16/10/2024
Netöryggiskeppni Evrópu 2024
Markmiðið er að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi. Keppnin fór fram í Tórínó þetta árið og náði Ísland sínum besta árangri til þessa.

Netöryggiskeppni Evrópu fór fram í síðustu viku í Tórínó þar sem lið frá 31 löndum tóku þátt. Keppninni lauk síðastliðinn föstudag og endaði Ísland í 14 sæti sem er besti árangur liðsins til þessa. Fulltrúar Íslands voru 10 talsins en Netöryggiskeppni Íslands, Gagnaglíman, fór fram í maí en þeir keppendur sem stóðu sig best voru valdir í keppnishóp Íslands. Netöryggiskeppni Íslands er haldin að frumkvæði Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem Origo og Syndis eru styrktaraðilar.
Keppnin var að þessu sinni haldin í Tórínó á Ítalíu og var stórglæsileg. Fyrri keppnisdaginn var haldin hefðbundin gagnaglíma (e. jeopardy CTF), en seinni daginn var keppt í gagnahríð (e. attack/defense CTF) þar sem liðin þurfa að ráðast á kerfi hvors annars á sama tíma og þau verja sín eigin. Landsliðið stóð sig mjög vel og endaði í 14. sæti af 31, sem er besti árangur liðsins til þessa.
Hjalti Magnússon
•
Formaður Gagnaglímufélags Íslands

Mikilvægi netöryggis hefur aukist gífurlega núna í seinni tíð sem hefur leitt til vöntunar sérfræðinga á þessu sviði. Keppnin var því sett á laggirnar eftir átak hjá Netöryggissambandi Evrópu, með það markmið að vekja áhuga ungs fólks á á netöryggi.

Deila frétt