05/11/2021

Frá sama bæ og Emil í Kattholti

María Hedman starfar á hugbúnaðarsviði Origo en hún er vörueigandi CCQ (Cloud Compliance & Quality). CCQ er nýjasta varan á 25 ára þróunartímabili þar sem fyrsta lausnin, FOCAL, var sett á markað árið 1993.

Maria Hedman

,,Ég byrjaði að starfa árið 2001 hjá FOCAL og ég man sérstaklega eftir einu áhugaverðu atviki, þegar FDA í Bandaríkjunum kynnti ný lög, 21 CRF Part 11, sem áttu að taka gildi í maí 2003. Til að gera langa sögu stutta var verið að setja lög um meðhöndlum rafrænna undirskrifta. Hins vegar var lögunum frestað þar sem FDA áttaði sig á að heimurinn var ekki tilbúinn. Á þeim tíma hafði FOCAL meðhöndlað rafrænar undirskriftir í 10 ár. Það má nefna að stjórnkerfi í þá daga voru oft rekin á pappírsformi og einbeitingin meiri á að fá og viðhalda vottun sem var einskonar stimpill fyrir fyrirtæki og einungis áætlað stjórnendur," segir María.

Engu að síður, heimurinn er alltaf að breytast og í dag er ekki nóg að hafa bara vottun í höndunum og að halda úttektaraðilum ánægðum án þess að taka tillit til hvort þetta er auðlesið og auðfinnanlegt. ,,Í dag er miklu meiri áhersla á að virkja alla starfsmenn og það er mælikvarðinn til að meta árangur fyrirtækja. Auðvitað er þetta rétta leiðin. Þetta snýst ekki um að drösla starfsmönnum í gegnum könnun á netinu og tékka þannig í ákveðið box í kafla á ISO staðli. Markmiðið er að auka þekkingu starfsmanna, bæta öryggi og þannig tryggja góðan rekstur fyrirtækjanna," segir María.

 Einföld leið til að finna upplýsingar

 Í CCQ er öllum upplýsingum safnað saman á einn stað og er einföld leið til að finna upplýsingar. ,,Í dag vinnur fjöldi notenda á öllum stigum með CCQ daglega. Þegar við náum þessu árangri, þá tel ég að við höfum náð okkar markmiði. Ég kalla þetta fólk #CCQlovers, segir Maria og brosir. Það má einnig nefna að starfrænt vottunarferli er algengt hjá notendum í CCQ þar sem endurskoðandi fær tímabundinnaðgang á meðan á úttektarferlinu stendur. CCQ er eina lausnin á Íslandi sem er í samstarfi með Staðlaráði Íslands og eru helstu staðlarnir innbyggðir í CCQ. Það einfaldar vottunarferlið alla leið," útskýrir Maria.

Origo gerði nýlega nokkra endurskipulagningu og sprotalausnir er ný deild innan hugbúnaðarsviðs. ,,Á þeim tíma fengum við nýjan yfirmann og ég verð að segja að ég er mjög ánægð með þessa breytingu. Nýi stjórnandinn okkar hefur hjálpað okkur að verða markvissari. Teymið samanstendur af starfmönnum á Íslandi, Serbíu og Póllandi. Í dag vinnum við stranglega eftir Agile og Scrum aðferðarfræðinni með viku sprettum, við erum með þrjá spretti í einni útgáfu þá er lausnin sett í code-freeze og prófun áður og hún er gefin út. Þessi nálgun gefur okkur nákvæmari fókus og við höfum fengið miklu betri yfirsýn á því hversu mikið við getum þróað í einni útgáfu. Við getum veitt viðskiptavinum okkar nákvæmari upplýsingar á þeim málum sem þau bíða eftir og hvenær næsta útgáfa er væntanleg."

Vinnan tekur stórt pláss í lífinu

 María segist elska vinnuna sína. ,,Fyrir nörd eins og mig tekur vinnan stórt pláss í lífinu. Þá er gott að hafa eitthvað allt annað að gera í frítímanum. Þegar ég er með fjölskyldunni og hestunum get ég hvílt hugann og mér finnst mjög gaman að vera á hestbaki úti náttúrunni. Sem móðir þriggja stúlkna hef ég fengið þá ánægju að fá að vera hluti af lífi þeirra og áhugamálum sem eru listskautar, leikfimi og ballett. Nú er bara sú yngsta eftir í listskautum og já, það er ennþá ánægjulegt að vakna 07.30 á sunnudagsmorgni bara til að vera fluga á veggnum og fá fylgjast með hæfni hennar og þróun."

Prinsinn á hvíta hestinum

 María er fædd og uppalin í Smálöndunum í Svíþjóð. ,,Ég bjó í litlum bæ sem heitir Hultsfred en þar bjó einmitt Emil í Kattholti. Það var akkúrat í Hultsfred sem prakkarinn Emil keypti hestinn," útskýrir hún hlæjandi.

,,Ég flutti hingað til að prufa hvernig það er að vinna í öðru landi og ég var nú reyndar á leiðinni til baka til Svíþjóðar ári seinna. Þá kom einmitt prinsinn á hvíta hestinum, eða já hann var nú reyndar á rauðum íslenskum hesti sem hafði alveg dásamlegt tölt," segir Maria og hlær. ,,Við erum gift og eigum þessar dásamlegu stelpur saman."

Sænsk og íslensk jól

María segir að Svíþjóð sé sér mjög kært þótt prinsinn á hvíta hestinum hafi orðið þess valdandi að hún snéi ekki aftur og hefur búið á Íslandi. ,,Ég er formaður Sænska Félagsins á Íslandi og við skipuleggjum sænska viðburðir. Núna erum við að undirbúa 30 ára afmæli Lúsíu tónleika en Sænska Félagið á Íslandi er 65 ára gamalt félag. Fyrir mig er það mikilvægt að halda uppá allar hefðir. Við erum til dæmis alltaf með bæði sænsk og íslensk jól á aðfangadag, sem þýðir að við gerum ekkert annað en borða mat þann dag, segir Maria. Sænskujólin eru frá morgni til klukkan 18, sænskt jólahlaðborð í hádeginu, klukkan 15 er alltaf horft á Jólakveðja Andrésar Andar, (Kalle Anka och hans vänner önskar God Jul) sem er sami þáttur og Svíar hafa horft á frá 1963. Klukkan 18 er farið í íslenska jólamessu í Hallgrímskirkju og þar á eftir hefjast íslensku jólin með öllum þessum lækkerheitum sem því fylgja."

Deila frétt