06/01/2026

Framtíðin í fókus: Gervigreindarvika Origo

Í gervigreindarvikunni fékk starfsfólk tækifæri til að fræðast, deila þekkingu og reynslu á sviði gervigreindar.

Í desember stóð Origo fyrir metnaðarfullri gervigreindarviku þar sem starfsfólk fékk tækifæri til að fræðast, deila þekkingu og reynslu og kanna ný tækifæri sem fylgja þróun á sviði gervigreindar. Vikan endaði á 24 klukkustunda hakkaþoni þar sem starfsfólk þróaði eigin hugmyndir og kynnti niðurstöður sínar. 

Af hverju er alltaf verið að tala um gervigreind? 

Vikan hófst á áhugaverðu erindi Gísla Ragnars Guðmundssonar, ráðgjafa hjá KPMG, en hann fór yfir það hvernig gervigreindin hefur þróast frá árinu 1956 yfir í þá öflugu spunagreind sem við sjáum í dag. Hann vakti athygli á því að það sem skiptir miklu máli í sambandi við gervigreind er að skilja hvað hún er og hvað hún er ekki. Þrátt fyrir sannfærandi framsetningu veit hún ekki neitt í hefðbundnum skilning heldur byggir á líkindareikning sem spáir fyrir um næsta orð út frá gögnum. Því getur hún búið til rangar heimildir og sannfærandi villur og lagði Gísli mikla áherslu á gagnrýna hugsun sem lykilhæfni framtíðarinnar. 

Þrátt fyrir að 800 milljónir manna noti ChatGPT vikulega (þegar fyrirlestur fór fram) er enn mikil óvissa um áhrif tækninnar á störf í framtíðinni og benda rannsóknir í ólíkar áttir. Spurningin er ekki aðeins hvaða störf breytast heldur hvaða verkefni við viljum að tæknin taki yfir og hvar mannleg dómgreind ætti alltaf að ráða. 

Sérstaklega áhugavert var að sjá niðurstöður CEO Outlook könnunar sem sýndi að íslenskir stjórnendur eru mun svartsýnni á vaxtarhorfur og fjárfestingu í gervigreind en erlendir. 

Landslag, öryggi og leikreglur

Í framhaldi beindi Haraldur Björnsson, DevOps Engineer hjá Origo, sjónum að notkun gervigreindar hjá fyrirtækjum og því sem getur farið úrskeiðis ef ekki er farið varlega. Hann ræddi um mikilvægi þess að setja skýrar leikreglur um hvar eigi ekki að nota gervigreind. Til dæmis ætti ekki að gefa gervigreind aðgang að viðkvæmum upplýsingum og kerfum, fjármálum eða aðgangsstýringum. Haraldur benti á að þar sem gervigreind getur ofskynjað er óásættanlegt að láta hana taka sjálfstæðar ákvarðanir og ætti mannleg rýni alltaf að vera til staðar áður en lokaákvörðun er tekin. 

Síðasta kynslóð manngerðs hugbúnaðar 

Stefán Baxter, stofnandi og framkvæmdastjóri Snjallgagna, beindi sjónum að breytingu sem er að eiga sér stað í hugbúnaðarþróun. Hann velti því upp hvort við værum síðasta kynslóð manngerðs hugbúnaðar og lýsti því hvernig hlutverk forritara er að breytast. Framvegis mun gervigreind líklega spila svo stórt hlutverk í að skrifa kóða, hanna kerfi og prófa lausnir að hlutverk okkar mannfólks færist yfir í að vera stjórnendur, hönnuðir og gagnrýnendur. 

Stór punktur var að við höfum í fyrsta sinn aðgang að nánast ótakmarkaðri greind. Ef gervigreind getur leyst ákveðið verkefni einu sinni, þá getur hún gert það aftur og aftur og á gríðarlegum hraða. Þetta hefur mikil áhrif á verkefni sem áður voru tímafrek líkt og gagnagreiningu, spálíkön, skjalavinnslu og samþættingu á milli kerfa. 

Stefán fjallaði einnig um hraða þróunarinnar síðustu 12 mánuði. Þar var meðal annars farið yfir hversu öflug open-source mállíkön eru orðin, agenta sem farnir eru að vinna saman í flóknari verkferlum og hvernig sjálfvirkni er að aukast. 

Þegar hönnun mætir kóða

Unnur Sól Ingimarsdóttir, þróunarleiðtogi og framendaforritari hjá Origo, fylgdi þessari pælingu eftir með því að sýna hvernig Figma Make og ný gervigreindartól eru þegar farin að brúa bilið á milli hönnunar og kóða. Með því að nota gervigreind geta hönnuðir farið beint úr einföldum texta yfir í fyrstu hönnunarskissur, sem sparar gríðarlegan tíma. 

Það sem meira er, gervigreindin getur núna “lesið” hönnunina, skilið hvaða hönnunarkerfi og einingar eru notaðar og umbreytt því í raunverulegan framendakóða. Unnur lagði þó áherslu á að þetta væri ekki töfralausn og að ávinningurinn væri sem mestur þegar hönnunarkerfi væru vel skilgreind, component nöfn stöðluð og samvinna teyma skýr. 

