06/06/2025

5 algengar tegundir tækniskuldar og afhverju þú ættir að þekkja þær

Er fyrirtækið þitt að glíma við hægan hugbúnað, flóknar uppfærslur eða öryggisveikleika? Lærðu að þekkja hvernig tækniskuld birtist í þínu rekstrarumhverfi og ólíkar tegundir hennar.

Mynd af fossi og hestum

Í fyrri grein okkar Hvað er tækniskuld og hvers vegna skiptir hún máli? útskýrðum við hvernig tækniskuld getur myndast þegar skammtímalausnir eru valdar fram yfir sjálfbærar langtímalausnir í tæknimálum. En tækniskuld birtist ekki alltaf á sama hátt.

Rétt eins og fjárhagsleg skuld getur tækniskuld tekið á sig margvíslegar myndir, sumar augljósar, aðrar faldar. Að þekkja mismunandi tegundir tækniskuldar er lykilatriði til að geta greint vandann og tekið á honum með árangursríkum hætti.

5 algengar tegundir tækniskuldar og áhrif þeirra

Árið 2014 lagði hópur fræðimanna til nýja nálgun við flokkun á tækniskuld. Í stað þess að flokka hana eftir því hvort hún væri meðvituð eða ekki, lögðu þeir til að horfa frekar á eðli hennar. Rannsókn þeirra, sem Software Engineering Institute birti undir heitinu "Towards an Ontology of Terms on Technical Debt," greindi 13 tegundir tækniskuldar.

Þrátt fyrir að tækniskuld geti birst í mörgum myndum eru fimm tegundir sérstaklega algengar í íslenskum fyrirtækjum og verða þær skoðaðar nánar hér.

Kóðaskuld (e. Code Debt)

Þetta er sú tegund sem flestir tengja við hugtakið tækniskuld. Þetta er kóði sem er barn síns tíma eða óþarflega flókinn. Kóðaskuld myndast gjarnan þegar forritarar vinna undir tímapressu og velja skammtímalausnir. Með tímanum verður kóðinn óskipulagður, erfiður að lesa og viðhalda, sem gerir breytingar hægari og eykur líkur á villum.

Hönnunarskuld (e. Design Debt)

Hönnunarskuld myndast þegar kerfi eru þróuð án þess að gera ráð fyrir framtíðarvexti eða breytingum. Það sem áður var einföld lausn hönnuð fyrir fáa notendur brotnar undan álagi þegar notendum fjölgar, og breyting sem átti að verða einföld verður því að flóknu verkefni.

Arkitektúrskuld (e. Architecture Debt)

Þegar við horfum á heildarmyndina - hvernig ólík kerfi vinna saman - erum við að tala um arkitektúrskuld. Þessi skuld lýsir sér í kerfum sem ættu að geta talað saman milliliðalaust en gera það ekki. Afleiðingin verður oft handvirk yfirfærsla gagna, óþörf tvítekning og skert heildaryfirsýn.

Prófunarskuld (e. Test Debt)

Þegar hugbúnaður er þróaður án fullnægjandi prófana skapast prófunarskuld. Þó það spari tíma í upphafi getur það orðið kostnaðarsamt til lengri tíma. Án prófana uppgötvast villur oft ekki fyrr en við notkun, þar sem þær valda miklum skaða og eru dýrari og flóknari í lagfæringu.

Uppfærsluskuld (e. Infrastructure Debt)

Þegar fyrirtæki fresta uppfærslum á kerfum og hugbúnaði safnast upp uppfærsluskuld. Gömul kerfi sem eru ekki lengur studd af framleiðendum verða óörugg, hægari og ósamhæfð við nýja tækni. Þessi tegund skuldar verður oft sýnileg þegar nauðsynlegt er að uppfæra loks kerfið og uppfærslan reynist mun erfiðari en ella.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Að þekkja og skilja mismunandi tegundir tækniskuldar veitir fyrirtækjum mikilvægt forskot. Það hjálpar þér að:

  • Greina hvar mesta áhættan liggur í tækniumhverfi þíns fyrirtækis.

  • Forgangsraða úrbótum á hagkvæman og áhrifaríkan hátt.

  • Byggja upp rekstrarumhverfi sem styður við framtíðarvöxt og nýsköpun.

Þegar tækniskuld hefur verið greind er mikilvægt að takast á við hana markvisst. Hver tegund tækniskuldar krefst sérhæfðrar nálgunar, en sameiginlegt lykilatriði fyrir öll fyrirtæki er að innleiða vinnulag sem kemur í veg fyrir uppsöfnun nýrrar tækniskuldar, á sama tíma og núverandi skuld er greidd niður smám saman.

Vanrækt tækniskuld verður hindrun fyrir vöxt og samkeppnishæfni fyrirtækja, en með réttri greiningu og markvissum aðgerðum getur hún stutt við áframhaldandi nýsköpun og þróun. Það er því mikilvægt að líta á tækniskuld bæði út frá tæknilegu og viðskiptalegu sjónarhorni.

Ráðgjöf

Ert þú að glíma við einhverja af þessum tegundum tækniskuldar?

Sérfræðingar Origo aðstoða þig við að greina helstu veikleika í þínu tækniumhverfi og móta áætlum um úrbætur.