10/12/2025
Birta og Kristín til liðs við Origo
Origo hefur ráðið til sín tvo nýja stjórnendur til að styðja við áframhaldandi vöxt og umbreytingu. Birta Ísólfsdóttir tekur við sem forstöðumaður markaðssviðs og Kristín Gestsdóttir mun taka við sem mannauðsstjóri fyrirtækisins.

Origo hefur ráðið til sín tvo nýja stjórnendur til að styrkja enn frekar leiðtogateymi fyrirtækisins og styðja við áframhaldandi vöxt og umbreytingu. Birta Ísólfsdóttir tekur við sem forstöðumaður markaðssviðs og Kristín Gestsdóttir mun taka við sem mannauðsstjóri fyrirtækisins.
Birta kemur til Origo með víðtæka reynslu af markaðsmálum, vörumerkjastjórnun og stefnumótun. Hún hefur leitt umfangsmikil umbreytingarverkefni og byggt upp heildstæðar markaðsstefnur. Hún starfaði síðast hjá Arctic Adventures og sat í framkvæmdarstjórn félagsins þar sem hún leiddi sölu- og markaðsmál og síðar uppbyggingu og upplifun á áfangastöðum.
Hjá Origo mun Birta leiða markaðsvið félagsins með áherslu á stefnumiðaða nálgun þar sem verður lögð áhersla á framsækna þjónustu fyrirtækisins og að skapa aukið virði fyrir viðskiptavininn.
Það er mikill heiður að leiða markaðssvið Origo og starfa með krafmiklum hópi fólks. Origo er sterkt þekkingarfyrirtæki og byggir á góðum grunni fyrir áframhaldandi vexti sem leiðandi aðili á sviði upplýsingatækni. Ég er spennt fyrir því að móta næsta kafla í markaðsstarfi félagsins og miðla áfram því virði sem fyrirtækið skapar fyrir viðskipavini sína.
Birta Ísólfsdóttir
•
Markaðsstjóri Origo
Kristín Gestsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Origo. Síðastliðin þrettán ár hefur hún starfað hjá Sýn, lengst af við mannauðsmál, þar sem hún hefur meðal annars leitt ráðningar og fræðslu, sinnt alhliða mannauðsráðgjöf og stjórnendaþjálfun auk þess að hafa tekið þátt í ferlamótun og þróun verklags á sviði mannauðsmála.
Á undanförnum árum hefur hún jafnframt unnið þétt með forstjóra og framkvæmdastjórn félagsins og gegnt lykilhlutverki í stefnumótun, meðal annars við innleiðingu framtíðarstefnu og verkefnastýringu á stórum umbreytingarverkefnum.
Origo er eitt öflugasta þekkingarfyrirtæki landsins og þar hefur verið unnið frábært starf á sviði mannauðsmála í gegnum tíðina. Ég hlakka til að taka þátt í vegferð Origo og þróa áfram framúrskarandi fyrirtækjamenningu sem styður við vöxt, vellíðan, þróun þekkingar og ánægju starfsfólks.
Kristín Gestsdóttir
•
Mannauðsstjóri Origo
„Við erum afar stolt af því að fá bæði Birtu og Kristínu til liðs við Origo. Þær koma með mikla sérfræðiþekkingu og reynslu á sínu sviði sem mun styrkja stjórnendateymið á mikilvægum tíma í þróun fyrirtækisins. Við stöndum á spennandi tímamótum þar sem áhersla er lögð á framsækna þjónustu og öfluga fyrirtækjamenningu. Ég hlakka til að vinna náið með þeim að því að byggja Origo áfram upp sem leiðandi þekkingarfyrirtæki á okkar sviði,“ segir Ari Daníelsson, forstjóri Origo.
Deila frétt