07/12/2021

Yfir 600 milljónir í menningu, listir og samfélagsverkefni á Íslandi

Brynjólfur Einar Sigmarsson og Sævar Ólafsson náðu þeim merkilega áfanga á dögunum að hafa starfað hjá Origo í meira en 10 ár. Það sem færri vita er að á sama tíma hafa þeir ásamt nokkrum félögum sínum rekið hópfjármögunarvefinn Karolina Fund.

Sævar og Brynjólfur

Karolina Fund er mörgum Íslendingum kunnugt sem vettvangur til að safna fé til skapandi verkefna, allt frá sirkustjaldi til nýrra fjölmiðla. Vefsíðan, sem leit dagsins ljós árið 2012, hefur skotið rótum og er í dag eitt þekktasta vörumerki landsins.

,,Við byrjuðum að vinna að verkefninu með félögum okkar nokkru áður en við hófum störf hjá Origo, nýlega komnir úr námi erlendis og á kafi í íslensku sprotasenunni. Við settum saman öflugt teymi og fórum á fullt að móta hugmyndina á sama tíma og við vorum í harkinu á afar erfiðum vinnumarkaði. Hugmyndin að síðunni kviknaði í raun kjölfar falls bankakerfisins og þeirra vandamála sem steðjuðu að fjármögnun skapandi verkefna“, segir Brynjólfur, sem er forstöðumaður reikningshalds hjá Origo.

Sævar sem er liðsstjóri stafrænnar sölu og þróunar hjá Origo, segir það hafa verið skemmtilega tilbreytingu og afar hvetjandi að starfa í stóru fyrirtæki eins og Origo á daginn og geta svo sökkt sér í nýsköpun á kvöldin og um helgar. ,,Verkefnin eru mjög fjölbreytt og sú reynsla og þekking sem við öflum í nýsköpunarumhverfinu gerir okkur að betri starfskrafti hjá Origo, og öfugt. Fleiri fyrirtæki ættu að taka Origo sér til fyrirmyndar og skapa sveigjanlegt starfsumhverfi og hvetja starfsfólk sitt til að taka þátt í nýsköpun, hvort sem það er innan fyrirtækisins eða samhliða störfum sínum. Þú ert að auka hæfni starfskraftsins og gefa eitthvað til baka til samfélagsins í leiðinni.“

140 þúsund manns hjálpað fleiri en 660 verkefnum

Síðan 2012 hafa um 140 þúsund manns hjálpað fleiri en 660 skapandi og samfélagsmiðuðum verkefnum að ná fjármögnun á Karolina Fund. Hlutfall verkefna sem hafa náð fjármögnun er 77% sem er einstakt á heimsvísu. Yfir 600 milljónir króna hafa safnast í fjármögnum í menningu, listir og samfélagsverkefni á Íslandi.
,,Við metum árangur okkar fyrst og fremst í þeirra ánægju að sjá verkefni raungerast og af þeim samfélagslegu áhrifum sem af þeim hljótast. Við erum stolt af árangrinum og erum hvergi nærri hætt,” segir Sævar.

,,Góðir hlutir gerist þegar fólk sameinar krafta sína en Karolina Fund hefur verið öflugur farvegur fyrir samfélagsverkefni, sem hafa það að markmiði að láta gott af sér leiða. Hann tekur dæmi um að Ísland hafi lengi verið frjór jarðvegur fyrir skapandi greinar. Margir listamenn hafa náð góðum árangri á heimsvísu og margt sem búið er til á Íslandi sem lýtur að hugverki og sköpun vekur eftirtekt og hlýtur viðurkenningu," segir Brynjólfur.

Mikilvæg viðspyrna við Covid-19

,,Skapandi greinar eru ein af und­irstöðum­ at­vinnu­vegar þjóðarinnar og því er það mjög alvarlegt þegar þær leggjast á hliðina eins gerðist í kjölfar Covid-19 faraldursins. Skapandi greinar eru auðlind sem skilar efnahags- og menningarlegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu, framleiðslu á vöru og þjón­ustu til neyslu innanlands og útflutnings. Þetta er því mikilvæg viðspyrna við Covid-19," segir Sævar og Brynjólfur bætir við: ,,Nú í kjölfar faraldursins eru kjöraðstæður fyrir skapandi fólk að spyrna við fótum og fá almenning með sér í lið. Þar hefur Karolina Fund mikilvægu hlutverki að gegna með því að tengja saman skapandi fólk og almenning."

Deila frétt