09/07/2024 • Gunnar Ingi Reykjalín
Forvarnir gegn netárásum: Að eiga inni fyrir fríinu
Gunnar Ingi Reykjalín forstöðumaður skýja- og netreksturs Origo segir netárásum stöðugt fjölga. En hvað geta fyrirtæki og stjórnendur gert til þess að vinna sér inn aukna hugarró áður en haldið er í sumarfrí?

Netárásum fjölgar á sumrin
Okkur berast nær daglegar fréttir af einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir barðinu á netþrjótum sem leita allra leiða til þess að svíkja og pretta verðmæti úr grandalausum fórnarlömbum sínum.
Í hinum stóra, stafræna heimi getur oft verið erfitt að átta sig á því hvar hætturnar leynast, svo ekki sé talað um þegar gildrurnar eru hreinlega lagðar fyrir framan okkur til þess að við föllum í þær, og á örskotsstundu eru verðmætin okkar komin í hendur annarra.
Þessi raunveruleiki á ekki síður við um einstaklinga en fyrirtæki og það skal engan undra að þessum fréttum fjölgar þegar okkur er orðið starsýnt á sumarfríið og rólegheitin í sveitinni eftir annasaman vetur.
Hvað er til ráða?
Hjá einstaklingum liggur lausnin meðal annars í skilningi og varkárni. Þegar við skiljum hvernig lausnirnar virka, hvernig við vinnum með þær og hvernig þær hegða sér, þá erum við mun betur í stakk búin að takast á við það þegar þrjótarnir reyna að plata okkur og hafa af okkur verðmætin.
Við skulum líka ekki dreifa traustinu okkar á alla sem óska eftir því, heldur vera gagnrýnin og spyrja frekar spurninga og leita aðstoðar heldur en að samþykkja í blindni.

Aukin hugarró með undirbúningi og forvörnum
Fyrirtæki geta hinsvegar unnið sér inn hugarró með undirbúningi og forvörnum. Þau geta annarsvegar snúið að því að binda þannig um hnútana að hugað sé vel að ytri og innri vörnum, að kerfi, gögn og aðgerðir starfsmanna séu í eftirliti og að réttir viðbragðsaðilar séu á hinum endanum að hlusta og bregðast við frávikum, líka á sumrin.
Hinsvegar getur undirbúningurinn snúið að því að auka viðbragðshraðann þegar veikleikar í vörnunum verða til þess að þrjótarnir finna sér leið inn.
Eru öll kerfi örugglega í afritun?
Eru afritin geymd á stað sem er aðgreindur frá öðrum rekstrarumhverfum?
Er búið að prófa að endurheimta afritin?
Er búið að æfa viðbragðið og fumlaus, traust handtök tilbúin að taka á neyðarástandinu með stuttum fyrirvara?
Með því að vinna okkur í haginn getum við farið inn í sumarfríið af nokkru öryggi og fullvissað okkur um það að líkurnar á atviki séu minniháttar og að ef í harðbakkann slær, þá erum við undirbúin undir það að bregðast hratt og rétt við.

Höfundur bloggs
Gunnar Ingi Reykjalín
forstöðumaður skýja- og netreksturs Origo
Deila bloggi