Sjálfbærnistefna Origo

Sjálfbærniskýrsla Origo 2021 hefur verið útbúin til samræmis við UFS leiðbeiningar Nasdaq. Sjálfbærnistefna Origo horfir til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Órjúfanlegur hluti af stefnunni eru sex markmið fyrir hvern flokk: Umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhætti. Einnig fylgir með aðgerðaáætlun ásamt leiðum til að ná fram helstu markmiðum stefnunnar.

Brand myndefni

Stefna í samfélagslegri ábyrgð

Sjálfbærnistefna nær utan um samfélagslega ábyrgð Origo í víðtæku samhengi og munu hugtökin sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð verða notuð jöfnum höndum í stefnunni.

Áherslur sjálfbærni og sam­fé­lags­ábyrgð­ar kalla á upp­bygg­ingu nýrra viðskiptamódela þar sem hugað er að því að kjarnastarfsemi rekstrareiningar leggi sitt af mörkum til að byggja upp sjálfbæran heim. Sjálfbærnistefna nær utan um samfélagslega ábyrgð Origo í víðtæku samhengi og munu hugtökin sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð verða notuð jöfnum höndum í stefnunni. Með sjálfbærnistefnu lýsir félagið því yfir að það ætlar á ábyrgan hátt að vinna að því að lágmarka neikvæð áhrif á samfélagið og auka þau jákvæðu. Félagið leggur áherslu á með gjörðum sínum að hafa áhrif á hagaðila félagsins og beita áhrifum upplýsingatækninnar til góðs á umhverfi, félagsleg og stjórnunarleg málefni.

Breiður hópur starfsmanna kom að mótun stefnunnar og að vinnu við val á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Vinnan fór fram á tveimur fjarvinnustofum um sjálfbærnimál. Stefnan nær til móðurfélagsins Origo og einnig til allra dótturfélaganna sem eru Tölvutek ehf., Unimaze og Applicon AB. Hún er í anda stefnumótunar félagsins og tekur mið af gildum þess, samsterk, fagdjörf, þjónustuframsýn.

Þessi nýyrði vísa til þeirra vinnubragða, sem eru hverju framsæknu þjónustufyrirtæki mikilvæg og felast í samstarfi, fagmennsku, dirfsku og frumkvæði.

Hagaðilar

Helstu hagaðilar Origo eru viðskiptavinir, dótturfélög, starfsmenn, birgjar, samstarfsaðilar, fyrirtæki og stofnanir. Origo getur haft mikil áhrif á hagaðila sína með gjörðum sínum þar sem um 30% af vinnuafli landsins starfar hjá viðskiptavinum félagsins. Origo ætlar því að ganga á undan með góðu fordæmi í sjálfbærnimálum og veita skýrar og áreiðanlegar upplýsingar um árangur félagsins. Félagið mun í framtíðinni leitast við að virkja hagaðila sína til góðra verka og hvetja þá til dáða.

Ferðalag í átt að sjálfbærni

Árið 2015 setti Origo sér umhverfisstefnu- og aðgerðaráætlun í umhverfismálum auk þess að skrifa undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu.

Flokkun á úrgangi hófst fyrir alvöru árið 2016 og samið var við Klappir grænar lausnir árið 2017 um umhverfismælingar og mælingar á kolefnisspori fyrirtækisins.

Origo stuðlar að bættri heilsu og öryggi starfsfólk með því að efla vitund um mikilvægi heilbrigðs líf, ýta undir jafnvægi vinnu og einkalífs og styrkja alhliða heilsueflingu starfsfólks. Origo leggur metnað í gott vinnuumhverfi og tryggir að aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustað verði eins og best verði á kosið.

Félagið hefur í gegnum árin veitt margvíslega styrki til samfélagslegra málefna og lagt mikla áherslu á góða tengingu við starfsmenn og samfélagið allt. Jafnlaunavottun kom í hús í fyrsta sinn árið 2018 og UFS uppgjör var gert í samstarfi við Klappir grænar lausnir árið 2019.

Origo mælir og fylgir eftir mælingum sem snúa að mannauðs- og jafnréttismálum í eigin kerfum og er með virka heilsu- og mannauðsstefnu.

Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgir „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út.

Við erum ábyrg

Stjórn félagsins samþykkir stefnuna en eigandi hennar er forstjóri Origo en hann ber jafnframt ábyrgð á reglulegri endurskoðun hennar að lágmarki á tveggja ára fresti. Forstjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar en hann mun skipa stýrihóp sem í sitja hann sjálfur ásamt framkvæmdastjóra fjármála og framkvæmdastjóra mannauðs.

Sjálfbærninefnd sér um að framfylgja markmiðum og aðgerðum stefnunnar en hún saman stendur af stjórnendum félagsins og starfsmönnum. Nefndin mun sjá um eftirfylgni og reglulega endurskoðun en stefnunni fylgir einnig ítarleg aðgerðaráætlun. Um verkefni aðgerðaráætlunar verður fjallað á nefndarfundum a.m.k. tvisvar á ári.

Við snertum samfélagið

Markmið stefnunnar er að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á samfélagið. Upplýsingatækni verður án efa í stóru hlutverki þegar kemur að því að leysa vandamál í umhverfismálum og draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum á samfélagið. Nýsköpun og áhrif stafrænna lausna og gervigreindar eru þar mjög mikilvægir þættir.

Þar sem Origo er skráð í Kauphöll Íslands(NASDAQ OMX) tekur stefnan í megin atriðum mið af UFS viðmiðum Nasdaq frá febrúar 2020. Sjálfbærnistefna Origo er þrískipt en hún tekur á þeim þáttum sem leiðbeiningar Nasdaq nota við að mæla og miðla umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Í markmiðum stefnunnar er tekið mið af núverandi stöðu samstæðunnar.

