15/02/2023 • Birta Aradóttir

Tækniþróun yfir hálfa öld

Það var ekki bara horft fram á veginn á UTmessunni í Hörpu á dögunum, heldur einnig um öxl.

Forveri tölvunnar sýnir hversu stórt stökkið yfir í netta tölvur nútímans er

Sýning úr safni Ský á tölvum og tækjum frá síðar helmings tuttugustu aldar var hluti af UTmessunni í ár, þar sem hægt var að skoða allt frá reikningsútskriftarvélum frá þriðja áratugnum til fyrstu kynslóðar af fartölvu. Það er óhætt að segja að allir viti að tækninni hafi fleygt fram á þessum tíma en að sjá forvera tölvunnar sem minnir meira á saumavél en nettar tölvur nútímans eykur skilningin á hve stórt stökkið í raun og veru var.

Upplýsingar á gataspjöldum

„Elstu tækin sem við erum með eru svokallaðar skýrsluvélar. Þær fyrstu komu hingað til lands árið 1949 og fóru til Hagstofunnar. Seinna fær Ský til sín línu af tækjum til að vinna með gataspjöld. Þessar vélar eru undanfari tölvanna og voru á sínum tíma skilvirkasta leiðin til að vinna mikið magn af upplýsingum. Það þurfti nokkrar vélar til að vinna saman, m.a. gatara til að gata upplýsingar í gataspjöldin og raðara til að raða þeim upp í rétta röð. Vélarnar sinntu ýmsum verkefnum, meðal annars að reikna út og skrifa rafmagnsreikninga,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson, einn meðlima Ský sem stóð að sýningunni.

IBM 016 er elsti spjaldgatari sem til er á landinuIBM 016 er elsti spjaldgatari sem til er á landinu

Ský er félag fólks og fyrirtækja í upplýsingatækni sem ásamt mörgu öðru, halda utan um safn tölva og tækja sem voru í notkun hér á landi seinni helming síðustu aldar. Safnið sem var til sýnis í Hörpunni á UTmessunni í ár, á sinn samastað í vörugeymslum Origo á milli þess sem það er sett fram til sýnis.

Raðarar og gatarar enn í notkun á 8. áratugnum

Tíma skýrsluvélanna lauk ekki þegar tölvan kom til sögunnar, þó hún ætti seinna eftir að leysa þær af hólmi. Aðalskrárnar færðust fyrst yfir á segulbönd og síðar seguldiska en það þurfti enn raðara og gatara til að vinna upplýsingarnar, svo þessi að því virðist forneskjulegu tæki voru í raun notuð langt fram á áttunda áratuginn.

IBM 080 raðarinn las spjöld og raðaði eftir auðkennisnúmerumIBM 080 raðarinn las spjöld og raðaði eftir auðkennisnúmerum

Seguldiskar sem geymdu 5 mb

„Fyrir mér eru gataspjaldstækin áhugaverðust. Þau eru svo sérstök,” segir Þorsteinn aðspurður um merkustu tækin á sýningunni. „Annars er erfitt að gera upp á milli tölvubúnaðarins, kannski gömlu seguldiskarnir. Þeir voru um 30 cm í þvermál, aðeins stærri en grammafónplata. Þeir geymdu upplýsingar, 5 eða 9 mb, sem er ekkert í dag. Annars er öll upplýsingageymslusagan mjög áhugaverð, frá segulböndum yfir á diskettur í ýmsum stærðum og svo á diska. Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað þetta hefur stækkað, einn farsími er margfalt stærri allt sem er að finna á þessari sýningu!“

Fyrsta fartölvan varla fartölva

Það er ekki fyrr en undir lok níunda áratugarins sem tölvur eins og við þekkjum þær fara að verða algengari í notkun hér á landi. Á þeim tíma var IBM stærsti framleiðandinn og með útibú á Íslandi. Þegar IBM lokar dyrum sínum hér tekur Nýherji við umboði fyrir fyrirtækið en Nýherji sameinast síðar TM Software og Applicon og verður að tækni- og nýsköpunarfyrirtækinu Origo.

Forveri tölvunnar sýnir hversu stórt stökkið yfir í nettar tölvur nútímans erForveri tölvunnar sýnir hversu stórt stökkið yfir í nettar tölvur nútímans er

Í kjölfar fyrstu skrefa í tölvuvæðingu koma fartölvurnar. „Fyrsta kynslóð af fartölvum, eins og sú sem var á sýningunni er varla hægt að kalla fartölvu. Þetta var færanleg tölva.” Tölvan var ekkert lík nettum fartölvum nútímans sem hægt er að rölta með í annarri hendi. Þessi var mun fyrirferðameiri og vó 13,6 kíló. Verðmiðinn var ekki síður hár en hún kostaði 1,6 milljónir króna miðað við raunvirði í dag.

Tími ævintýralegra breytinga

Það er allt að því ótrúlegt að horfa á þessi gömlu tæki og tól og hugsa til allra breytinganna sem hafa átt sér stað, ekki bara í tækninni, heldur í samfélaginu undir áhrifum tækniþróunarinnar. Gataspjaldavélarnar voru notaðar fyrir ekki svo löngu en á þeim tíma hefði samfélag þar sem snjallsímar gegna lykilhlutverki líklega hljómað eins og ævintýralegur og ótrúverðugur vísindaskáldskapur. Tækniþróunin hefur þotið áfram og það er ekki útlit fyrir að það sé nokkuð að hægjast á.

 

https://images.prismic.io/new-origo/35f94eeb-cb16-4598-86cb-fd7a70f56b35_MicrosoftTeams-image+%281%29.png?auto=compress,format&rect=946,0,3098,3442&w=900&h=1000

Höfundur blogs

Birta Aradóttir

Markaðssérfræðingur

Deila bloggi