13/01/2026

„Alltaf eitthvað nýtt og spennandi í gangi eftir 26 ár í upplýsingatækni “

Í þessu viðtali kynnumst við Esther, reynslumiklum viðskiptastjóra en hún hefur starfað hjá félaginu í 26 ár. Við fengum að skyggnast inn í daglegt líf Estherar og heyra um hennar tíma hjá félaginu.

Esther Björk Davíðsdóttir er afar reynslumikil í tækniheiminum en hún hefur starfað hjá Origo síðastliðin 26 ár. Esther hefur gegnt fjölmörgum hlutverkum á þessum tíma. Hún byrjaði á þjónustuveri, vann síðar meir í samninga- og reikningsgerð og eftir það sem deildarstjóri yfir samninga- og reikningsgerð og þjónustuveri Nýherja.  Hún hefur síðustu tíu ár starfað við viðskiptastýringu.

Við fengum að skyggnast inn í daglegt líf Estherar og heyra um hennar tíma hjá félaginu. „Dagarnir mínir eru skemmtileg blanda af fundum, áhugaverðum samtölum og góðum kaffibollum,” segir Esther.

Ég hitti viðskiptavini, hlusta á þeirra þarfir og ógnir og reyni að finna leiðir til að gera þeirra líf auðveldara og öruggara. Á sama tíma fylgist ég vel með því sem er að gerast hjá okkur í Origo svo ég geti miðlað áfram nýjungum og öllum þeim flottu hlutum sem við erum að gera. Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi í gangi í tækninni sem gerir starfið og dagana fjölbreytta og lifandi.

Esther Björk Davíðsdóttir

Viðskiptastjóri

Það var fyrir mikla tilviljun að Esther leiddist inn í þennan starfsvettvang en það var góð kona sem benti henni á starf á þjónustuborði fyrir aldamótin 2000. „Ég hikaði þar sem ég vissi ekkert um tækni og tölvur. Ég fékk vinnuna og sló til og hérna er ég enn þá 26 árum síðar.”

Lögga og bófi

Esther hefur margar góðar sögur að segja sem hafa gerst á hennar starfsferli. Hún deilir með okkur skemmtilegu atviki sem átti sér stað eftir árshátíðarferð með Nýherja. „Við vorum að koma úr árshátíðarferð frá London með Nýherja. Ég sótti strákinn minn á leikskólann og þurfti að hafa hann með mér í smá tíma í vinnunni, ég var að leysa af á þjónustuborðinu þar sem hluti af hópnum var enn þá úti. Ég hafði keypt dótabyssu handa honum sem var draumurinn, hann var ótrúlega spenntur og fékk að hafa hana með sér.  Á meðan ég festist í símtali ákvað minn maður að prófa byssuna almennilega. Það næsta sem ég vissi var að hann var kominn upp á allar hæðir í „löggu og bófa“ og búinn að skjóta þá sem í húsi voru og endaði á að skjóta forstjórann sem var þá. Ritari forstjórans kom með hann niður til mín: „Átt þú þennan!!!"

„Næst þegar hann kom með mér í vinnuna bauð forstjórinn honum í grettukepnni þar sem við vorum í mat í matsalnum, þeir orðnir bestu vinir.”

Fólkið sem gerir dagana betri

Aðspurð hvað það er sem er mest gefandi eða skemmtilegast við starfið hennar segir hún að fólkið skipti mestu máli.

Allt fólkið sem ég hitti og hef kynnst, mjög mikið af góðu og skemmtilegu fólki bæði viðskiptavinum og samstarfsfólk sem gera dagana betri. Ég er búin að eignast mjög marga trausta vini á mínum Nýherja, Skyggnis og Origo árum sem gera lífið skemmtilegra.

Esther Björk Davíðsdóttir

Viðskiptastjóri

Lærdómur, traust og tækifæri

Esther segist hafa tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum á ferlinum og erfitt sé að velja eitt sem stendur upp úr. „Það er svo margt sem væri hægt að segja frá eftir öll þessi ár, mjög mikið af flottum verkefnum sem ég hef tekið þátt í með okkar viðskiptavinum, svo eru tækfærin sem ég hef fengið til að þróast í starfi með svona flottu fyrirtæki ofarlega í huganum." 

Það er gaman að segja frá því að sum fyrirtækin sem eru í viðskiptastýringu hjá mér í dag eru búin að vera hjá mér frá því ég byrjaði sem viðskiptastjóri, fyrirtæki sem ég hef horft á stækka og dafna. Tengslin og traustið sem myndast er mér ótrúlega mikilvægt.”

Deila frétt