20/07/2022

Helm­ing­ur sum­ar­starfs­mann­a eru konur

Við höfum sett okkur markmið um að helmingur allra nýráðinna hjá Origo á árinu verði konur. Í sumar voru ráðnir inn hátt í tuttugu einstaklingar í fjölbreytt sumarstörf hjá fyrirtækinu og hlutfall kvenna í ráðningunum er 50 prósent.

Hluti af sumarstarfsmönnum Origo

„Það eru svo mikið af áhugaverðum og skapandi störfum í upplýsingatæknigeiranum og við viljum leita fjölbreyttra leiða í að kynna störf í geiranum fyrir stelpum. Til að ná markmiðum okkar í að fjölga konum í upplýsingatækni, ákváðum við því að fjölga sumarráðningum í ár og settum okkur það markmið að helmingur sumarráðninga yrðu konur, sem varð raunin,“ segir Dröfn Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Origo.

Hluti af sumarstarfsmönnum Origo frá vinstri eru Tómas Héðinn Gunnarsson, Heiðdís Vala Þorsteinsdóttir, Örn Óli Strange, Sædís Björk Jónsdóttir, Kinga Maria Rozanska og Sindri Snær SigurðarsonHluti af sumarstarfsmönnum Origo frá vinstri eru Tómas Héðinn Gunnarsson, Heiðdís Vala Þorsteinsdóttir, Örn Óli Strange, Sædís Björk Jónsdóttir, Kinga Maria Rozanska og Sindri Snær Sigurðarson

Nýverið undirrituðu tuttugu fyrirtæki í upplýsingatækni undir viljayfirlýsingu Vertonet, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni, um að ráðast í átak til að auka þátttöku kvenna í geiranum. Origo var þar á meðal og hefur fyrirtækið skýran ásetning um að fjölga stelpum og konum í tækni á næstu árum, hvetja konur til náms í tæknigreinum og til að sækjast eftir tækifærum í tæknigeiranum.

Origo hefur skýrt markmið um að fjölga konum í upplýsingatækni og tæknistörfum. Hallað hefur á hlut kvenna í geiranum og því er mikilvægt að halda áfram að styðja við og fjölga konum í tæknistörfum

bætir Dröfn við. Mikil áhersla hefur verið lögð á að gefa ungu fólki tækifæri á störfum í tæknigeiranum. Dröfn segir að áralöng og einstök reynsla sem og hár starfsaldur séu helstu einkenni á núverandi starfsmannahópi Origo. Því sé fyrirtækið vel í stakk búið til að taka á móti ungu fólki og gefa því tækifæri til að læra af þeim reynslumeiri og þróast áfram í starfi.

„Við erum með mikið af öflugum reynsluboltum hér hjá Origo og nýtum við tækifærið í nýráðningum til að horfa til unga fólksins sem hefur önnur sjónarmið og nýjar og ferskar hugmyndir. Það er mikilvægt að tæknin sé þróuð og þjónustuð af fjölbreyttum hópi og því viljum við auka fjölbreytni í starfsmannahópnum okkar," segir Dröfn.

Hlutfall kvenna í nýráðningum hjá fyrirtækinu Origo í fyrra var alls 43 prósent og hlutfall kvenna af öllum starfandi hjá fyrirtækinu alls 29 prósent. Þess má geta að hlutfall kvenkyns stjórnenda hækkaði einnig á sl. ári. Origo er jafnlaunavottað fyrirtæki frá því árið 2018 samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 og vinnur markvisst að áframhaldandi umbótum í jafnlaunamálum.

Deila frétt