01/02/2023 • Birta Aradóttir

Gaman að starfa á vettvangi nýsköpunar

Í hlaðvarpinu „Konur í nýsköpun“ ræðir hlaðvarpsstjórnandinn, Alma Dóra Ríkarðsdóttir, við Soffíu Kristínu Þórðardóttur, Product Manager fyrir Paxflow hjá Origo og stjórnarformanni KLAK - Icelandic Startups.

Alma Dóra Ríkarðsdóttir, hlaðvarpsstjórnandi Konur í nýsköpun og Soffía Kristín Þórðardóttir, Product Manager fyrir Paxflow hjá Origo og stjórnarformaður KLAK - Icelandic Startups

Í hlaðvarpinu Konur í nýsköpun tekur Alma Dóra Ríkharðsdóttir, viðskiptafræðingur og frumkvöðull, viðtöl við áhrifakonur úr nýsköpunarumhverfinu. Origo er stoltur styrktaraðili að hlaðvarpinu en Alma Dóra stofnaði hlaðvarpið til þess að auka sýnileika kvenna og fjölga kvenfyrirmyndum í nýsköpun á Íslandi. Í hlaðvarpinu tekur Alma Dóra viðtöl við framúrskarandi konur víðsvegar úr nýsköpunarumhverfinu; frumkvöðla, fjárfesta, leiðbeinendur, kennara, stjórnarmenn, ráðherra og allt þess á milli. Þar ræða þær m.a. nýsköpunarumhverfið á Íslandi, jöfn tækifæri, fjölbreytni og valdeflingu kvenna til nýsköpunar.

Í nýjasta þætti Ölmu ræðir hún við Soffíu Kristínu Þórðardóttur, Product Manager fyrir Paxflow hjá Origo og stjórnarformanni KLAK - Icelandic Startups. Soffía Kristín fer yfir uppvaxtarárin í viðtalinu og segir að hún hafi alltaf verið mikil keppniskona líkt og einkennir gjarnan frumkvöðla. Soffía Kristín hætti í læknisfræði til þess að vinna í tækni- og nýsköpunarheiminum og fá að „föndra í vinnunni“ líkt og hún segir sjálf frá. Í viðtalinu fáum við að heyra bestu ráð Soffíu til frumkvöðla og hvernig nýsköpun getur líka átt heima í rótgrónum fyrirtækjum eins og Origo.

Hlustaðu á viðtalið hér fyrir neðan:

0:00

0:00

Origo er með markvissa og metnaðarfulla jafnréttis- og jafnlaunastefnu og að sögn Soffíu segir hún að fyrirtækið sjái þetta sem ákvörðun - að það eigi að ríkja jafnrétti. Origo hafi sett sér markmið um að helmingur allra nýráðninga séu konur og vilji stuðla að jafnrétti í tæknigeiranum. Fyrirtækið ætli sér að fjölga og styðja við konur í tæknistörfum, það séu fjölbreytt störf í boði fyrir þær og að Origo vilji búa til þessar kvenfyrirmyndir í tæknigeiranum. Soffía segir að hún hafi til að mynda ekki haft þessar kvenfyrirmyndir að loknu menntaskólanámi og kannski hefði hún ekki byrjað í læknisfræðinni hefði hún vitað af möguleikum í tæknigreinum.

Þegar kemur að jafnréttismálum, þá er þetta bara ákvörðun. Það skiptir ekki máli að hverju það snýr – fyrsta skrefið er bara að ákveða að það eigi að ríkja jafnrétti. Við hjá Origo leggjum áherslu á þetta í öllu fyrirtækinu með markvissri, metnaðarfullri jafnréttisáætlun.

Soffía Kristín Þórðardóttir

Product Manager fyrir Paxflow hjá Origo og stjórnarformaður KLAK - Icelandic Startups

Soffía Kristín segir frá velgengninni í kringum Tempo en Tempo er tímaskráningarlausn sem var búin til af vinnustaðnum hennar TM Software, sem síðar sameinaðist Origo. Soffía segir að það hafi verið gaman að vera í kringum upphaf Tempo og titlar sig oft í gríni sem „guðmóður Tempo“ en hún vann nafnasamkeppnina um hvað fyrirtækið ætti að heita á sínum tíma og hlaut eina rauðvínsflösku að verðlaunum. En nafnið á einu farsælasta sprotafyrirtækjum Íslandssögunnar er eflaust aðeins meira virði í dag en flaskan.

Árangur Tempo bjó til ákveðna fyrirmynd um það hvernig rótgróin fyrirtæki geta stuðlað að sprotamenningu innanhúss og einblínt á nýsköpun og eigin vöruþróun. Origo hefur þannig búið til umhverfi sem er ákjósanlegt fyrir sprotaþróunarteymi að starfa innan, stuðlað að sprotamenningu og veitt baklandið sem felst í rótgrónu fyrirtæki fyrir sprotana til að þróa áfram eigin vörur og lausnir.

Soffía endar viðtalið á að hvetja frumkvöðla að gera það sem þeim þykir skemmtilegt og ef þeim þykir gaman að „föndra í vinnunni“ að kýla á það og rækta tengslanetið, leita til Klak - Icelandic Startups, taka þátt í Gullegginu og ekki hætta. Hún hvetur fólk óháð aldri og kyni að rækta hugmyndirnar sínar en ólíkur bakgrunnur og nálganir eiga erindi í frumkvöðlasenuna.

https://images.prismic.io/new-origo/35f94eeb-cb16-4598-86cb-fd7a70f56b35_MicrosoftTeams-image+%281%29.png?auto=compress,format&rect=946,0,3098,3442&w=900&h=1000

Höfundur blogs

Birta Aradóttir

Markaðssérfræðingur

Deila bloggi