28/10/2021 • Ásta Guðmundsdóttir

Hvernig á að temja Internet hlutanna?

Ímyndaðu þér heim þar sem loftið er hreint, þar sem við vinnum kannski einn dag í viku og verjum svo hinum dögunum í að njóta afþreyingar og lista. Fylgst er með heilsu okkar allan sólarhringinn svo sjúkdómar og krabbamein greinist á byrjunarstigi, og við ferðumst afslöppuð um í sjálfakandi bílum sem bila aldrei og lenda aldrei í árekstri. Ímyndaðu þér heim þar sem dauðinn er sáraukalaus, auðvelt er að finna sanna ást og fólkfjölgun er sjálfbær.

Dálítið ógnvekjandi, ekki satt? Samt er þetta jákvæða sýnin á heim sem stýrt er af vélum sem allar tala, hugsa og læra. Gæti þetta gerst? Vissulega. Þetta er jú markmiðið með gervigreind og Interneti hlutanna (e. Internet of Things - IoT): heimur þar sem vélar hugsa fyrir okkur, en hraðar og betur og hraðar og betur.

Getur gervigreind valdið endalokum mannkynsins?

Neikvæða sýnin er ekki síður ógnvekjandi. Og það eru ekki bara andstæðingar nýrrar tækni sem eru þeirrar skoðunar. Stephen Hawking spáði því að gervigreind „gæti valdið endalokum mannkynsins“. Elon Musk lýsti henni sem „stærstu ógninni við tilvist okkar“. Ef við þjálfum vélar til að hugsa fyrir okkur er rökrétt að ætla að mannleg greind muni um síðir verða óþörf.

En þróun IoT-tækni verður ekki snúið við úr þessu. Það er orðið of seint. Hvað ættum við þá að gera til að temja hana? Áskorunin sem fyrirtæki, stjórnvöld og, já, sjálft mannkynið standa frammi fyrir er hvernig hægt sé að nýta kosti IoT en samt hafa á henni mannlega stjórn.

Bílar á Ægissíðu tala við umferðarljós við Eddufelli

IoT er ekki bara framtíðartækni, heldur er hún þegar fyrir hendi. Hún er kannski ekki orðin að því víðtæka neti sem þú ímyndar þér þegar þú heyrir hugtakið – algerlega tengdir, alþjóðlegir innviðir þar sem ísskápar við Reykjavíkurveg tala við bíla á Ægissíðu, sem tala við umferðarljós við Eddufell, sem tala við byggingar í Ásakór o.s.frv. – en heimurinn er þegar uppfullur af milljörðum tækja sem hin ýmsu fyrirtæki eru að tengja saman til að byggja upp sína eigin IoT innviði, til að safna gögnum sem þau nota til að bæta rekstur sinn.

Hvaða not hafa fyrirtæki og stjórnvöld af IoT?

Klisjukennda dæmið er ísskápurinn sem skynjar hvaða matvæli eru á þrotum og pantar mat fyrir þig án þess að þú þurfir að gera nokkuð, en nefna má mun mikilvægari not. Getan til að safna gögnum úr mörgum áttum og greina þau nýtist nú þegar á sviði heilbrigðisþjónustu, orkustjórnunar, forvarna gegn glæpum, umferðarstjórnunar, matvælaframleiðslu og flutninga.

Hún kemur einnig að gagni við markaðssetningu. Jafnvel þótt ísskápurinn þinn sé enn ekki orðinn þráðlaus, þá gætu mörg önnur tæki  – síminn þinn, sjónvarpið, hljómtækin, fartölvan, úrið, og jafnvel bíllinn –  hjálpað einhverjum öðrum að skilja þig betur og þar með að gera markaðssetningu sína gagnvart þér skilvirkari.

Hvers konar ógn stafar af IoT?

IoT snýst um að safna gögnum úr mörgum áttum og læra af þeim; því stærri sem gagnauppsprettan er, því betra og hraðara er námið. Þannig er rökrétt að með tímanum muni öll netkerfin renna saman til að mynda eitt yfirgripsmikið IoT-net. Hver mun standa í vegi fyrir slíkri rökréttri þróun? Sannarlega ekki tölvurnar sem við erum að þjálfa til að taka ákvarðanir af þessu tagi.

