06/11/2024

Ný framkvæmdastjórn Origo ehf.

Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Origo ehf. sem er í takt við endurskipulagningu félagsins.

Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Origo ehf. sem er í takt við endurskipulagningu félagsins til að skilja að starfsemi eignarhaldsfélagsins og rekstrarfélagsins Origo.

Síðan árið 2018 hefur vörumerki Origo gegnt tveimur hlutverkum: Annars vegar sem rekstrarfélag með fjölbreytt framboð á sviði upplýsingatækni og hins vegar sem móðurfélag fjölda dótturfélaga.

Tilgangurinn með skipulagsbreytingunni er að Origo ehf. leggi þyngri áherslu á vöruþróun og afhendingu framúrskarandi lausna og þjónustu til viðskiptavina. Eignarhaldsfélagið Skyggnir einblínir aftur á móti á að styðja eignasafn sitt til árangurs, en þar eru fjölbreytt félög innan upplýsingatækni, m.a. Origo ehf., Syndis, Helix og fleiri.

Ný framkvæmdastjórn

Nýtt skipulag hefur verið sett upp til að styðja við nýjar stefnuáherslur Origo ehf.

Örn Þór Alfreðsson verður framkvæmdastjóri orku og innviða, sem markar aukna áherslu á innviði, orku og lausnir fyrir gagnaver og aðra stórnotendur búnaðar. Örn kemur úr hlutverki framkvæmdastjóra þjónustulausna og hefur starfað hjá Origo í yfir 6 ár. Hið nýstofnaða svið samanstendur af sérfræðingum með víðtæka reynslu og þekkingu á sviði innviða og orkulausna. Í samstarfi við heimsþekkta framleiðendur eins og Nvidia, Lenovo, IBM og Schneider Electric veitir starfsfólk sviðsins ráðgjöf um sérhæfðar lausnir sem mæta þörfum hvers og eins viðskiptavinar.

Ottó Freyr Jóhannsson tekur við sviði þjónustu og reksturs. Með aukinni áherslu á rekstrarþjónustu er lagt upp með að efla frekar vöru og þjónustuframboð Origo til að styðja viðskiptavini í öruggum upplýsingatæknirekstri. Ottó er með yfir 24 ára reynslu innan fyrirtækisins en síðustu ár hefur hann leitt fjölmörg teymi sérfræðinga  sem forstöðumaður þjónustulausna Origo.

Lóa Bára Magnúsdóttir tekur við hlutverki framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála. Hún hefur leitt markaðsstarf félagins en nú sameinast sölu- og markaðssvið með það markmið að samræma betur, efla samskipti og þjónustu við viðskiptavini og styðja við vöxt.

Árni Geir Valgeirsson tók við hlutverki framkvæmdastjóra Hugbúnaðarsviðs í október. Sigurður Tómasson hefur verið framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar síðan í september, Gunnar Már Petersen er framkvæmdastjóri fjármála og Dröfn Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri mannauðs.

Með bæði nýja liðsmenn og uppröðun í lykilhlutverk styrkjum við stjórnendateymið okkar enn frekar og tryggjum að við séum í stakk búin til að takast á við áskoranir og tækifæri framtíðarinnar. Skipulagið endurspeglar þá megináherslu að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná hámarksárangri með því að hagnýta upplýsingatækni, hvort sem er á sviði framsækinna hugbúnaðarlausna, hagkvæmum rekstri öruggra tölvukerfa eða uppbyggingu á grunninnviðum samfélagsins á sviði gagnavera og orkuinnviða. Í framkvæmdastjórninni mætist fjölbreytt reynsla og ný sýn sem mun efla nýsköpun, bæta þjónustu og árangur viðskiptavina og stuðla að áframhaldandi vexti og þroska félagsins. Ég er sannfærður um að þessar breytingar munu skila okkur og viðskiptavinum okkar framúrskarandi árangri á komandi árum.

Ari Daníelsson

Forstjóri Origo

Deila frétt