01/09/2023

Nordic Women in Tech Awards

Árlegur viðburður með það að markmiði að auka sýnileika framúrskarandi kvenna í tæknigeiranum og hvetja fleirri konur til að sækja í tæknistörf. Í ár hafa nokkrar Origo konur fengið tilnefningu sem er mikill heiður fyrir fyrirtækið.

Nordic Women in Tech Awards er samstarfsverkefni norrænna samtaka sem eiga það sameiginlegt að beita sér fyrir fjölgun kvenna í tæknistörfum og fjölga kvenfyrirmyndum í tækni. Origo er styrktaraðili viðburðarins, en viðburðurinn er haldin árlega með það að markmiði að auka sýnileika framúrskarandi kvenna í tæknigeiranum og hvetja yngri kynslóðir kvenna til að sækja í tæknistörf. 

Nordic Women in Tech Awards er í raun miklu meira en bara viðburður; þetta er hreyfing sem er tileinkuð því að viðurkenna og fagna árangri kvenna í tæknigeiranum. Með krafti fjölbreytileikans og jöfnum tækifærum eru verðlaunin mikilvægt skref í átt að því að skapa réttlátari og nýstárlegri framtíð fyrir tæknigeirann.

Í ár hefur Origo hlotið tilnefningu fyrir öfluga jafnréttisstefnu og aðgerðir í jafnréttismálum, “Initiative of the Year” en ásamt því hafa nokkrar Origo konur fengið tilnefningu sem er mikill heiður fyrir fyrirtækið. Alls voru 10 flokkar sem hægt var að tilnefna fyrir en þær Origo konur sem hafa fengið tilnefningu í ár eru:

Dröfn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Mannauðssviðs hefur verið tilnefnd í tveimur flokkum, “Women in Tech Advocate of the Year“ og “Diversity Leader of the Year“. Dröfn hefur verið yfir mannauðsmálum Origo í yfir 10 ár. Hún hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi fyrsta flokks starfsumhverfis sem ýtir undir vellíðan og nýsköpun starfsfólks ásamt því að styrkja jafnrétti og fjölbreytileika innan fyrirtækisins.

Hildur Björk Pálsdóttir sérfræðingur í jafnlaunamálum hjá gæða- og innkaupalausnum hefur verið tilnefnd í flokknum “Diversity Leader of the Year”. Hildur þróaði og stýrir hugbúnaðarlausninni Justly Pay og hefur hjálpað yfir 50 rekstrarheildum að byggja upp jafnlaunakerfi og þannig tekið þátt í að auka jafnrétti og styðja við fjölbreytileika með snjallri tæknilausn.

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir leiðtogi í breytingastjórnun hefur verið tilnefnd í flokknum “Women in Tech Advocate of the Year”. Ingibjörg hefur um árabil verið ötull talsmaður kvenna innan tæknigeirans, en hún situr einnig í stjórn Women Tech Iceland. Markmið Women Tech Iceland er að efla konur í tækni til að skapa betra og réttlátara samfélag.

Kristín Hrefna Halldórsdóttir forstöðuman hjá gæða- og innkaupalausnum tilnefnd í flokknum “Digital Leader of the Year”, ein hún leiðir vöruþróun og nýsköpun á sviði gæða- og innkaupalausna sem hafa breytt leiknum hjá viðskiptavinum Origo með árangursríkum hætti.

Maria Hedman vörustjóri CCQ hefur verið tilnefnd í flokknum “Digital Leader of the Year” en hún hefur margra ára reynslu í hugbúnaðarþróun og viðskiptatengslum í gæðastjórnun. Maria segir að markmiðið sé að gera betur í dag en í gær og því sé mikilvægt að hlusta á þarfir viðskiptavina. Hún trúir á valdeflingu starfsmanna og að rödd allra sé mikilvægur hlutur í árangursríkri vörustjórnun.

Unnur Sól Ingimarsdóttir framendaforritari hjá stafrænum lausnum hefur verið tilnefnd í þremur flokkum, “Mentor of the Year”, “Developer of the Year” og “Rising Star of the Year”. Unnur hefur komið að mörgum stafrænum verkefnum hjá Origo, þess má nefna umsóknarkerfi Stafræns Íslands, mínum síðum Eflingar, starfsmannakerfi TR og er núna að þróa ásamt teymi sínu nýjan vef Veðurstofu Íslands. 

Við erum svo lánsöm hjá Origo að undanfarin ár hefur konum fjölgað mikið og þeim fylgir þvílíkur kraftur. Það er því mjög ánægjulegt að sjá hversu margar í okkar röðum eru tilnefndar í ár. Við erum allar mjög stoltar og þakklátar að fá þessa viðurkenningu sem hvetur okkur áfram til góðra verka

Dröfn Guðmundsdóttir

Framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Origo

Sigurvegararnir verða valdir af alþjóðlegri dómnefnd skipuð tæknifólki úr ýmsum geirum á Norðurlöndunum og í ár fara verðlaunin fram á Íslandi, nánara tiltekið í Hörpunni þann 9.nóvember næstkomandi.

Deila frétt