13/01/2022

Ræktar banana og bjórhumla

Gunnar Ingi Widnes Friðriksson starfar sem lausnahönnuður á heilbrigðissviði hjá Origo. Gunnar Ingi hannar m.a. heildarkerfi í heilbrigðistækni og hugbúnaðarhönnun á Covid-19 lausnum og ýmsu sem tengist faraldrinum.

 ,,Það hefur verið gríðarlega mikil þróun á tæknilausnum í heilbrigðiskerfinu á tímum Covid-19 og stór stökk hafa verið tekin í þróun og aðlögun á ýmsum heilsulausnum.

Þetta hefur verið mikil vinna fyrir starfsfólk heilbrigðislausna Origo. Vinnudagarnir hafa oft verið mjög langir en þetta er gefandi og áhugavert að vinna að lausnum sem skipta þjóðhagslegu máli.

Einnig er ég í tæknihóp undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem unnið er að tæknilausnum tengdum evrópskum QR kóða vottorðum, vann meðal annars að tæknilausn sem nokkrar þjóðir hafa verið að nýta sér,” segir hann.

Gunnar Ingi gegnir lykilstarfi í Covid-19 teymi OrigoGunnar Ingi gegnir lykilstarfi í Covid-19 teymi Origo

 Skrifaði tölvukerfi fyrir sjúkrahús 17 ára

Gunnar Ingi hefur starfað í hálfan annan áratug hjá Origo. ,,Ég skrifaði tölvukerfi fyrir sjúkrahús þegar ég var 17 ára sem nokkur sjúkrahús tóku upp. Ég er því búinn að vera í heilbrigðiskerfum síðan ég var unglingur," segir hann og brosir.

Gunnar Ingi fór í rafmagnsverkfræði í HÍ og fór síðan í háskóla í Gautaborg í Svíþjóð í verkfræði.

,,Ég fékk vinnu hjá TM Software (nú Origo) og það er svolítið gaman að segja frá því en ég var ráðinn þegar ég var í vísindaferð með háskólanum í fyrirtækinu," segir Gunnar Ingi og hlær.

Með hænur og hunangsflugur 

Gunnar Ingi býr í Reykholti í Bláskógarbyggð nálægt Flúðum. ,,Þar sem ég bý úti í sveit þá eru áhugamálin dálítið sveitaleg. Ég og konan mín erum með litla garðyrkjustöð. Við erum að rækta ýmislegt m.a. banana, gúrkur, tómata, jalapenó, bjórhumla, hamp og ýmislegt fleira. Við erum einnig með hænur og hunangsflugur svo eitthvað sé nefnt.”

Hænur og bíflugur veita gleðiHænur og bíflugur veita gleði

Gefandi að vera í björgunarsveit

 Gunnar Ingi hefur verið í björgunarsveitum síðan hann var 16 ára. Hann hefur verið í aðgerðastjórnun björgunarsveita Suðurlands og m.a. verið formaður Svæðisstjórnar.

,,Ég var einnig í aðgerðarstjórn almannavarna vegna Covid-19. Ég var í sérhæfðum fjallabjörgunarhóp og við æfðum reglulega með áhöfn þyrlu landshelgisgæslunnar. Ég hef stýrt fjölda af stórum björgunaraðgerðum undanfarin ár. Þetta er mjög gefandi starf að taka þátt í einhverju sem skiptir verulegu máli og geta komið fólki til aðstoðar ef eitthvað bjátar á."

Giffi eins og hann er oft kallaðurGiffi eins og hann er oft kallaður

Deila frétt