03/01/2023

Stórum áfanga náð í að gera allt ökunám stafrænt

Stórum áfanga í að gera allt ökunám stafrænt er nú náð með virkjun stafrænnar ökunámsbókar.

Ökunemar og ökukennarar geta nú fagnað því að ökunámsbók fyrir b-flokk er komin á stafrænt form. Með stafrænni ökunámsbók eru allar grunnupplýsingar ökunáms aðgengilegar á einum stað ásamt yfirliti yfir verklega ökutíma, ökuskóla og ökupróf. Með þessu móti verður hægt að gera ökunámið markvissara, umhverfisvænna og þjónusta notendur enn betur.

Verkefnið hófst um mitt ár 2021 og var unnið í samstarfi við Samgöngustofu, Origo, Stafrænt Ísland og Júní. Origo sá um greiningarvinnu, hönnun og þróun gagnagrunns, bakenda, API og umsjónarviðmót miðað að þeim sem starfa við úrvinnslu. Júní þróaði notendaviðmót sem snýr að notkun ökunema og ökukennara á ísland.is.

Við höfum með frábæru samstarfi við Samgöngustofu komið ökunámsbóki fyrir b-flokk á stafrænt form þannig að núna þurfa ökunemar ekki að halda sérstaka ökunámsbók sem á það til að týnast eða gleymast. Eins geta ökukennarar staðfest verklega ökutíma rafrænt svo þetta mun vonandi einfalda ökunámsferlið til muna fyrir alla þá sem að ökunámi koma.

Kjartan Hansson

Forstöðumaður stafrænna lausna hjá Origo

Samgöngustofa hefur í samstarfi við sýslumenn og ríkislögreglustjóra unnið að því að gera allt ökunámsferli fyrir b-flokk stafrænt frá upphafi til enda. Þetta felur m.a. í sér að umsóknir, upplýsingagátt fyrir nemendur og kennara, staðfesting ökuskóla og próf verði aðgengilegt á stafrænu formi. Framundan er að gera ferlið í kringum bóklega próftöku stafrænt ásamt allri umsýslu í kringum það. Útgáfa ökuskírteina er nú þegar komin í stafrænt ferli fyrir b-flokk.

Origo hefur aðstoðað stofnanir og fyrirtæki í sinni stafrænu vegferð, m.a. með því að stafvæða þjónustuvefi þeirra, ferla og umsóknir ásamt því að tryggja aðgengingsmál. Þegar vel er staðið að verki skapast ótal tækifæri til að umbreyta starfseminni til hins betra, skara fram úr, auka þjónustu og einfalda notendum lífið.

Deila frétt