29/08/2023

Er búið að heyja? - Hvað eiga heyskapur og vefþróun sameiginlegt?

Við reddum hvor öðru þegar þess þarf og búum við aðgengi að þekkingu innan samfélagsins.

Origo brand myndefni

Við fyrstu sýn, ekki svo mikið. Heyskapur er samvinnuverkefni sem fólk úr sveitinni vinnur náið að saman. Fólk er kallað inn úr þéttbýlum til að aðstoða, því fleiri hendur því betra. Ef eitthvað vantar eða dráttarvélin bilar, þá er farið yfir á næsta bæ til að fá búnað til að geta heyjað áfram. Ef þú nærð ekki að heyja, þá er ekki nægt fóður fyrir veturinn. Við reddum hvor öðru þegar þess þarf og búum við aðgengi að þekkingu innan samfélagsins. 

Vefir eru ekki einungis fallegar forsíður

Vefir geta verið fallegar og einfaldar forsíður eða stór og flókin vefkerfi sem miðla gögnum og virkni til notenda sinna. Til þess að ná settum markmiðum um virkni og getu vefja getur verið gott að leita sér aðstoðar á næsta bæ. Er einhver vefur gott dæmi um eitthvað sem þinn vef vantar? Sendu þeim línu og athugaðu hvort þú getir ekki fengið að spjalla um vefmálin. Finndu þau sem komu að því að smíða vefinn og athugaðu hvort þau eigi fólk eða þekkingu til að hjálpa þér. Finndu þér öfluga dráttarvél til að draga vefinn á betri stað.

Ný tækni eykur afköst

Nýjar og hraðar rúllusamstæður geta verið lykilþáttur í því að ná niður tímanum við að heyja á sumrin. Þökk sé viðbótar rúlluhólfi Agronic rúllusamstæðunnar er hægt að rúlla og pakka á sama tíma sem eykur afköstin um heilan helling. Ef við yfirfærum þetta yfir í vefgeirann þá gæti þetta verið að færa vefinn úr eigin rekstri og yfir í skýjaumhverfi, uppfæra CMS-kerfi, bæta við vefþjónustu í nýju umhverfi eða sækja sér einföld og góð ráð.

Kíktu á næsta bæ

Stafrænt lausna teymi Origo hefur yfirgripsmikla þekkingu úr ýmsum áttum sem gæti nýst ykkur. Við erum heldur ekki feimin við að sækja okkur þekkingu frá næsta bæ, þegar þess þarf. Metall Design Studio þegar útlit þarf að komast á næsta stig, Cludo þegar leitað er að nál í heystakki, Syndis til að herða á öryggi, DataLab til að spá um framtíðina með fortíðinni og Koala ráðgjöf til tala um tækni á mannamáli. Hvernig gengur ykkar heyskapur? Vantar ykkur fólk, tæki eða þekkingu að láni?