10/11/2023
Árangri kvenna í tæknigeiranum fagnað
Nordic Women in Tech Awards var í fyrsta sinni haldið á Íslandi í ár. Í tilefni þess bauð Origo ásamt Boozt til viðburðar.

Í tilefni af Nordic Women in Tech Awards sem haldið er á Íslandi í ár, hélt Origo ásamt Boozt viðburð þar sem rætt var um nýsköpun og konur í tæknigeiranum. Viðburðurinn var afar vel sóttur, en yfir 130 innlendir og erlendir gestir komu þar saman.

Rasmus Bruun samskiptasérfræðingur hjá Boozt stjórnaði pallborðsumræðum þar sem Dröfn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Origo, Plamena Cherneca framkvæmdastjóri Nordic Women in Tech Awards og Sarina Bibæk forritari hjá Boozt voru viðmælendur.
Arna Harðardóttir framkvæmdastjóri Helix ræddi um hvernig hægt er að nýta stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu en nýlega breyttust Heilbriðislausnir Origo í sjálfstætt félag að nafni Helix. Kristín Hrefna Halldórsdóttir forstöðuman Gæða- og Innkaupalausna Origo ræddi um það hvernig hún leiddist út í tæknigeirann og hvernig hægt sé að breyta leiknum með tækninni.

Nordic Women in Tech Awards er haldið árlega með það að markmiði að auka sýnileika framúrskarandi kvenna í tæknigeiranum og hvetja yngri kynslóðir kvenna til að sækja í tæknistörf. Það mætti í raun líkja verðlaununum við hreyfingu sem er tileinkuð því að viðurkenna og fagna árangri kvenna í tæknigeiranum því að með krafti fjölbreytileikans og jöfnum tækifærum er verið að skapa réttlátari og nýstárlegri framtíð fyrir tæknigeirann.
Þetta snýst um að efla fjölbreytileikann því þannig sköpum við betri jarðveg fyrir nýsköpun, svo við megum aldrei gleyma að setja upp fjölbreytileika – gleraugun. Þetta höfum við ávallt hugfast í öllum okkar ráðningum.
Dröfn Guðmundsdóttir
•
Framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Origo






Deila frétt