08/07/2021

Syngur og dansar um alla Evrópu

Sólveig Ásgeirsdóttir er starfsmaður Origo og söngkona í Poppvélinni.

Sólveig starfar í notendalausnum Origo í stafrænni sölu og ráðgjöf. ,,Ég er í heildsölunni og sé aðallega um endursöluaðilana okkar. Ég byrjaði reyndar fyrst í versluninni 2018 og var aftur sumarið 2019 en fór svo yfir í heildsöluna eftir að ég flutti heim aftur. Þetta er áhugavert starf, með frábæru samstarfsfólki og ég er í samskiptum við marga ólíka viðskiptavini með fjölbreyttar þarfir. Origo er mjög gott fyrirtæki, býður uppá sveigjanleika í starfi og það er vel hugsað um starfsfólkið hér," segir hún. 

Sólveig byrjaði snemma að syngja að eigin sögn. ,,Það er talsvert mikið af tónlist í fjölskyldunni. Pabbi var í hljómsveit og mamma í kór og það var mikið spilað af Bítlunum og Queen á heimilinu þegar ég var lítil. Ég var nú mest að syngja fyrir sjálfa mig þegar ég var yngri. Ég kom ekki opinberlega fram sem söngkona fyrr en ég var allt í einu á sviði og í beinni útsendingu í Söngvakeppni sjónvarpsins 2017. Þar söng ég lagið Treystu á mig sem Iðunn systir mín samdi. Á þeim tímapunkti voru margir vinir og kunningjar sem ráku upp stór augu þegar þau sáu mig á sviðinu og höfðu ekki hugmynd um að ég gæti sungið," segir hún brosandi.

Söngferillinn hófst á öfugum enda

 ,,Ég byrjaði á stóra sviðinu í Söngvakeppninni, síðan hélt ég eigin tónleika og endaði á því að fara í söngnám í Kaupmannahöfn. Þetta hefði líklega átt að vera alveg öfugt," segir hún og hlær.

Eftir að hún lauk söngnáminu var henni boðið starf hjá sænska fyrirtækinu Sunwing Show & entertainment sem ,,Show Artist" eins og það er nefnt á ensku. ,,Ég kom fram á sviði syngjandi og dansandi víðs vegar um Evrópu á vegum fyrirtækisins og þetta var algjör draumur. Ég kom svo heim til Íslands þegar Covid skall á og hef verið að gera ýmislegt í tónlistinni. Ég hef m.a. sungið sem bakrödd á mörgum ólíkum plötum, bæði í þungarokki og svo á hugljúfari plötum í samstarfi við Ragnar Ólafsson."

Örlygur Smári, samstarfsaðili minn í Origo, hafði svo samband við mig og bauð mér að gerast söngkona Poppvélarinnar. Hann hafði heyrt mig syngja á starfsdegi í Origo. Eftir það hitti ég hann og Valgeir Magnússon og þeir vildu fá mig með sér í hljómsveit og fyrsta lagið kom út í byrjun sumars og heppnaðist svona vel,” segir Sólveig um hvernig samstarfið bar að.

 Sumarsmellur frá Poppvélinni

 Poppvélin sendi á dögunum frá sér sumarsmellinn Sumardans. Lagið hefur farið mikinn á útvarpsstöðvum landsins undanfarnar vikur og situr meðal annars í 7. sæti á vinsældarlista Bylgjunnar. ,,Við erum með nokkur lög í smíðum núna svo það er von á nýju lagi seinna í sumar. Ég er síðan sjálf að semja og gefa út barnaplötu síðar á árinu með Þráni Árna Baldvinssyni gítarleikara í Skálmöld. Svo er ég líka að fara að kenna söng í haust í Tónholti þannig að það er ýmislegt spennandi framundan í tónlistinni," segir hún.

Deila frétt