06/02/2024
Origo og KPMG þróa sjálfvirka lausn sem greinir kolefnisspor

Origo og KPMG vinna nú að því að þróa lausn sem greinir kolefnisspor í innkaupum fyrirtækja sem mun heita GreenSenze. Lausnin verður mjög einföld í notkun en mörgum fyrirtækjum reynist erfitt að greina kolefnisspor í innkaupum sínum.
Markviss greining á kolefnisspori er forsenda þess að fyrirtæki geti mótað aðgerðir sem draga úr kolefnislosun og stuðla að sjálfbærni í rekstri.
Markmiðið hjá okkur er að smíða lausn sem einfaldar fyrirtækjum að greina innkaupin sín og meta birgja. Við viljum ekki að kolefnisspor innkaupa komi bara inn í uppgjör einu sinni á ári, heldur geta notendur fylgst með þróuninni yfir árið og beitt sér í átt að sínum markmiðum
Hafþór Ægir Sigurjónsson
•
Forstöðumaður sjálfbærni hjá KPMG

Áhersla á greiningar á kolefnisspori í rekstri fyrirtækja hefur aukist til muna síðustu ár en þó glíma mörg fyrirtæki við áskoranir í greiningum á þessum þætti í rekstrinum. Kröfur stjórnvalda og hagaðila fyrirtækja um upplýsingagjöf á kolefnisspori fyrirtækja eru sífellt að aukast og munu flest fyrirtæki þurfa að standa skil á greiningum á kolefnisspori sínu á næstu árum.
Origo og KPMG hafa því undirritað samstarfssamning um smíði á nýrri lausn sem kemur til móts við þarfir þeirra viðskiptavina sem vilja standa skila á sínu kolefnisbókhaldi. Lausnin notfærir sér gögn úr rafrænum reikningum og auðgar þau með ýmsum gagnalindum. Upplýsingarnar eru svo birtar með skýrum hætti í mælaborði þar sem hægt er með einföldum hætti að skoða ítarleg gögn um það sem hægt er að bæta í sjálfærni fyrirtækja.

Við erum mjög spennt fyrir samstarfinu við KPMG og finnum fyrir þeim sameiginlega áhuga okkar að búa til vöru sem virkilega hjálpar fyrirtækjum að stíga framfaraskref í sjálfbærnimálum. GreenSenze mun þannig aðstoða fyrirtæki við að átta sig á því hvaða vörur hafa of hátt kolefnisspor fyrir þeirra sjálfbærnimarkmið og ætti að forðast í innkaupum.
Kristín Hrefna Halldórsdóttir
•
Forstöðuman gæða- og innkaupalausna Origo
Deila frétt