Hawking hélt því fram að gervigreind myndi „öðlast sjálfstæði og endurhanna sjálfa sig með síauknum hraða“. Það er jú einu sinni markmiðið með gervigreind – að læra, að lagfæra eigin galla, að bæta sig, og að gera þetta allt saman sífellt hraðar. „Mannverur“, bætti Hawking við, „sem sæta takmörkunum hægrar líffræðilegrar þróunar, geta ekki keppt við þetta og verða leystar af hólmi."

Þetta virðist vera rökrétt niðurstaða hinnar alþjóðlegu þróunar í þá átt að þjálfa tölvur til að hugsa fyrir okkur, en hvað ættum við þá að gera öðruvísi? Hvernig getum við haft hemil á sjálfstæði vélanna og staðið vörð um mannkynið, en samt notið góðs af þeirri gríðarmiklu afkastagetu sem IoT býður upp á?

Gætu tölvuþrjótar náð yfir stjórn á tækjum heimilisins?

Talið er að neikvæð áhrif IoT gætu orðið hvað mest á sviði persónuverndar og öryggis. Um er að ræða nátengd svið sem báðum stafar mikil ógn af gríðarlegri fjölgun gagnasöfnunartækja (skynjara). Líta má á IoT sem fjölmarga aðgangspunkta sem óprúttnir aðilar geta nýtt sér til að fremja illvirki.

Sem stendur höfum við áhyggjur af því að töluþrjótar nái stjórn á tölvum okkar, eyði skrám og millifæri fjármuni af bankareikningum okkar. En hvað ef þeir gætu náð stjórn á tengdum búnaði á heimili eða skrifstofunni  – hitakerfinu, lýsingunni, vatnskerfinu, rafmagninu, netaðganginum. Afar mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir geti tryggt öryggi þessara aðgangspunkta til að viðhalda trausti og tiltrú almennings á kerfinu.

Einnig er hugsanlegt að skerpa þurfi á reglum sem gilda um söfnun og notkun persónuupplýsinga.  Reglur um persónuvernd voru hertar með persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins, GDPR, en þær eru oft misnotaðar og gilda alls ekki á heimsvísu. Eftir því sem fyrirtæki þróa nýjar leiðir til að nýta IoT-tækni til að auka hagnað sinn munu einstaklingar þurfa aukna vernd gegn ágengri markaðssetningu og tölvuglæpum, og þurfa líka að geta stýrt því hvaða upplýsingum þeir deila og hvaða upplýsingum þeir halda leyndum.

Hvernig getur IoT nýst þínu fyrirtæki?

Spurðu sjálfan þig þessarar spurningar: „Er markmið mitt að hefja nýjan rekstur sem nýtir IoT, eða vil ég byggja ofan á styrkleika núverandi starfsemi með því að nýta tiltekna eiginleika IoT?“ Fyrir flest fyrirtæki er síðari valkosturinn bæði raunhæfari og hagkvæmari.

Í stað þess að spyrja, „Hvernig getum við notað IoT til að bæta rekstur okkar?“, skaltu snúa spurningunni við. Greindu vandamálin sem standa fyrirtæki þínum fyrir þrifum og veltu fyrir þér hvernig best sé að leysa þau. IoT gæti reynst vera lausnin, eða hluti hennar, en ef þú reynir að gera IoT að lausninni án þess að greina fyrst hvert vandamálið sé er hætt við því að þú verjir miklum tíma og fjármunum í verkefni sem skila litlu.

IoT-tækni er sannarlega komin til að vera, og því skaltu endilega hafa hana í huga og reyna að sjá fyrir þér hvað nýting hennar gæti þýtt fyrir reksturinn þinn. Ef við getum þróað leiðir til að halda aftur af sjálfstæði gervigreindar núna – til dæmis með innleiðingu sjálfsefa  – þá er aldrei að vita nema hinn fullkomni heimur sé handan við hornið eftir allt saman.

https://images.prismic.io/new-origo/a775ae00-cbea-4926-9c46-b87200b20eb0_Origo_Asta9754_50.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Ásta Guðmundsdóttir

Forstöðumaður Þjónustumiðju

Deila bloggi