftir því sem borgir halda áfram að fyllast af fólki.

https://images.prismic.io/new-origo/b805165a-4dce-423e-9d8a-72cb5f652d41_Origo_myndir10433A.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Inga Steinunn Björgvinsdóttir

Forstöðumaður þjónustulausnir, markaðsmál

Deila bloggi