04/11/2025

„Tæknin er ótrúlega spennandi vettvangur að stíga inn í”

Í þessu viðtali fáum við að kynnast Ástu Ólafsdóttur betur og skyggnast inn í verkefni hennar hjá Origo. Ásta hóf störf hjá Origo árið 2024 sem þjónustustjóri þjónustulausna, en eftir fimm mánuði í starfi tók hún við sem forstöðumaður rekstrarþjónustu.

„Flestir dagar byrja á hafragraut og kaffibolla og svo gerist allskonar. Það er enginn dagur eins hjá Origo, verkefnin eru ólík enda tæknin á fleygi ferð,” segir Ásta.

Ég brenn fyrir góða þjónustu og finnst því algjört forgangsatriði að skoða hvernig við getum gert betur í dag en í gær.

Ásta Ólafsdóttir

Forstöðumaður rekstrarþjónustu

„Mitt starf felst í því að tryggja að viðskiptavinir upplifi framúrskarandi þjónustu því með því að veita góða þjónustu erum við að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná forskoti í sínu fagi.”

Tæknin sem tækifæri

„Tæknin er ótrúlega spennandi vettvangur að stíga inn í, sérstaklega þegar maður hefur engan tæknibakgrunn. Fyrir mér var þetta tækifæri til að læra eitthvað nýtt og nýta mína styrkleika á nýjan hátt.“

Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á þjónustu og samskiptum og trúi því að þegar góð þjónusta og tækni mætast, þá gerast töfrar. Þess vegna vissi ég að ég gæti lagt mitt af mörkum hjá Origo – með því að tengja saman fólk, lausnir og þjónustuupplifun á mannlegan hátt.

Ásta Ólafsdóttir

Forstöðumaður rekstrarþjónustu

Fólkið sem gerir gæfumuninn

Ásta lýsir því að samstarfsfólk hennar er það sem gerir starf hennar skemmtilegast. „Það eru forréttindi að fá að starfa með svona hæfu og ólíku fólki, og mér finnst ótrúlega gefandi að sjá árangurinn sem við náum saman. Á hverjum degi læri ég eitthvað nýtt, hvort sem það tengist tækni, fólki eða því hvernig við getum gert hlutina aðeins betur. Það heldur mér á tánum, hvetur mig áfram og gerir starfið mitt bæði krefjandi og skemmtilegt.“

Kaffibollinn heilög rútína

„Ég drekk alltaf tvo kaffibolla heima á morgnana til að keyra mig í gang fyrir daginn, það er algjörlega ófrávíkjanleg regla. Svo kíki ég alltaf á Maps áður en ég legg af stað í umferðina, sama hversu vel ég þekki leiðina. Ég þarf einfaldlega að vita nákvæmlega hvenær ég lendi – gæti flokkast sem léttur umferðarkvíði, en ég kýs að kalla það skipulag. Það er ekkert verra en að vera seinn.”

Hjólhýsið heima nýjast viðbótin í fjölskylduna

Aðspurð hver áhugamál Ástu eru lýsir hún sér sem mikilli félagsveru sem elskar að hafa gaman. „Ég legg mig fram við að halda vinum og fjölskyldu nálægt mér í einu og öllu, matarboð, partý, ferðalög og allt hitt. Mér finnst gaman að ferðast og njóta útiveru og nýjasta viðbótin við fjölskylduna er hjólhýsið okkar. Við erum strax farin að telja niður dagana þar til við getum lagt af stað aftur næsta sumar – kannski er það bara nýja áhugamálið mitt: að finna besta tjaldsvæðið, hóa saman skemmtilegasta fólkinu, kveikja á grillinu og hafa gaman.“

Hvaða verkefni ertu stoltust af?

„Það er erfitt að velja eitthvað eitt fram yfir annað, en af því að þjónustan er mér hjartans mál þá er ég gríðarlega stolt af þeim árangri sem hefur náðst í þjónustu. Að veita framúrskarandi þjónustu er ekki verkefni með upphaf og endi – það er stöðugt ferðalag þar sem maður þarf sífellt að skora á sig og aðra til að gera betur. Ég er sérstaklega stolt af því hvernig við höfum unnið að því að byggja upp menningu þar sem þjónusta við viðskiptavini og samstarf innan teymanna er í forgangi.“

Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta ferla, styrkja samskipti og skapa jákvætt andrúmsloft sem skilar sér í betri upplifun bæði fyrir viðskiptavini og starfsmenn.

Ásta Ólafsdóttir

Forstöðumaður rekstrarþjónustu

„Einnig finnst mér ánægjulegt að sjá hvernig breytingar sem við höfum unnið að – hvort sem það eru ný verkferli, betri verkstýring eða aukin ábyrgð innan teymanna – hafa leitt til meiri árangurs og ánægju meðal starfsfólks.”

Deila frétt