17/10/2025
Origo kaupir Kappa ehf. og styrkir þjónustuframboð sitt í Microsoft lausnum
Origo hefur fest kaup á öllu hlutafé hugbúnaðarráðgjafafyrirtækisins Kappa ehf., sem sérhæfir sig í innleiðingu Microsoft Business Central.

Origo hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé hugbúnaðarráðgjafafyrirtækisins Kappi ehf., sem sérhæfir sig í innleiðingu Microsoft Business Central, sem er nýjasta kynslóð viðskiptakerfa frá Microsoft. Kaupin eru hluti af stefnu Origo um að efla stöðu sína sem leiðandi samstarfsaðili fyrirtækja og stofnana í hagnýtingu Microsoft lausna, þar á meðal Business Central, Power Platform, Fabric og Azure.
Kappi ehf. var stofnað af Gunnari Þór Gestssyni, sem hefur um árabil hlotið viðurkenninguna Microsoft MVP (Most Valuable Professional) í Business Central. Gunnar hefur unnið að flóknum innleiðingarverkefnum fjárhagskerfa fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins og öðlast víðtæka reynslu og traust á sínu sviði.
"Við hjá Embla Medical höfum nýtt okkur þjónustu og ráðgjöf Gunnars í Business Central vegferð okkar undanfarin ár þar sem við höfum uppfært og innleitt fjölmörg af fyrirtækjum Emblu í Business Central. Framsýni og sérþekking Gunnars hefur reynst okkur ómetanleg á þessari flóknu vegferð. Hans þjónusta hefur verið framúrskarandi og hann er alltaf til taks þegar við þurfum á honum að halda. Við erum spennt fyrir næstu skrefum með honum og að sjá þjónustuframboðið eflast með sameiningu Kappa og Origo.
Inga Lára Sigurðardóttir
•
Delivery Manager hjá Embla Medical
„Með þessum kaupum stígum við markvisst skref í þá átt að verða leiðandi Microsoft ráðgjafi á íslenskum markaði en við tókum ákvörðun fyrir um ári síðan um að beina sjónum okkar alfarið að lausnamengi Microsoft í kjölfar sölu á SAP viðskiptalausnum. Gunnar er einn reyndasti Microsoft sérfræðingur landsins og við sjáum veruleg tækifæri fyrir fyrirtæki til að nýta sér bæði Business Central í skýinu og þá öflugu verkfærakistu sem Microsoft hefur upp á að bjóða. Við erum afar spennt fyrir samstarfinu og því sem framundan er,“ segir Ari Daníelsson, forstjóri Origo.
Tvöfaldar umsvif Origo í Microsoft Dynamics Business Central
Með kaupunum bætir Origo við sig öflugu teymi Microsoft sérfræðinga Kappa og dýpkar hæfni félagsins til að veita viðskiptavinum sínum markvissa ráðgjöf og þjónustu þegar kemur að innleiðingu fjárhagskerfa.
Mjólkursamsalan hefur keypt þjónustu af Kappa um langa hríð. Kappi með Gunnar Gestsson í broddi fylkingar hefur ávallt veitt Mjólkursamsölunni faglega þjónustu og leyst flókin verkefni sem öðrum hefur reynst ofviða. Viðskiptin hafa verið lausnamiðuð og í yfirfærsluverkefni okkar úr NAV í BC undanfarin misseri hefur nálgun Kappa verið fagleg og þjónustan sniðin að þörfum Mjólkursamsölunnar.
Ómar Geir Þorgeirsson
•
Fjármálastjóri Mjólkursamsölunnar
„Ég er mjög spenntur fyrir þeirri vegferð sem Origo er á. Ég tel mikil tækifæri fyrir viðskiptavini mína að Kappi og Origo sameini krafta sína og geti veitt enn breiðari þjónustu og ráðgjöf. Ég hlakka til að vinna með og byggja upp Microsoft skýjalausna hóp Origo og halda áfram að veita viðskiptavinum Kappa og Origo framúrskarandi þjónustu,“ segir Gunnar Þór Gestsson, stofnandi Kappa ehf.
Deila frétt