19/08/2024

Fjallaáskorun Origo og Landsbjargar slær í gegn

Árleg fjallaáskorun starfsmanna Origo er orðin fastur liður í menningu okkar. Í ár var verkefnið unnið í samstarfi við Landsbjörg.

Uppskeruhátíð á Grænahrygg

Undanfarin ár hafa starfsmenn Origo tekið þátt í fjallaverkefni en í ár var verkefnið unnið í samstarfi við Landsbjörg. Fjallaverkefninu lauk síðastliðna helgi með göngu að Grænahrygg.

Starfsmenn hafa æft sig fyrir Grænahrygg í allt sumar en það hafa verið göngur vikulega þar sem ný leið eða tindur er valinn hverju sinni. Starfsmenn hafa meðal annars gengið upp á Helgafell, Akrafjall og Móskarðshnúka. Fjallaverkefnið er hluti af stefnuáherslu Origo þar sem markvisst er unnið að því að stuðla að heilbrigði og vellíðan starfsfólks. 

Fjallaverkefnið er klárlega einn af hápunktum ársins hjá mörgum! Það er svo gaman að sjá hvað fólk er spennt og þátttakan góð. Fyrir mörg, og þar með talið mig sjálfa, er þetta svo frábær leið til að koma sér af stað í göngum. Mér finnst mjög gaman að ganga en þekki t.d ekki margar gönguleiðir og þarna fæ ég þetta bara matreitt og klárt! Það að fá Landsbjörg með í þetta verkefni í ár er auðvitað alveg geggjað og miklir reynsluboltar þar á ferð.

Rósa Björk Sigurgeirsdóttir

Sérfræðingur á mannauðssviði

Vel búin fyrir ferðalög á Íslandi

Þegar fjallaverkefnið var sett af stað í vor komu þær Birna María og Unnur Kristín frá Landsbjörg til okkar í Origo og kynntu fyrir starfsmönnum þau mikilvægu atriði sem þarf að hafa í huga fyrir göngur og ferðalög á Íslandi. Starfsmenn lærðu allt það helsta sem þarf að hafa í huga sem snýr að undirbúningi ferða.

Fjallaloppan - hringrásarmarkaður

Líkt og síðustu ár var Fjallaloppan, hringrásarmarkaður Origo, settur á laggirnar í vor en þar gátu starfsmenn selt, gefið eða keypt notaðan útivistarfatnað. Margir voru að feta sín fyrstu skref í fjallgöngum og almennri útivist og því tilvalið að eignast góð útivistarföt á umhverfisvænni hátt með því að gefa gömlum fatnaði nýtt líf.

Viltu breyta leiknum með okkur?

Deila frétt