25/06/2024

Ofurkraftar gervigreindar

Gervigreind hefur umbylt ýmsum geirum og skapað ný tækifæri til nýsköpunar og framþróunar. Hver eru tækifærin, og hvar liggja áskoranirnar?

Tækifæri og áskoranir

Gervigreind er á góðri leið með að verða ómissandi þáttur í daglegu lífi okkar og starfi. Hún hefur umbylt ýmsum atvinnugreinum og skapað ný tækifæri til nýsköpunar og framþróunar. En hvernig getum við nýtt ofurkrafta gervigreindar á öruggan og árangursríkan hátt? Í þessari grein skoðum við hvernig hægt er að sigrast á áskorunum og nýta tækifærin sem gervigreindin býður upp á, með því að horfa á reynslu og ráðleggingar sérfræðinga úr ýmsum greinum. 

81% stjórnenda telja að gervigreind muni hafa áhrif á rekstur 

Rannsóknarteymi IBM, Institute of business value, framkvæmdi nýlega viðhorfskönnun hjá um 2500 lykilstjórnendum fyrirtækja um allan heim og voru niðurstöður hennar birtar í 29. útgáfurits teymsins. Mikill meirihluti stjórnenda eða um 81% telja að gervigreind muni hafa áhrif á rekstur síns fyrirtækis næstu 3 árin. 5% þeirra hafa náð að nýta sér gervigreind og mun það hlutfall örugglega hækka hratt á næstunni. Þegar stjórnendur voru spurðir hvernig fjármagni er beint að gervigreind þá sögðust 24% ekki byrjuð, 50% eru að prófa, 26% nýta sér spunagreind (e. genAI) nú þegar fyrir texta- og myndefni, og 1% eru farin að smíða eigin líkön. Það er því augljóst að gervigreind á fyrir sér bjarta framtíð. En að hverju þarf að gæta áður en haldið er af stað?  

Henrik Toft, Chief Architect IBM Technology Unit.Henrik Toft, Chief Architect IBM Technology Unit.

59 áhættuflokkar sem þarf að huga að 

Áður en lagt er af stað þarf að greina hvaða áhættur geta legið fyrir og það hefur IBM reynt að kortleggja með samantekt um áhættu vegna gervigreindar, eða AI risk atlas sem má finna hér.

Þar eru 59 flokkar áhættu sem gefur góða yfirsýn. Dæmi um áhættu er til að mynda rétturinn til að gleymast. Á EES-svæðinu hefur fólk rétt til þess að tölvukerfi geti afmáð vitneskju sem má rekja til þeirra, og áður en einhver persónugreinandi gögn eru sett inn í stórt mállíkan, þarf að gæta að því að það sé hægt að toga þau gögn aftur út með auðveldum hætti. Þau fyrirtæki sem passa sig ekki á þessu gætu átt von á sekt eða hegningu. Það þarf líka að gæta að því að upplýsingar sem eru nýttar frá spunagreind séu réttar. Til að mynda fékk lögmaður í Bandaríkjunum nýlega sekt fyrir að hafa nýtt sér rangar upplýsingar frá ChatGPT fyrir dómstóli. Höfundaréttur hefur líka víðtæk áhrif á spunagreind og þá í báðar áttir. Þú gætir óvart verið að nota höfundavarið efni eða efnið sem þú smíðaðir með aðstoð spunagreindar fær ekki sömu réttindi og efni smíðað án hennar. 

CoPilot lausnin er tilbúin til verka 

CoPilot er gervigreind sem er spennandi nýjung frá Microsoft sem Linda Dögg Guðmundsdóttir öryggis- og lausnaarkitekt hjá Origo þekkir vel. CoPilot er yfirhugtak sem nær yfir nokkrar lausnir frá Microsoft sem allar meira og minna ganga út á að stytta þér sporin með gervigreind. CoPilot er að finna meðal annars inn í Edge vafranum, Office pakkanum og Teams. Stutt er í að CoPilot muni tala íslensku en nú þegar er þó að finna stuðning fyrir málið í vefútgáfu CoPilot og svipar sú lausn til ChatGPT snjallmennisins. En áður en þinn rekstur fer á bólakaf í CoPilot mælir Linda með að huga skal að eftirfarandi: 

  • Aðgangsmál - hvaða réttindi að gögnum hefur starfsfólk? 

  • Gagnaleki - ekki tengja CoPilot við launaskjalið eða launaseðla 

  • Einbeittur brotavilji - getur fólk spurt um viðkvæmar upplýsingar sem eiga ekki að liggja á glámbekk? 

Linda Dögg Guðmundsdóttir, öryggis - og lausnaarkitekt hjá Origo.Linda Dögg Guðmundsdóttir, öryggis - og lausnaarkitekt hjá Origo.

