15/05/2024
Chisom Udeze frá Diversify heimsækir Origo
Í tilefni Iceland Innovation Week buðum við Chisom Udeze í heimsókn til okkar í Origo til að fjalla um hvernig fjölbreytileiki og inngilding eflir nýsköpun.

Chisom Udeze er margverðlaunaður hagfræðingur með yfir 15 ára reynslu í leiðtogastörfum en hún er stofnandi Diversify, HerSpace og fjölmargra annarra árangursríkra fyrirtækja. Chisom er hugsunarleiðtogi í málefnum tengdum inngildingu og fjölbreytileika og hafa verk hennar birst í Forbes.
Í erindi sínu fjallaði Chisom um mikilvægi þess að hafa fjölbreyttan starfsmannahóp og iðka inngildingu á vinnustaðnum, en það getur leitt af sér ólík sjónarmið sem að eflir nýsköpun og framþróun fyrirtækja.
Teymi sem eru fjölbreytt skapa umhverfi þar sem einstaklingar geta verið þau sjálf án þess að vera dæmd af öðrum. Slík teymi eru líklegri til þess að taka áhættur og deila sín á milli nýjum hugmyndum
Chisom Udeze
•
Stofnandi Diversify

Það að iðka inngildingu getur leitt til aukinnar sköpunargáfu, þróunar nýrra hugmynda, betri ákvarðanatöku og meiri aðlögunarhæfni í stöðugt breytilegu umhverfi nútímans. En Chisom lagði einnig mikla áherslu á það að fjölbreytileiki og inngilding eru ekki samheiti.
Fjölbreytileiki getur átt sér stað náttúrulega, en inngilding krefst átaks til að tryggja að allir finni fyrir virðingu. Fjölbreytileiki er oft auðfáanlegur í samfélaginu okkar, og við ættum ekki að fá verðlaun fyrir að vera fjölbreytt og nýta fólkið sem við höfum í samfélaginu, en við þurfum meira ímyndunarafl til að fá alla til að njóta sín.
Chisom Udeze
•
Stofnandi Diversify
Við hjá Origo erum stolt af því að styðja við Iceland Innovation Week og bjóða framúrskarandi einstaklingum eins og Chisom Udeze til okkar að deila þekkingu sinni og reynslu. Við trúum því að fjölbreytileiki og inngilding séu lykilþættir í að efla nýsköpun og viljum við skapa umhverfi þar sem allir geta dafnað og lagt sitt af mörkum.
Deila frétt