02/12/2025
Frá forvitni í frábærar lausnir
Í þessu viðtali kynnumst við Ævari Þór, þróunarleiðtoga hjá Origo. Hann segir frá því hvernig starfsferill hans í tækni hófst óvænt með tilkomu iPod touch árið 2007 og fer með okkur í gegnum hefðbundinn vinnudag.

Ævar Þór Gunnlaugsson starfar sem þróunarleiðtogi (e. Dev Lead) hjá Origo, þar sem hann leiðir tæknilega þróun, hannar lausnir og styður teymið í daglegu starfi. Hjá Ævari hefst vinnudagurinn á teymisfundi þar sem farið er yfir stöðu verkefna og næstu skref.
„Eftir fundinn sest ég niður og held áfram að útfæra þá virkni sem mér hefur verið úthlutað. Um hádegisbil fer ég í mat, tek stundum einn píluleik með samstarfsfólki og held svo áfram með verkefnin mín,” segir hann. Dagarnir eru þó aldrei eins. „Stundum eyði ég mestum tíma í forritun en aðra daga eru margir fundir eða samráð um hönnun og tæknilegar ákvarðanir.”
Ipod touch upphafið á öllu
Ferill hans í tækni hófst óvænt þegar Ipod touch kom á markað. „Viðmótið var mjög einfalt á þessum tíma. Tónlist, vafri, Youtube og reiknivél," rifjar hann upp. Það var ekkert App Store, ekkert til að sækja. Frændi hans sýndi honum hvernig hægt væri að hakka tækið og setja inn efni, þar á meðal iCopter, leikur sem varð strax vinsæll í frímínútum.
Þá kviknaði forvitnin hjá Ævari. „Hvað get ég sett inn næst?" Fljótlega fóru vinir, kunningjar og að lokum fullorðið fólk að biðja Ævar um að "jailbreaka" og opna tækin sín. „Í dag finnst mér ótrúlegt að fólk hafi treyst 13 ára krakka fyrir þessu, en það gerðist samt." Þessi forvitni fylgdi Ævari út grunnskólann. „Ég horfði aldrei á þetta sem eitthvað alvarlegt, heldur bara leið til að læra og leika mér með tæknina." Hann fiktaði í skólatölvum, setti inn leiki sem hann faldi í ósýnilegum möppum á sameiginlega drifinu og bjó til litlar "scriptur" sem gáfu honum aðgangsheimildir.”

„Ég gat meira að segja slökkt á öllum tölvunum í skólanum með einum smelli." Eftir grunnskóla fór Ævar í framhaldsskóla á náttúrufræðibraut, í lífefna- og sameindafræði. "Fólk fór að spyrja: „Af hverju ferðu ekki bara í tölvunarfræði?" Ég hélt fyrst að það sem ég hafði verið að gera tengdist því ekki, en þegar ég loksins stökk út í það, þá small allt saman – og hér er ég í dag, enn að fikta, bara í aðeins stærri kerfum.”
Það sem heillar mest er þegar kóði lifnar við
„Mér finnst mest gefandi þegar tæknin sem ég er að vinna með fer að lifa á skjánum, þegar eitthvað sem var bara hugmynd verður að raunverulegri virkni sem fólk notar daglega. Það er líka mjög ánægjulegt að vinna í verkefnum þar sem kóðinn hefur raunveruleg áhrif, eins og að búa til nýjan vef Veðurstofunnar. Ég hef líka gaman af því að kafa djúpt í flókin tæknileg vandamál og finna lausnir sem eru bæði snyrtilegar og skilvirkar. Það er ákveðin gleði í því þegar eitthvað flókið í útfærslu fer loksins að virka eftir marga daga af fundum og höfuðverkjum."
Ævar hefur tekið þátt í fjölda fjölbreyttra verkefna og segist vera stoltur af öllum, en nokkur standa upp úr. Hann lýsir því að það séu litlu sigrarnir sem byggi upp stoltið.
Ef ég ætti að nefna dæmi, þá er ég sérstaklega stoltur af kortavirkni gottvedur.is, sem hefur þróast í öflugt og notendavænt kerfi fyrir veðurgögn.
Ævar Þór Gunnlaugsson
•
Dev Lead
„Einnig bjó ég til gervigreind fyrir Tollvís sem les vörulýsingar, finnur viðeigandi tollflokka og aðstoðar starfsfólk að velja rétta flokkun.“
Selló, svarta beltið og 3D prentun
Fáir vita að Ævar spili á Selló og æfði Taekwondo í mörg ár, náði svarta beltinu og var um tíma í landsliðinu. Auk þess hefur hann gaman af því að hanna og 3D prenta alls konar nytsamlega hluti. „Það sameinar tækni, hönnun og smá nördaskap á besta hátt.”
Aðspurður hvaða app hann noti mest svarar hann: „Samkvæmt símanum mínum er það TikTok. Ég veit, ekki mjög glæsilegt svar, en ég lofa að algórithminn minn er frábær. Þar blandast saman tækni, húmor og fólk sem vísvitandi setur sig í óþægilegar eða skrítnar aðstæður, bara til að hrista upp í norminu og gera eitthvað óvænt. Kannski segir það einfaldlega að ég hef gaman af fólki sem er ekta, ófeimið og pínu skrítið.“
Deila frétt