30/08/2024
Stjórnendur æfðu viðbrögð við netárás
Öryggissérfræðingar Origo og Syndis stóðu fyrir vel sóttum viðburði þar sem stjórnendur æfði viðbragð við netárás.

60% lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða gjaldþrota eftir netárás
Stjórnendur fjölmargra íslenskra fyrirtækja og stofnana komu saman á Grand Hótel í gær og æfðu sig í viðbrögðum gegn netárásum. Þetta er í annað sinn sem Origo og Syndis standa fyrir þessum viðburði á árinu en stjórnendur hafa sýnt æfingunni mikinn áhuga. Öryggissérfræðingar Origo og Syndis stýrðu netárásaræfingunni og upplifðu þátttakendur hvað kemur upp á í alvöru netárásum.

Aldrei nauðsynlegra en nú að sinna forvörnum
Tilgangur netárásaræfingarinnar var að hjálpa stjórnendum fyrirtækja og stofnana að átta sig á því flókna ferli og þeim stóru ákvörðunum sem fyrirtæki standa frammi fyrir ef þau verða fyrir gagnagíslatöku. Gestir voru fræddir um mikilvægi forvarna sem liður í undirbúningi fyrir netárás, en það er staðreynd að það er ekki lengur spurning hvort heldur hvenær fyrirtæki og stofnanir verða fyrir netárás. Þar kom einnig fram að lykilatriði er að tryggja afrit og skjóta endurheimt og vel skilgreind samskipti innri og ytri aðila svo eitthvað sé nefnt.
Þetta var frábær æfing, það var allt mjög vel skipulagt og skemmtilegt. Myndi klárlega mæla með að allir fari á svona æfingu.
Þátttakandi á æfingunni
Öll fyrirtæki óháð stærð útsett fyrir netárás
Eins og hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum misserum hafa íslensk fyrirtæki og stofnanir lent í netárásum, óháð stærð eða eðli rekstursins. Það er nauðsynlegt fyrir öll íslensk fyrirtæki að vera undirbúin fyrir netárás og vita að þau séu með nothæf afrit af gögnunum sínum eins og Örn Alfreðsson framkvæmdarstjóri hjá Origo sagði í kvöldfréttum Stöð 2.
Netárásir skapa rekstraráhættu í öllum fyrirtækjum og stofnunum enda er allur rekstur háður tölvukerfum í dag. Nauðsynlegt er að hugsa um hvernig fyrirtækið er byggt upp og meta hvaða þættir þess geta skapað mestu áhættuna fyrir reksturinn.
Örn Alfreðsson
•
Framkvæmdarstjóri Origo

Lærdómurinn
Gestir voru látnir fara í gegnum ýmsar æfingar og taka ákvarðanir með öryggissérfræðingum frá Origo og Syndis. Áhugaverðar niðurstöður komu fram á viðburðinum en má þar nefna að 36% þátttakenda töldu að þeir myndu greiða lausnargjald fyrir dulkóðuð gögn, en miklar umræður sköpuðust um hvort það væri rétt ákvörðun. Þetta sýnir mikilvægi þess að vera með skýra aðgerðaáætlun þegar fyrirtæki lenda í netárás svo hægt sé að taka ákvörðun hratt hvernig skuli bregðast við.
Deila frétt