07/02/2023

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar hefur starfsemi

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar - European Digital Innovation Hub á Íslandi (EDIH-IS) hefur hafið starfsemi sína.

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar tekur til starfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, vísinda, iðnaðar og nýsköpunar opnaði formlega Miðstöð stafrænnar nýsköpunar (EDIH-IS) þann 2. febrúar í Grósku Hugmyndahúsi. Miðstöð stafrænnar nýsköpunar mun gegna veigamiklu hlutverki í nýtingu nýjustu stafrænnar tækni á landinu í nánum tengslum við lykilaðila innan Evrópu.

Stofnaðilar miðstöðvarinnar eru Origo, Syndis, Auðna tæknitorg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Rannís. Saman munu þessir aðilar standa að fjölbreyttum verkefnum, þjónustu og viðburðum næstu þrjú árin hið minnsta.

Það er mikill hvati í því fyrir okkur að fá þennan Evrópustyrk fyrir tvö af okkar verkefnum. Við lögðum af stað í þetta ferli fyrir rúmum tveimur árum með fulla trú á því að þessi verkefni okkar ættu fullt erindi utan Íslands. Styrkveiting er ákveðin staðfesting á að hugmyndin sé góð en nú er það okkar að láta hana rætast. Styrkfyrirkomulagið er flott en við leggjum pening til jafns við styrkinn og leggjum þannig einnig undir í þessari vegferð.

Jón Björnsson

Forstjóri Origo

Erlent samstarf um stafvædda nýsköpun

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar (EDIH-IS) mun leggja áherslu á að tengja íslenska sprota og starfandi upplýsingatæknifyrirtæki við nýjustu tækni, eins og gervigreind og ofurtölvur með þunga áherslu á stafræn öryggismál (e. Cybersecurity). Miðstöðin er sömuleiðis vettvangur erlends samstarf á sviði stafvæddrar nýsköpunar, þar sem íslenskir aðilar geta nýtt sér tengsl miðstöðvarinnar við 225 systurmiðstöðvar í Evrópu. Að sama skapi geta þær nýtt sér aðgang að umhverfinu á Íslandi í gegnum EDIH-IS.

Miðstöðin mun starfa á fjórum megin sviðum:

  • Menntun – Stuðla að aukinni menntun á sviði stafvæðingar t.d. gervigreindar og öryggismála á öllum skólastigum með áherslu á háskólastigið.

  • Þróið og prófið – Hjálpa fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi að fóta sig í nýrri tækni með veitingu ráðgjafar, aðgangs að þekkingu og tólum og hýsingu á tilraunaverkefnum.

  • Klasi - Samfélag – Setja upp viðburði og vettvang fyrir samstarf. Miðlum fróðleik og þekkingu frá Evrópu til samfélagsins.

  • Fjármögnun – Opna glugga inn í Digital Europe fjármögnunaráætlun Evrópusambandsins, ásamt því að aðstoða við almenna fjármögnun sprota og hugmynda.

Valdimar Óskarson framkvæmdastjóri Syndis ávarpaði samkomuna, ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Ragnhildi Helgadóttur rektor Háskólans í Reykjavík og Sverri Geirdal, forstöðumanni nýstofnaðrar miðstöðvar EDIH-IS.

Syndis hefur frá upphafi lagt áherslu á nýsköpun, þróun og fræðslu. Það er von okkar að geta veitt sprotafyrirtækjum aðstoð í þeirra vegferð, stuðlað að bættri fræðslu í upplýsingaöryggi í samstarfi við háskólana og stutt við nýsköpun á sviði öryggismála.

Valdimar Óskarsson

Framkvæmdastjóri Syndis

Fyrsta verkefni miðstöðvarinnar er að koma á fót meistaranámi í tölvuöryggi í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Fjármögnun þess náms hefur þegar verið tryggð og mun það hefjast haustið 2023.

Sömuleiðis mun verða boðið upp á nám í HR í Digital Transformation, þar sem áhersla er lögð á gervigreind.

Deila frétt