22/10/2021

Netöryggistryggingar stórt skref til að gæta hagsmuna fyrirtækja

TM tryggingar hafa í samstarfi við Origo stigið stórt skref í að tryggja betur hagsmuni fyrirtækja með að bjóða upp á netöryggistryggingu.

Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri þjónustulausna

,,Netöryggi og þekking starfsfólks á þeim áhættum sem fylgja meiri notkun á nettengdum lausnum er orðin stór partur af fyrirtækjarekstri. Það eru töluvert meiri líkur á að fyrirtæki verði fyrir skaða og rekstrarstöðvun af völdum netglæpa en að það lendi í áður þekktum tjónum eins og bruna, vatnsleka eða náttúruhamförum," segir Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri hjá Origo.

 ,,Þetta er mjög mikilvægt og þarft skref að bjóða upp á þessa þjónustu. Það er vel þekkt að framleiðslufyrirtæki hafa lengi haft möguleika á að tryggja sig fyrir rekstrarstöðvun og er þessi trygging að koma inn sem góð viðbót. Fyrirtæki þurfa í meira mæli að treysta á uppitíma og öryggi tölvukerfa," segir Örn.

Hann bendir jafnframt á að netöryggistrygging ein og sér sé ekki vörn, en undanfari er að skoða núverandi netvarnir fyrirtækja sem óska eftir slíkri tryggingu.

Áður en gefið er út tryggingaskírteini er úttekt á núverandi vörnum gerð og mat lagt á það hvort varnir séu í samræmi við viðurkennt verklag og komið með ábendingar um hvað betur megi fara til að fyrirtæki séu með sem bestar varnir áður en tryggingaskírteini er gefið út. Fyrirtæki fá einnig í hendur lista yfir helstu áhættur sem ber að varast er snýr að starfsmönnum sjálfum og auk þess vinnureglur í kringum tölvupósta sem flæða inn frá aðilum sem ekki eru þekktir viðskiptamenn eða aðilum sem ætla að eiga samskipti án annarrlega hvata.

 Origo hefur unnið náið með TM undanfarið ár við að skilgreina og tengja saman trygginguna við úttekt á netöryggi, ráðleggja og gera viðeigandi breytingar þannig að tryggingataki sé sem best varinn fyrir mögulegum netárásum

 ,,Við erum stolt af góðu samstarfi og óskum TM til hamingju með frábært framtak í að auka netöryggisvitund, bjóða upp á tryggingu sem öll fyrirtæki ættu að vera með, tryggja þannig sterkari rekstrargunn og meiri uppitíma tölvukerfa," segir Örn ennfremur.

Deila frétt