19/04/2023
Veðurstofan semur við Origo um smíði á nýjum vef
Fyrstu afurðir birtast notendum í byrjun sumars

Veðurstofa Íslands undirritaði á dögunum samning við Origo um smíði á nýjum vef, en verkið var boðið út af Ríkiskaupum á síðasta ári. Um er að ræða þróunarsamstarf sem nær til vinnu við hönnun, smíði, uppsetningar og innleiðingar á fjölbreyttum gagnatenginum og veflausnum. Verkefnið er umfangsmikið og verða nýjar afurðir vefsins birtar notendum í áföngum og reiknað er með að fyrstu afurðir líti dagsins í sumar.
„Þetta er mjög spennandi verkefni sem hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi“, segir Haukur Hauksson samskiptastjóri á Veðurstofu Íslands.
Við viljum vanda til verksins því vefurinn og aðrar stafrænar lausnir eru ein mikilvægustu tólin þegar kemur að þjónustu við okkar notendur sem er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Notendur hafa lengi kallað eftir betri lausnum á okkar vef og smíði á nýjum vef er mikilvægur áfangi í að bæta okkar þjónustu
Haukur Hauksson
•
Samskiptastjóri á Veðurstofu Íslands
Origo hefur verið í fararbroddi frá árdögum hinnar stafrænu umbreytingar og innan fyrirtækisins er að finna yfirgripsmikla sérþekkingu á þróun, innleiðingu og viðhaldi veflausna. Origo hefur einnig unnið með íslenskum stjórnvöldum að innleiðingu stafrænna lausna þvert á ráðuneyti og stofnanir í gegnum verkefnið Stafrænt Ísland.
Það er mikill heiður fyrir Origo að fá að vinna með okkar færasta vísindafólki við miðlun upplýsinga sem geta skipt þjóðina og þau sem heimsækja okkur höfuðmáli
Jón Björnsson
•
Forstjóri Origo

Sérfræðingar Origo í Stafrænni vegferð, ásamt hönnunar stofunni Metall, tóku saman þátt í útboði Veðurstofunnar. Teymið lagði til nýjan vef þar sem aukin virkni og hönnun fær að njóta sín. Núverandi vefur hefur verið starfrækur frá árinu 2007 og verkefnið því margþætt.
Vefur Veðurstofunnar, vedur.is er einn ástsælasti vefur landsins og er teymið spennt að taka þátt í því að koma vefnum á næsta stig
Kjartan Hansson
•
Forstöðumaður Stafrænna lausna hjá Origo
„Við vitum að vefurinn gegnir mikilvægu hlutverki sem varðar alla Íslendinga, og er hluti af almannavörnum landsins. Hann þarf að þola svakalegt álag á skömmum tíma í stórum náttúruváratburðum eins og ofsaveðri, jarðskjálftum og eldgosum“.

Origo og Metall munu beita hönnunarmiðaðri aðferðafræði við smíði vefsins og vinna í sprettum þar sem starfsfólk Veðurstofunnar taka virkan þátt. Nýr vefur mun verða gefinn út í nokkrum fösum og mun þróast og eflast yfir tíma.
Okkur á Veðurstofunni líst mjög vel á samstarfið við Origo því þeirra teymi hefur þá þekkingu og breidd sem Veðurstofan þarf á að halda í verkefninu
Árni Snorrason
•
Forstjóri Veðurstofu Íslands
„Eins og minnst var á þegar að ný skýrsla um náttúrvá var kynnt á dögunum þá snýst miðlun um náttúruvá að tryggja að réttar upplýsingar berist í tæka tíð til þeirra sem þurfa á þeim að halda og að skilaboðin séu skiljanleg svo hægt sé að bregðast við þeim. Þessi miðlun þarf að byggja á réttum lausnum og öruggum innviðum og er smíði á nýjum vef því hluti af því að tryggja góða og örugga miðlun þegar kemur að mikilvægum upplýsingum fyrir samfélagið“, segir Árni.
Stafræn vegferð er eitt stærsta tækifæri fyrirtækja og stofnana í dag
Lestu meira um Stafrænar lausnir Origo hér
Deila frétt