23/10/2024 • Anna Margrét Gunnarsdóttir
"Já! Við þurfum hönnuð, en hvernig hönnuð?"
Hvernig vitum við hvort að við þurfum hönnun á sjálfu notendaviðmótinu (User Interface) eða á upplifun notandans (User Experience)?

Notendaupplifun (UX) og notendaviðmót (UI)
Fegurð eða virkni?
"Vá! Þarna er það" - Þetta var án efa fallegasta viðmót landsins, jafnvel heimsins!, hugsaði ég með mér. Ég trúði varla mínum eigin augum og hlakkaði til að byrja að nota nýja viðmótið. Ég hafði unnið með hönnuði að litavalinu og valið myndirnar. Ég gekk alveg að skjánum og vissi nákvæmlega hvað ég þyrfti að gera, þetta yrði góður vinnudagur. En bíddu... hvernig byrja ég? Hvar er innskráningin? Er ég kannski skráð inn? Þarf ég að skrá mig inn? Hvern spyr ég? Hvað gerist ef ég ýti á þennan takka?...
Fallega viðmótið í dæminu hér að ofan er með fullkomna hönnun þegar kemur að útliti viðmótsins (UI). Hönnuðurinn sem sá um útlit viðmótsins algjörlega nelgdi það - enda vann viðkomandi með notandanum að því. En hvað gerðist? Af hverju getur notandinn ekki byrjað vinnudaginn sinn með þessari óaðfinnanlegu hönnun?
Mikilvægt er að þegar hefja á hönnunarferli að byrjað sé á réttum enda. Rannsaka þarf virkni vörunnar með öllu teyminu og í gegnum allt ferlið þarf að hafa endanotandann (The end user) í fyrirrúmi, bæði þarfir hans og skilning. Í fæstum tilfellum eru þeir sem að vinna að verkefninu endanotendur og því er mikilvægt að vinna að virkninni með þeim. Eins og kom fram í dæmisögunni hér að ofan þá er lokavaran ekki að mæta öllum þörfum notandans þar sem eingöngu var lögð áhersla á útlit og fallega hönnun en ekki á virkni. Það er gaman að skapa og gera fallega hluti innan hönnunar, en má það aldrei ganga framar mikilvægi þess að varan virki.
Við förum aftur á móti þá leið að hanna með notendum, það kallast Samvinnuhönnun eða Collaboration Design á ensku. Þar er lögð áhersla á að teymi hafi sameiginlega stefnu og noti styrkleika hvors annars til þess að fá sem besta niðurstöðu.
Anna Margrét Gunnarsd.
•
Design Lead
Oft hefur heyrst að það eigi að hanna fyrir notendur. Við förum aftur á móti þá leið að hanna með notendum, það kallast Samvinnuhönnun eða Collaboration Design á ensku. Þar er lögð áhersla á að teymi hafi sameiginlega stefnu og noti styrkleika hvors annars til þess að fá sem besta niðurstöðu. Með þessi skrif hér að ofan í huga skulum við sökkva dýpra í hlutverk hönnuðar sem að einblínir annars vegar á upplifun notenda og hins vegar á útlit viðmótsins.
Notendaupplifun - UX (User Experience)
Verkefni UX hönnuðar er að þekkja og leysa vandamál notandans með því að kortleggja notendaupplifunina frá upphafi til enda. Notendaupplifun einbeitir sér að tilfinningum notandans við notkun vörunnar. Notandi á að geta skilið lausnina og fundið það sem hann þarf án fyrirhafnar.
Markmið UX hönnuðar er að búa til auðvelda, aðgengilega og skilvirka upplifun fyrir notandann. Því er mikilvægt að UX hönnunarferli fari alltaf fram fyrst í vöruþróun.
Notendaviðmót - UI (User Interface)
Verkefni UI hönnuðar er að búa til fagurfræðilega gagnvirt viðmót. Viðmótið er það sem notandinn sér og er sambland af letri, litum, formum, grafík, myndum og smelliflötum.
Markmið UI hönnuðar er að leiðbeina notandanum sjónrænt í gegnum viðmótið. Þetta snýst allt um að búa til leiðandi upplifun sem krefst þess að notandinn hugsi ekki of mikið.
Samvinnuþróunarferli (Collaboration Process)
Eftir að hafa útskýrt þessi tvö mikilvægu hugtök, sem svo oft ruglað er saman, þá er það ljóst að þó svo þetta séu aðskildar greinar þá lifa þær á sama markmiði, ánægju notenda.
Samvinna í þróunarferli er grundvallaratriði og eina leiðin til að fá bestu niðurstöðuna. Einnig er mikilvægt að koma inn á að það getur leitt af sér afkastmeiri teymi og aukið verðmæti vörunnar.
Niðurstaðan
Það getur verið dýrkeypt að byrja á vitlausum enda í vöruþróun. Getgátur um þarfir notandans og "Við höfum alltaf gert þetta svona" þarf að sigla sinn sjó. Mikilvægi teymisvinnu þar sem nýttir eru styrkleikar hvers og eins eru í fyrirrúmi og hafa allt að segja um lokaniðurstöðu á góðri vöru. Að enda uppi með vöru sem að lítur dásamlega fallega út en býður upp á lítið annað hefur ekki mikið verðmæti í sér.
Vinnum saman, hjálpumst að, þekkjum styrkleika teymissins, vinnum með notendum og ekki síst verum stolt að því sem að við gerum/framleiðum - það er þá sem að við eigum stærsta möguleikann á góðum árangri.
Höfundar: Anna Margrét Gunnarsdóttir, Design Lead og Íris Elva Ólafsdóttir, Designer
Forvitin um meira?
Ertu með spurningar eða vangaveltur? Það væri gaman að heyra frá þér

Höfundur bloggs
Anna Margrét Gunnarsdóttir
Design Lead
Deila bloggi