09/08/2021

Fylgstu með vistsporinu

Origo ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum að fylgjast með vistspori fyrirtækisins í rauntíma

Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum jarðar fólk nýtir við neyslu sína og hve miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér

Origo ætlar að bjóða viðskiptavinum sínum að fylgjast með vistspori fyrirtækisins í rauntíma. Markmiðið með þjónustunni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka endurvinnsluhlutfall og sjálfbærni, hvetja til minni neyslu og efla umræðu um umhverfisvá.

Hægt er að fylgjast með umhverfisáhrifum lausna Origo í vistkerfi hugbúnaðarfyrirtækisins Klappa. Viðskiptavinir Origo mun geta fylgst með prentnotkun, kaupum og notkun á tölvubúnaði, orkustýringu og annarri þjónustu í vistkerfinu.

Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum jarðar fólk nýtir við neyslu sína og hve miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Því meiri neysla, þeim mun stærra er vistsporið.

Origo hefur sett sér sjálfbærnistefnu þar sem fyrirtækið ætlar að lágmarka neikvæð áhrif á samfélagið og auka þau jákvæðu. Með tengingu við vistkerfi Klappa vill Origo ganga enn lengra; styðja önnur fyrirtæki í að ná markmiðum sínum og hvetja viðskiptavini og samstarfsaðila í að draga úr neyslu (lækka vistsporið í rekstrinum). Þá vinna fyrirtæki, sem eru tengd við vistkerfi Klappa, sameiginlega að því að ná árangri í sjálfbærni út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

,,Vistkerfi Klappa er einstakt en það gerir íslensku samfélagi kleift með samstilltu átaki að ná mælanlegum árangri í sjálfbærni. Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun í loftslagsmálum og áríðandi að fyrirtæki standi saman í að nýta þá einstöku möguleika sem eru til staðar í vistkerfi Klappa og vinna að því að draga úr vistspori í allri virðiskeðjunnni ," segir Jón Björnsson, forstjóri Origo.

„Notendur í vistkerfi Klappa hér á landi hefur tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 16% og tryggja aukið fjármagn til skógræktar. Öll skip sem koma til landsins nota aukinheldur vistkerfi Klappa til að miðla umhverfisgögnum til hafnarstjórna. Þetta einstaka samstarf, sem hefur verið byggt upp á Íslandi frá 2015, er orðið að fyrirmynd um það hvernig hægt er að ná mælanlegum árangri í sjálfbærni. Við erum nú þegar farin að byggja upp sambærilegt vistkerfi í Danmörku." segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.

Viðskiptavinir geta fengið aðgang að sínum gögnum hjá Klöppum og séð sitt vistspor. 

Deila frétt