09/12/2022
Samfélagsvandi leystur með nýsköpun í Snjallræði
Níu sprotafyrirtæki, sem hafa helgað sig því að leysa áskoranir samfélagsins með hugviti og nýsköpun, kynntu verkefni sín á lokadegi Snjallræðis.

Lokadagur Snjallræðis fór fram í Hátíðarsal Grósku þar sem níu sprotafyrirtæki kynntu verkefni sín sem öll snúa að því að leysa aðsteðjandi samfélagsvanda. Lokadagurinn markaði útskrift þessara sprotafyrirtækja sem hafa síðustu 16 vikunnar tekið þátt í vaxtarrýminu (e.incubator) Snjallræði og fengið þar fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Grósku en kynnir dagsins var grínistinn og fyrrverandi borgarstjórinn Jón Gnarr sem fór á kostum við mikinn fögnuð gesta.
Samfélagshraðallinn Snjallræði
Samfélagshraðallinn Snjallræði er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem raunverulega styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Snjallræði var stofnað árið 2018 af Höfða friðarsetri og fór nú fram í fjórða sinn.

Umsjón hraðalsins er í höndum KLAK - Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Í samstarfi við MIT DesignX eru haldnar vinnustofur þar sem að sérfræðingar frá MIT koma til landsins og deila þekkingu sinni. Þátttakendur fá því aðgang að fræðslu og þjálfun frá sérfræðingum á heimsmælikvarða, ásamt fundum með reyndum leiðbeinendum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

Origo er bakhjarl Snjallræðis en fyrirtækið hefur skilgreint nýsköpun sem eitt af áhersluatriðum í samfélagsstefnu Origo. Með nýsköpun og tækni má leysa samfélagsvandamál framtíðarinnar. Origo studdi við hraðalinn bæði sem styrktaraðili, var með meðlimi í stýrihóp Snjallræðis og veitti mentor stuðning við teymi.
Samfélagssprotar framtíðarinnar
Á lokadegi Snjallræðis kynntu hvert teymi lausnina sína á 3 mínútum og svaraði svo spurningum frá „hákörlunum“ Svönu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Frumtaks og Kristjáns Schram, stofnandi og eigandi Instrúment.
„Það er gott að sjá þennan áhuga á samfélagslegri nýsköpun og frábært að fá að taka á móti yfir 150 manns hér í dag. Teymin tóku miklum framförum á þessum 16 vikum og er ég mjög ánægð með árangurinn.“
Kolfinna Kristínardóttir
•
Verkefnastjóri Snjallræðis

Í teymi Origo sem tók þátt í vinnustofum Snjallræðis, voru þau Þórólfur Ingi Þórsson, Magnús Már Steinþórsson, Guðfinna Ýr Róbertsdóttir og Hafdís Sæland en þau mynduðu þverfaglegt og sterkt teymi fyrir hönd fyrirtækisins.

Sprotafyrirtæki sem kynntu lausnir sínar á lokdegi Snjallræðis voru Hugmyndasmiðir, Ylur, BioBuilding, Orb, Fort, On To Something, Hringvarmi, Laufið og Sara – steplpa með ADHD. Allir sprotarnir eiga það sameiginlegt að vilja leiða mikilvægar samfélagsbreytingar en það verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Deila frétt