05/09/2022

Jón Mikael nýr framkvæmdastjóri notendalausna

Jón Mikael Jónasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri notendalausna hjá Origo og tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Jón Mikael hóf störf í september.

Jón Mikael Jónasson

Hlutverk Jóns Mikaels verður að styrkja notendalausnir Origo, sem selur ýmis konar tölvubúnað, hljóð- og myndlausnir, afgreiðslukerfi, prentlausnir og hraðbankakerfi. Notendalausnir eru með umboð fyrir heimsþekkt vörumerki eins og Lenovo, Canon, Sony og Bose.

Það er góð eftirspurn eftir lausnum og vörum í notendabúnaði og jukust tekjur sviðsins um 10,4% á fyrri helmingi ársins. Tekjur sviðsins námu um 3,9 milljarða á fyrri árshelmingi.

Jón Mikael er virkilega ánægður með að vera kominn til liðs við Origo og hóf störf í september. ,,Það er spennandi tækifæri að fá að leiða þennan öfluga og söludrifna hóp hjá notendalausnum og styðja starfsfólkið til árangurs. Upplýsingatæknigeirinn er í miklum vexti og ég hef mikla trú á vegferð Origo í að bæta og umbreyta tækninni. Ég hlakka mikið til að vera hluti af því frábæra teymi sem starfar hér.“

Jón Björnsson, forstjóri Origo, er afar spenntur með að fá Jón Mikael í teymið.

„Það er virkilega gott að fá Jón Mikael til liðs við Origo en hann býr yfir mikilli þekkingu á sviði smásölu sem mun nýtast notendalausnum í að skapa enn meiri sérstöðu með fjölbreyttum söluleiðum, auka virði vörumerkja sinna og tryggja eftirspurn frá neytendum. Við erum á fleygiferð í áframhaldandi uppbyggingu og vexti notendalausna og Jón Mikael er með réttan bakgrunn og menntun til að leiða vöruþróun sviðsins.“

Jón Mikael kemur frá Ölgerðinni þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri Danól frá 2017. Hann hefur starfað hjá Ölgerðinni og félögum innan samsteypunnar síðastliðin 20 ár þar sem hann hefur sinnt hinum ýmsu stjórnendastöðum. Jón Mikael er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og Erasmus University í Hollandi.

Deila frétt