05/11/2020 • Snæbjörn Ingi Ingólfsson

Hvernig getur gervigreind hjálpað við ráðningar starfsfólks?

Hvort sem þú sem ert sammála því að vélar muni um síðir leysa starfsfólk af holdi og blóði alfarið af hólmi eða ekki, þá er ljóst að vinnuveitendur geta nýtt gervigreind strax í dag til að bæta ráðningarferli sín.

 Að endurskilgreina ráðningarhæfi

Hefðbundin ferilskrá, sem sýnir menntun og starfsreynslu, er að verða tímaskekkja. „Það sem vantar,“ segir Nick Boothroyd, einn stofnenda breska ráðningarfyrirtækisins Naturally Talented Me, „er persónuleikinn, hegðunin og viðhorfið á bak við hið ritaða orð. En það er nákvæmlega það sem margir vinnuveitendur eru að leita að:  þessir einstaklingsbundnu eiginleikar sem munu efla vörumerki þeirra og skila frábærum árangri hvað eftir annað.“

„Við getum veitt starfsfólki þá þjálfun sem þarf til að geta gegnt tilteknu starfi, en við getum ekki breytt náttúrulegum hæfileikum að ráði og við getum sannarlega ekki breytt persónuleika fólks að neinu marki. Þess vegna þurfa vinnuveitendur nýja leið til að meta umsækjendur sem getur greint eiginleika á borð við persónuleika, hegðun og viðhorf, svo sem samkennd, vandvirkni, getu til að vinna með öðrum, áreiðanleika og sjálfstæði.“

„Þetta er eiginleikarnir sem munu vekja hrifningu viðskiptavina, hvetja samstarfsfólk til dáða og efla vörumerki með jákvæðum samskiptum.“

Að bera kennsl á náttúrulega hæfileika

Upptalningu á áhugamálum og tómstundum er gjarnan sleppt í ferilskrám, eða eru í besta falli álitin vera aukaatriði sem segja lítið til um getu umsækjandans til að gegna starfinu sem sótt er um. En Boothroyd, sem hefur sinnt ráðningarmálum hjá Rank Group, Merlin Entertainments, Prezzo og The Body Shop, lítur einmitt á þessi atriði fyrst. Hvers vegna? „Vegna þess að það hvernig fólk ákveður að verja frítíma sínum veitir ákveðna innsýn í raunveruleg áhugasvið og ástríður þess, og þar með náttúrulega hæfileika þess.“

Naturally Talented Me notar gervigreind til að hjálpa atvinnuleitendum að bera kennsl á sína eigin náttúrulega hæfileika út frá áhugamálum og tómstundum sínum, og hjálpar síðan vinnuveitendum að finna fólk sem býr yfir þeim hæfileikum sem þeir sækjast eftir. Gervigreindin lærir stöðugt af ílagi nýrra umsækjenda og óskum nýrra vinnuveitenda, og þannig verður ferlið sem felst í því að finna réttu störfin fyrir umsækjendur, og rétta starfsfólkið fyrir vinnuveitendur, sífellt nákvæmara með tímanum.

Að spara tíma og kostnað við ráðningar

Ráðning starfsfólks er stór kostnaðarliður hjá vinnuveitendum. Að greiða ráðningarfyrirtæki fyrir forskoðun umsækjenda getur kostað mikið fé fyrir hverja ráðningu, og ef það er gert innanhúss getur kostnaðurinn, talinn í fjölda vinnustunda, verið jafnvel enn hærri.

Sum störf eru þess eðlis að umsækjendur um þau telja hundruðum og stór hluti þeirra er alls ekki hæfur til að gegna starfinu. Hjá fyrirtækjum sem ráða mikinn fjölda starfsfólks á hverju ári getur kostnaðurinn verið ríflegur og mikill tími farið í að sigta út óhæfa umsækjendur.

Gervigreind getur sparað fyrirtækjum þennan kostnað. Ráðningarstjórar geta þjálfað reikniritið ekki aðeins til að þekkja nauðsynleg hæfisskilyrði, heldur einnig til að kanna náttúrulega hæfileika og jafnvel að taka viðtöl. Þjarkinn Vera er rússnesk gervigreindar-ráðningarlausn sem hægt er að forrita til að hringja í umsækjendur og taka viðtöl við þá. Hún hefur gefið góða raun og nýst til að ráða mjög hæft starfsfólk, svo sem hugbúnaðarverkfræðinga og jafnvel lækna

Áhyggjur af viðbrögðum atvinnuleitenda við því að starfsviðtalið þeirra sé tekið af þjarka hafa reynst ástæðulausar. Enginn hefur skellt á þjarkann Veru. Þvert á móti fannst umsækjendum gervigreindarnotkun vinnuveitandans bera vott um að hann væri framsýnn og fljótur að tileinka sér nýja tækni.

Að prófa hæfni í sýndarveruleika

Þegar komið er á þann stað í ráðningarferlinu að aðeins hæfir umsækjendur eru eftir gæti verið skynsamlegt að prófa þá með ímynduðum aðstæðum til að sjá hvernig þeir bregðast við. Þú getur gert það með því að lýsa ákveðinni sviðsmynd og biðja þá að segja hvað þeir myndu gera – sem ekki er sérlega raunverulegt eða upplýsandi, þú getur ráðið þá til reynslu til að sjá hvernig þeir sinna starfinu í reynd – sem er bæði tímafrekt og óskilvirkt, eða þú getur skapað sviðsmyndir í sýndarveruleika sem setja þá strax í afar raunverulegar aðstæður þar sem þú getur fylgst með viðbrögðum þeirra í rauntíma.

Lloyds Banking Group hóf að nota sýndarveruleika við ráðningar starfsfólks árið 2017. Sýndarveruleiki gerir vinnuveitendum kleift að setja umsækjendur í tölvugerð umhverfi og leggja fyrir þá þrautir sem ómögulegt væri að endurskapa í hefðbundnu starfsviðtali. Þetta er beggja hagur: vinnuveitandinn fær betri upplýsingar um hæfni umsækjandans og umsækjandinn fær betri innsýn í starfið sem hann gæti verið ráðinn til að gegna.

 Gervigreind nýtist afar vel við ráðningu starfsfólks. Hún getur auðveldlega annast tímafrek verkefni á borð við að sía út umsækjendur sem ekki uppfylla hæfisskilyrði og þannig sparað fyrirtækjum ómældan tíma og kostnað. Hún getur einnig nýst við sérhæfðari verkefni á borð við að bera kennsl á hæfileika og taka starfsviðtöl.

Í heimi þar sem þörfin til að finna hæfileikaríkt starfsfólk sem getur unnið við hlið gervigreindar fer sívaxandi getur gervigreind verið lykillinn að því að finna þá mannlegu hæfileika sem vinnuveitendur þurfa á að halda.

https://images.prismic.io/new-origo/078b477b-b957-471b-b9a2-4f02e1bdfee7_Sn%C3%A6bj%C3%B6rn+Ingi.jpg?auto=compress,format

Höfundur blogs

Snæbjörn Ingi Ingólfsson

Viðskiptastjóri hjá Origo

Deila bloggi