MCP sem brúin á milli gervigreindar og kerfanna þinna

Ævar Þór Gunnlaugsson, þróunarleiðtogi hjá Origo, fjallaði um eina áskorun gervigreindar í dag, þ.e. að þrátt fyrir að vera klár í samtölum og greiningu þá þekkir hún ekki kerfin okkar og getur því ekki framkvæmt aðgerðir í þeim, nema að við hjálpum henni. 

Hann fór yfir hvernig hægt er að nota MCP (Model Context Protocol) til að tengja saman marga sérhæfða gervigreindar agenta og hvernig MCP virkar sem millistykki á milli gervigreindar og kerfa. Kerfin sjálf eru ekki opnuð í gervigreindinni heldur er búin til þjónusta sem skilgreinir nákvæmlega hvaða gögn má lesa, hvaða aðgerðir má framkvæma og við hvaða aðstæður. 

Í erindinu var lögð áhersla á að MCP er ekki töfralausn heldur verkfæri sem krefst skýrrar uppsetningar. Því skýrari sem reglurnar eru því meiri verður ávinningurinn og því minni áhættan. 

Sjálfvirkar prófanir með gervigreind

Tryggvi Sigurðsson sýndi hvernig gervigreind getur breytt því hvernig sjálfvirkar prófanir eru hannaðar, skrifaðar og viðhaldið. Hann sýndi hvernig gervigreind getur nýtt samhengi úr kóða til að búa til prófanir sem endurspegla raunveruleg atvik. Með því að skilgreina skýrt snið og gefa henni gott dæmi er hægt að láta hana læra vinnulag og endurtaka það á samræmdan hátt. 

Með því að innleiða sjálfvirkar prófanir með hjálp gervigreindar aukum við hraða í hugbúnaðarþróun en við tryggjum þó ekki gæðin sjálfkrafa. Fyrstu niðurstöður eru oft ófullkomnar og krefjast leiðréttinga, en með ítrun, skýrri endurgjöf og einföldum reglum nær gervigreindin að leysa vandamálið. Hún getur þá séð um endurtekna vinnu á meðan forritarar og prófarar geta einbeitt sér að öðrum verkefnum. 

Terminalið vaknar

Jón Thoroddsen, bakendaforritari hjá Origo, beindi sjónum að því hvernig gervigreind getur orðið hluti af vinnu án þess að vera bundin hefðbundnum forritunarviðmótum. Í stað þess að laga vinnulag sitt að fyrirfram skilgreindum tólum sýndi Jón hvernig hægt er að nýta gervigreindina beint í terminal.  

Kjarni erindisins var sá að terminalið samanstendur af mörgum litlum og sérhæfðum verkefnum. Þegar gervigreindin fær aðgang að þessum verkfærum getur hún tengt þau saman, raðað skrefum og smíðað heildstæð verkflæði. Gervigreindin vinnur aðeins í því samhengi sem henni er veittur aðgangur að, til dæmis ákveðinni möppu eða verkefni. Það gerir vinnuna bæði öruggari og markvissari þar sem hún fer ekki út fyrir sitt hlutverk og notandinn hefur alltaf yfirsýn. 

Stóra myndin: Stefna, straumar og hvatning inn í framtíðina 

Til að binda enda á gervigreindarvikuna flutti Árni Geir Valgeirsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna hjá Origo, hvatningareindi þar sem hann dró saman helstu lærdóma vikunnar og horfði fram á veginn. Í erindinu kynnti hann jafnframt niðurstöður innanhússkönnunar Origo um notkun gervigreindar: 

  • 92% starfsfólks notar að minnsta kosti eitt gervigreindartól í sínu starfi 

  • 80% telja gervigreind auka skilvirkni 

  • 35% finna fyrir mikilli aukningu í skilvirkni 

  • Skilvirkni eykst almennt eftir því sem notkunartíðni gervigreindar er meiri 

Í erindinu var dregin upp skýr vegferð Origo í hagnýtingu gervigreindar en hún byggir á nokkrum þáttum; skýrri stefnu og regluverki um ábyrga notkun, öflugum gagnainnviðum, markvissri þjálfun og aðgengi að réttum verkfærum. Árni lagði líka ríka áherslu á að þrátt fyrir að tæknin þróist hraðar en nokkru sinni fyrr þá sé það fólkið, sköpunargleðin og hæfnin til að leysa flókin vandamál sem skipti mestu máli þegar kemur að raunverulegu forskoti til framtíðar. 

Þar sem hugmyndir verða að veruleika

Gervigreindarvikan endaði á hakkaþoni þar sem starfsfólk Origo fékk tækifæri til að prófa hugmyndir sínar í verki og vinna að lausnum með gervigreind í forgrunni. Það varð skýrt hvernig fræðsla, ábyrg notkun og forvitni geta leitt til raunverulegra framfara á skömmum tíma. Hakkaþonið var ekki keppni um fullmótaðar lausnir heldur vettvangur til að læra, mistakast, prófa og byggja ofan á það sem hafði komið fram í erindum vikunnar. 

Við kveðjum gervigreindarvikuna full af innblæstri og tilbúin að leiða viðskiptavini okkar inn í framtíð þar sem sköpun og tækni vinna saman að snjallari lausnum. 

Deila frétt