15/11/2021
Fótboltamót til stuðnings heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Ungar athafnakonur UAK stóðu fyrir úrslitum Global Goals World Cup sem haldið var í Origo höllinni á dögunum. Um er að ræða óhefðbundið fótboltamót þar sem markmið mótsins er að veita fleiri konum aðgengi að íþróttum.
Fjölmargar konur ferðuðust til landsins til að taka þátt en á mótinu kepptu lið frá Norðurlöndunum, Indlandi, Sádi-Arabíu, Jórdaníu og Kólumbíu. Íslenskar stjórnmálakonur voru með lið á mótinu en liðið skipuðu Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. Origo var einnig með lið á mótinu en liðið skipuðu þær Anna Margrét Gunnarsdóttir, Edda Björg Snorradóttir, Guðrún Valdís Jónsdóttir, Hildur Sævarsdóttir, María Karlsdóttir og Valdís Jónsdóttir og stóðu þær sig mjög vel.
Markmið mótsins er að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka aðgengi stúlkna og kvenna að íþróttaiðkun. Hvert lið sem tók þátt valdi sér eitt af heimsmarkmiðunum og vann verkefni með það að markmiði að styðja við það markmið bæði innan sem utan vallar. Lið Origo valdi sér heimsmarkmið nr. 5 - gender equality - og með því var lögð áherslu á að vekja athygli á launamismun kynja og baráttunni um jöfn kjör.
Mótið var í upphafi kynnt sem óhefðbundinn fótbolti, þ.e engra fótboltahæfileika krafist og liðin fengu stig í fleiri flokkum heldur en úrslitum leikja en þegar á hólminn var komið var auðvitað allt gefið í og baráttan hörð. Lið Saudi Arabíu og Jórdaníu komust í undanúrslit og Jórdanía stóð uppi sem sigurvegari að lokum eftir spennandi úrslitaleik. Sigurinn var hjartnæmur og tár voru felld, en lönd þessi eiga baráttu fyrir höndum er kemur að aðgengi stúlkna að íþróttaiðkun. Þess má geta að prinsessa Jórdaníu var með jórdanska liðinu í för en henni eru réttindi kvenna afar hjartfólgin.
Deila frétt