Spjallað við gögnin með aðstoð spunagreindar

Í dag er hægt að tengja gögn við spunagreind og spjalla við gögnin til að leysa þekkingu sem býr í þeim úr læðingi. Spunagreind er frábært tól sem þjappar þekkingu saman í auðskiljanlegar upplýsingar.  “Transformer-tæknin” er kveikjan að spunagreind og hefur hún tekið miklum stakkaskiptum frá upphafi hennar árið 2017. Fjórða útgáfa ChatGPT má líkja við flugbíla framtíðarinnar og eru vaxtastökkin mjög stór í hvert sinn, sem ný útgáfa kemur út. Brynjólfur Borgar stofnandi Datalab nýtti sér spunagreind til að smíða ferðaleiðsögubók fyrir heimsókn sína til Berlínar. Hann  kenndi spunagreindinni ýmislegt um sig og það sem hann hefur áhuga á. Brynjólfur fékk hana svo til að smíða fyrir sig dagskrá í Berlín fyrir heilan dag og merkilegt nokk þá sendi spunagreindin hann  á sýningu um gervigreind. Brynjólf dreymir um að mata spunagreind að bókaseríunni „Aldnir hafa orðið” sem voru viðtöl við eldra fólk sem kom út í 18 bindum með það markmið að geta rætt við fólk úr fortíðinni með aðstoð spunagreindar. 

Útgáfan Skjaldborg gaf út bókaseríuna Aldnir hafa orðið.Útgáfan Skjaldborg gaf út bókaseríuna Aldnir hafa orðið.

Stór gögn sem nú opnast á með Ara 

Nú erum við loksins komin með tól til að opna á öll þessi gögn sem við höfum verið að búa til og vista í kjölfar tölvubyltingarinnar. Datalab hefur smíðað spunagreindina Ara til að opna á þessi stóru gögn. Ari er þarfasti þjóninn og getur orðið sérfræðingur í þinni starfsemi. Hann virkar á móti gagnatengingum, er frábær í íslensku, veit hvaða gögn eru viðkvæm og talar við Azure innviði. Datalab hefur nú þegar smíðað Ara-lausnir fyrir Arion banka og Samband Sveitarfélaga. Það er t.d. búið að þjálfa Ara í reglugerðum og kjarasamningi sveitarfélaga. Hann getur vísað í heimildir svo hægt sé að rekja sig til baka. Ari les og lærir - og getur smíðað gröf eftir þörfum. Hann getur líka keyrt kóða, talað við innri og ytri vef og leitað á vefnum.  

Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Datalab.Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Datalab.

Nýttu spunagreind til að bæta sögur 

Baddý Sonja Breidert er farin að smíða spunagreind inn á vefi og getur tengt spunagreind beint við CMS-kerfið þitt. Nýlega bjó fyrirtækið hennar 1xINTERNET til samræðuhæfa spunagreind til að gera sögur enn betri. Í samstarfi við UICC.org, regnhlífasamtök krabbameinsfélaga heimsins, smíðaði Baddý ritstjóra með spunagreind sem hjálpaði fólki að segja sína krabbameinssögu.

Við erum ekki öll jafn góð í að segja frá og var markmið snjallmennisins að bæta frásögn fólks. Snjallmennið þurfti að gæta vel að sér og vera hugljúft. Snjallmennið spurði spurninga til að bæta frásögnina og skilaði því inn í sagnaform fyrir viðkomandi. Formið  skilaði sér svo beint inn í vefumsjónakerfið í réttu sniðmáti. Það fylgir því kostnaður að nýta sér gervigreindarlausnir og því mikilvægt að velja rétta lausn fyrir það verkefni sem er verið að leysa hverju sinni. Til að mynda var áætlað að  hver saga í þessari lausn hafi kostað um 0,3 evrur.

Baddý mælir með því að nýta sér þekkingu Hugging Face vefsins til að hefja slíkar smíðar. Það eru mörg líkön í boði eins og ChatGPT 4o, Gemini, Claude2 og Mistral Med. Þau tala ekki öll  íslensku og sum þeirra eru hýst í Bandaríkjunum sem útilokar notkun þeirra vegna evrópsku persónuverndarlaganna.  Baddý lagði áherslu á að fyrirtæki  lágmörkuðu áhættu áður en þau hæfu hagnýtingu gervigreindar og reyndu ekki að búa til fullkomna lausn því það takist líklega aldrei.  

Baddý Sonja Breidert, framkvæmdarstjóri og stofnandi 1XINTERNET og stjórnarmaður hjá Origo og Helix Health.Baddý Sonja Breidert, framkvæmdarstjóri og stofnandi 1XINTERNET og stjórnarmaður hjá Origo og Helix Health.

Ráðgjöf

Við getum hjálpað þér að undirbúa gögnin þín fyrir gervigreindina!