12/11/2020 • Hrönn Veronika Runólfsdóttir

Snjöll truflun: Notkun upplýsingatækni til að brjóta og bæta

Það verður ekki annað sagt um Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, en að hann sé raunsær. Hann hefur sagt um viðleitni Facebook til að feta ávallt nýjar slóðir og sofa ekki á verðinum: „Ef við búum ekki til það sem drepur Facebook mun einhver annar gera það.“

Öll fyrirtæki ættu að hafa þetta í huga, sérstaklega þau stóru. Ekkert varir að eilífu, sama hversu stórt og farsælt það er. Spyrjið bara Nokia.

Það er afar freistandi að breyta engu hjá farsælu fyrirtæki, að reyna ekki að lagfæra það sem virkar nú þegar. En allt frá upphafi iðnbyltingarinnar hefur sú nálgun reynst banabiti stórra fyrirtækja sem áttuðu sig ekki á eða létu hjá líða að bregðast við fyrirboðum truflana.

Ein stærsta breytingin á sjóndeildarhringnum í dag er Internet hlutanna (Internet of Things - IoT) og öflugt bandalag þess við gervigreind (AI). Gagnaöflun og gagnagreining sem fer fram án mannlegra afskipta. Er fyrirtækið þitt reiðubúið fyrir það?

Hér eru þrjár spurningar sem forkólfar fyrirtækja ættu að spyrja sig til að varðveita langlífi vörumerkja sinna.

Spurning 1: Hverjar eru þarfir viðskiptavina okkar?

Stafræn tækni hefur breytt væntingum viðskiptavina í mörgum atvinnugreinum, einkum á sviði verslunar, heilbrigðisþjónustu og bankaþjónustu. Í hverju tilviki hefur þetta valdið dálítilli tilvistarkreppu. Af hverju þarf fólk verslanir lengur?

Það er mikilvægt að skoða þjónustuna sem þú veitir og spyrja sjálfan þig, „Þarf fólk þetta ennþá. Og ef ekki, hverjar eru þá þarfir þess?“

Í stað þess að einblína á hinar tilteknu vörur sem þú býður upp á skaltu velta fyrir þér hver ávinningurinn af þeim er. Banki veitir til dæmis íbúðarlán og bílalán en er það þetta sem viðskiptavinir hans vilja í raun? Nei. Þá langar í heimili og bíla. Og við gætum tekið þetta lengra. Á meðan suma langar í bíla vegna þess að þeim finnst þeir flottir og líta á þá sem stöðutákn vilja aðrir aðeins komast leiðar sinnar. Hvernig getur fyrirtæki þitt þá uppfyllt þessa þörf?

Spurning 2: Hvernig getur stafræn tækni bætt það sem við gerum núna?

Verslanir hafa verið í fararbroddi notkunar á Interneti hlutanna og gervigreind til að bæta upplifun viðskiptavina og mæta síauknum kröfum þeirra. Fyrirtæki á borð við Amazon voru fljót að átta sig á gildi upplýsinga um hegðun viðskiptavina og nýta þær til að ákvarða eftirspurn eftir vörum og þjónustu af mikilli nákvæmni.

Áður en þú íhugar að nota Internet hlutanna til að safna nýjum upplýsingum skaltu skoða upplýsingarnar sem þú býrð nú þegar yfir. Flest fyrirtæki sitja á fjársjóði viðskiptavinagagna sem þau nýta sér ekki. Hvernig getur þú notað gervigreind á gögnin sem þú býrð yfir – að sjálfsögðu þannig að persónuvernd sé virt – til að ákvarða betur þarfir viðskiptavina þinna og bæta upplifun þeirra?

Það sem Internet hlutanna býður upp á til viðbótar þessu eru nýjar upplýsingar í rauntíma, svo þú getir aðlagað vöru- og þjónustuframboð þitt afar hratt að breyttri eftirspurn. Þessi tækni hefur reynst afar gagnleg á sviði flutninga, með því að gera fyrirtækjum kleift að fylgjast með ólíkum þáttum á borð við umferð, innflutnings- og útflutningsgjöld og akstursupplýsingar til að ákvarða bestu flutningsleiðirnar og lækka verð til viðskiptavina.

 

Spurning 3: Hvernig er hægt að nýta stafræna tækni til að vinna nýja markaði?

Í gegnum tíðina hefur tilhneiging fyrirtækja verið sú að halda sig innan síns afmarkaða markaðar vegna mikils kostnaðar sem fylgir því að færa út kvíarnar. En fyrsta bylgja stafrænnar truflunar sýndi okkur að það á ekki endilega við lengur, þegar lítil sprotafyrirtæki hristu upp í hlutunum með því að markaðsvæða hugmyndir sínar á skjótan hátt með litlum tilkostnaði.

Þetta hefur breytt því hvernig fyrirtæki ættu að skilgreina sig. Þau ættu að horfa á það sem þau eru góð í, en ekki það sem eru að gera. Veitandi heilbrigðisþjónustu gæti til dæmis litið á sig sem stofnun sem annast þá veiku. En hún gæti líka stært sig af því að vera fyrirtæki sem veitir viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu, nýtur trausts notenda sinna, hefur á að skipa starfsfólki með sérfræðiþekkingu, er annt um sjúklinga, o.s.frv. En hvernig er þá hægt að nýta þessa styrkleika til að færa út kvíarnar? Og hvernig getur stafræn tækni gert það kleift?

Fyrirtæki sem státar af góðum orðstír og mikilli sérþekkingu ætti ekki að reynast erfitt að stækka vöruframboðið. Og með því að nota Internet hlutanna og gervigreind til að auka skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar, og þar með að draga úr kostnaði, mun reksturinn í heild njóta góðs af hinni auknu áherslu á stafræna tækni.

 Þegar rekstur fyrirtækisins gengur vel er einmitt tíminn til að velta því fyrir sér hvað gæti orðið því að falli. Hvers vegna? Vegna þess að þá hefur fyrirtækið nægt fjárhagslegt bolmagn, sjálfstraust og ráðrúm til að kanna nýjar hugmyndir. Skilgreindu hverjar brýnustu þarfir viðskiptavina eru, ákvarðaðu hvernig fyrirtæki þitt getur mætt þessum þörfum og beislaðu afl upplýsinga til að veita þjónustu sem markar tímamót.

https://images.prismic.io/new-origo/ab8fa9a6-4055-41bd-b31c-5fdc81da3ee0_Hr%C3%B6nn+l%C3%ADtil+mynd.jpg?auto=compress,format

Höfundur bloggs

Hrönn Veronika Runólfsdóttir

Digital Customer Success Manager

Deila bloggi