15. DESEMBER 2025

Tilkynning um flutning á Kjarna yfir í nýtt félag, CORUS ehf., og um nýjan undirvinnsluaðila

Tilkynning um flutning á Kjarna yfir í nýtt félag, CORUS ehf., og um nýjan undirvinnsluaðila

Eins og tilkynnt var um í fréttatilkynningu í byrjun október sl. þá hafa Kjarni, mannauðs- og launalausn Origo ehf., og Moodup ehf., hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í starfsánægjumælingum, ákveðið að sameinast í nýtt mannauðstæknifyrirtæki. Það félag hefur nú hlotið nafnið CORUS ehf. kt. 510521-0640.

Rekstur Kjarna mannauðs- og launakerfis flyst í CORUS ehf. um nk. áramót. Tilgangur CORUS ehf. er að bjóða íslenskum fyrirtækjum og stofnunum traustan samstarfsaðila fyrir öll mannauðs- og launamál.

Hið nýja félag, CORUS ehf., mun taka formlega til starfa þann 1. janúar 2026 og við það tímamark flyst öll þjónusta Kjarna mannauðs- og launalausna yfir í hið nýja félag. Þar undir falla allir samningar við núverandi viðskiptavini Kjarna.

Tekið skal fram að hið nýja félag er að fullu í eigu Skyggnis (áður Origo hf). Allir núverandi starfsmenn Kjarna, mannauðs- og launalausna Origo ehf., sem sinnt hafa þjónustu í tengslum við Kjarna, flytjast yfir í hið nýja félag CORUS ehf. og því verður engin breyting á tengiliðum eða þeirri þjónustu sem hefur verið veitt hingað til.

Þá verða engar aðrar breytingar gerðar á þeim samningum sem liggja til grundvallar samningssambandi aðila. Að því marki sem almennir skilmálar Origo ehf. og/eða vinnslusamningsskilmálar Origo ehf. og vinnslulýsingar hafa átt við um samningssamband aðila gilda þeir skilmálar áfram, ef frá er talin breyting á mótaðila, þ.e.a.s. CORUS ehf. tekur við öllum réttindum og skyldum Origo ehf.

Kjarni verður áfram í ISO 27001 vottaðri hýsingu og rekstri hjá Origo ehf. Eftir framsalið mun Origo ehf. þannig koma fram sem nýr undirvinnsluaðili og tilkynnist það jafnframt hér með.

Öll netföng og símanúmer eru óbreytt. Eftir áramót sendum við nánari upplýsingar til viðskiptavina sem varða þjónustu félagsins. Ef einhverjar spurningar vakna í tengslum við ofangreint, vinsamlegast hafið samband við Dröfn Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Corus ehf., drofn@origo.is  

Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs.