28/08/2022 • Birta Aradóttir

Unnið við tölvur síðan orðið tölva varð til

Örn S. Kaldalóns hefur unnið við tölvur síðan að um það leyti sem tölvur komu til Íslands. Hann er nú sestur í helgan stein en þegar horft er um öxl eru ótrúlegar breytingar sem hafa átt sér stað á ferlinum.

„Það er oft talað um að biblían sé um 5mb að stærð á tölvuformi. Það er jafn stórt og diskurinn á fyrstu tölvunni sem ég kenndi á, 5 megabæt. Hún var á stærð við skrifborð,‟ segir Örn S. Kaldalóns um fyrstu System/32 tölvurnar.

Færslur gerðar með því að gata spjöld

„Fyrstu vélarnar sem ég vann við voru svokallaðar skýrslugerðarvélar. Þær unnu út frá gataspjöldum og eru forverar tölva sem við þekkjum í dag. Færslurnar voru búnar til í göturum sem götuðu spjöld. Hvert spjald hafði þá 80 stafi og til að fá gagn úr því, varð að raða spjöldunum. Við vorum með raðara og samraðara í það. Svo var allt sett í stóra vél sem las spjöldin og prentaði út.‟

Örn vann við að forrita þessar tölvur hjá Ottó A. Michelsen. Þegar Ottó var fenginn til að stýra IBM á Íslandi fylgdi Örn með og fór að vinna við tölvur nær því sem við þekkjum í dag. IBM var á þeim tíma langstærsta fyrirtækið í heiminum á sviði tölvutækni. Þegar IBM lokaði sínum dyrum hér á landi tók Nýherji við keflinu og umboði fyrir IBM tölvur. Mörgum árum síðar breyttist Nýherji í Origo.

Úrið á hendinni milljón sinnum stærra en fyrsta tölvan á Íslandi

„Fyrstu tölvan sem kom til Íslands hét IBM 1401 og var fyrsta tölvan sem ég lærði að forrita. Hún var með innra minni sem var 4k. Nú er ég með úr á hendinni sem eru 4 gb, milljón sinnum stærra heldur en minnið sem var á fyrstu tölvunni. Sú var á stærð við nokkra stóra skápa, með spjaldalesara, gatara og prentara tengda við.‟

Fyrsta tölvan, IBM 1401, kom til landsins árið 1964, sem er ári áður en orðið tölva var búið til.

Internetið stærsta byltingin

„Tölvurnar hafa skroppið svo mikið saman. Tölva sem tók heila stofu áður getur tekið tiltölulega lítið pláss á borði í dag. Hraðinn er svo margfalt meiri, gagnageymslan svo miklu stærri og ódýrari. Tölvan getur afkastað ótrúlega miklu,‟ segir Örn um stærstu breytingarnar á ferlinum.

Örn S. KaldalónsÖrn S. Kaldalóns

„Mesta byltingin er þó internetið. Það sá maður ekki fyrir. Þar er hægt að samtengja alla hugsanlega hluti, eldavélin, ísskápurinn og allar græjur heimilisins eru tengdar við netið. Skilríki eru rafræn og miklu minni þörf fyrir pappír, sem er vissulega umhverfisvæn þróun.‟

„Það sást líklega best í Covid hvað það er mikil hagræðing fólgin í internetinu. Stór hluti vinnumarkaðarins gat haldið áfram að sinna sinni vinnu, að heiman. Magnað að það skuli vera hægt, það er internetinu að þakka.‟

https://images.prismic.io/new-origo/35f94eeb-cb16-4598-86cb-fd7a70f56b35_MicrosoftTeams-image+%281%29.png?auto=compress,format&rect=946,0,3098,3442&w=900&h=1000

Höfundur blogs

Birta Aradóttir

Markaðssérfræðingur

Deila bloggi