06/06/2024
Ofurkraftar gervigreindar
Origo stóð fyrir afar vel sóttum viðburði þar sem ráðstefnugestir fengu innsýn í það hvernig örugg gögn geta leyst ofurkrafta gervigreindar úr læðingi.

Ertu að gefa ókunnugum gögnin þín?
Origo hélt morgunverðarfund á dögunum sem bar heitið „Ofurkraftar gervigreindar“. Á fundinum var lögð áhersla á það hvernig örugg gögn geta leyst krafta gervigreindar úr læðingi. Fjölbreyttur hópur innlendra og erlendra sérfræðinga héldu erindi um þær fjölmörgu áskoranir og þau tækifæri sem felast í margslungnum heimi gervigreindar í umhverfi fyrirtækja. Fundurinn var afar vel heppnaður og fróðlegar umræður mynduðust í pallborðsumræðum eftir að fyrirlesarar höfðu lokið máli sínu.

Gervigreind lykill að árangri
Niðurstöður alþjóðlegra kannana sýna að stjórnendur treysta á að gervigreind muni leika lykil hlutverk í velgengni þeirra næstu þrjú árin. Ljóst er að íslenskir stjórnendur hugsa á svipuðum nótum og erlendir kollegar þeirra, því uppselt var á viðburðinn og færri komust að en vildu.
Ertu að gefa gögnin þín til ókunnugra?
Fyrirlesararnir lögðu allir ríka áherslu á að margt þyrfti að varast þegar kemur að notkun gervigreindarlausna. Má þar nefna áhættuna sem stafar af því að nota gervigreindarlausnir sem eru opnar og í því sambandi var Samsung sagan nefnd, en starfsmaður fyrirtækisins setti viðkvæmar upplýsingar í hugsunarleysi inn í slíka lausn. Í kjölfarið bannaði Samsung notkun allra opinna gervigreindarlausna hjá starfsmönnum sínum.
Staðreyndin er nefnilega sú að fyrirtæki telja oft að starfsmenn þeirra séu ekki að nýta gervigreind í störfum sínum vegna þess að stefnumótandi ákvörðun hefur ekki verið tekin um ákveðin gervigreindarverkefni né hvaða lausnir skal nota. Kannanir sýna hins vegar að allt að 50% starfsmanna eru að nýta slíkar lausnir í daglegum störfum sínum.

Hvaða af 4000+ gervigreindarlausnum á að velja?
Það eru þúsundir gervigreindarlíkön til á markaðnum og hvert þeirra hefur sinn tilgang og því mikilvægt að greina hvað lausnin þarf að gera, því verkefnin eru ólík og kannski fá verkefni sem kalla á að lausnin lesi allt Internetið.
Þá þarf að skoða hvort gögnin eru örugg, aðgangsstýringar að þeim séu réttar og hvar gögnin eru geymd þannig að lög og reglur eins og GDPR séu uppfylltar.

Á lausnin að vera lokuð eða opin?
Með ofangreint í huga kemur það manni ekki á óvart að æ fleiri fyrirtæki kjósa að nota lokaðar gervigreindarlausnir í sínum innri störfum. Lausnir sem eru sérsniðnar að þeirra verkefnum og verða sérfræðingar í þeirra starfsemi. Datalab, kynnti eina slíka hugbúnaðarlausn, Ara, sem er m.a. byggð á grunni GPT-4 turbo mállíkaninu frá OpenAI og íslensku hugviti. Tekin voru dæmi um hvernig Ari nýttist hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Arion banka.
Ráðstefnugestir gengu eflaust margir út hugsandi um hver ættu að verða þeirra fyrstu verkefni og hvernig þeir geti með réttu vali á gervigreindarlausn tryggt fullt öryggi sinna gagna.

Deila frétt