Stefnan tekur einnig mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Heimsmarkmiðin grundvallast á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar. Origo hefur valið að styðja sérstaklega við fjögur þeirra; heimsmarkmið 5, jafnrétti kynjanna, heimsmarkmið 9, nýsköpun og uppbygging, heimsmarkið 12 ábyrg neysla og heimsmarkmið 13 aðgerðir í loftslagsmálum.

Umhverfisþættir

Stefnuáherslur Origo í umhverfismálum fjalla um áhrif félagsins af starfseminni og leiðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum.

Origo ætlar með stefnunni að leggja áherslu á að leggja sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar. Einnig ætlar félagið á ýmsan hátt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðstoða þannig íslensk stjórnvöld við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Hluti þeirrar vinnu snýr að því að minnka alla sóun í virðiskeðjunni og mæla árangur vinnunnar.

Sjálfbærnistefnan er jafnframt umhverfisstefna félagsins. Origo mun með hjálp upplýsingatækni og þjónustu styðja viðskiptavini sína og aðra hagsmunaaðila í stafrænni vegferð sem minnka munu umhverfisáhrif þeirra. Áherslur Origo í umhverfisþáttum styðja einnig við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrga neyslu og aðgerðir í loftslagsmálum, heimsmarkmið 12 og 13.

Markmið Origo í umhverfismálum eru eftirfarandi:

 1. Origo leggur sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar samfélagsins og ætlar að hafa góð áhrif á starfsmenn, viðskiptavini og aðra hagaðila.

 2. Origo ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030.

 3. Origo ætlar að draga úr myndun úrgangs og ná endurvinnsluhlutfalli í 90% fram til ársins 2030.

 4. Stuðla að umbúðalausu samfélagi.

 5. Félagið ætlar að mæla árangurinn og greina frá honum opinberlega.

 6. Origo ætlar að innleiða eftirlit með áhættu tengdri loftslagsmálum.

Félagslegir þættir

Stefnuáherslur Origo í félagslegum málefnum eru hluti af sjálfbærnistefnu félagsins og fjalla um samskipti við starfsmenn, viðskiptavini, birgja og aðra hagaðila. Lögð er áhersla á að allir fái notið sömu mannréttinda og leggur Origo áherslu á jafnrétti, kynjafjölbreytni, góða vinnuaðstöðu og sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Markmið okkar í félagslegum málefnum kristallast í mannauðsstefnu félagsins: Að verða eftirsóttasti vinnustaðurinn og laða þannig að fyrirtækinu hæfasta starfsfólkið til frambúðar. Origo virðir alþjóðleg mannréttindi og gerir sömu kröfur til sinna birgja. Félagið samþykkir ekki barna- og nauðungavinnu í virðiskeðju sinni og verður nánar fjallað um það í nýjum siðareglum félagsins og birgjamati. Origo leggur einnig áherslu á bann við andlegu og líkamlegu ofbeldi. Félagið hefur sett sér jafnréttisstefnu, jafnréttisáætlun og öðlast jafnlaunavottun BSI.

Það er auk þess stefna Origo að efla tengsl tæknigreina á mismunandi skólastigum við atvinnulífið, ýta undir nýsköpun í tæknigreinum, efla stoðir slíks náms og tryggja nægilegt framboð framúrskarandi tæknimenntaðs starfsfólks á komandi árum. Origo styrkir því verkefni sem hafa það markmið að efla nýsköpun og hvetja ungt fólk til þátttöku í tæknigreinum.

Origo hefur í gegnum árin veitt margvíslega styrki til samfélagslegra málefna og lagt áherslu á góða tengingu við starfsmenn og samfélagið allt. Origo styður verkefni í samfélaginu á sviði mannúðarmála, forvarnar- og æskulýðsstarfs, rannsókna, umhverfismála og náttúruverndar. Styrkirnir eru hugsaðir sem hvatning til að láta gott af sér leiða. Unnið verður eftir heimsmarkmiðum 5 og 9.

 1. Origo leggur áherslu á að allir fái notið sömu mannréttinda og tækifæra hjá félaginu.

 2. Origo leitast við að vinna að kynjafjölbreytni og markmiðum jafnréttismála.

 3. Origo vinnur markvisst að því að stuðla að heilbrigði starfsmanna.

 4. Origo samþykkir ekki misrétti á vinnumarkaði eða þrælkunar- og barnavinnu og mun fylgja því eftir í virðiskeðjunni.

 5. Lögð er áhersla á að styrkja ímynd Origo sem vinnustaðar þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænan lífsstíl og jafnréttismenningu.

 6. Origo leggur áherslu á stafræna vegferð og nýsköpun.

Stjórnarhættir

Stefnuáherslur Origo í stjórnarháttum snúa að stjórn félagsins og stjórnendum, innra eftirliti og réttindum hluthafa. Stjórnkerfi Origo tekur mið af lögum um hlutafélög. Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja" sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Lögð er áhersla á að virða reglur um kjarasamninga og í siðareglum er fjallað um reglur og æskilega háttsemi birgja, aðgerðir gegn spillingu og mannréttinda- og persónuverndarmálefni. Stjórnin hefur sett sér starfsreglur og skuldbinda stjórnarmenn sig til þess að hlíta þeim þegar þeir taka sæti í stjórn félagsins. Starfsreglurnar fjalla um hlutverk og framkvæmd starfa stjórnar félagsins og taka einnig að nokkru leyti til starfa forstjóra félagsins. Lögð er mikil áhersla á reglulega upplýsingagjöf í sjálfbærnimálefnum og að starfsemin verði tekin út af ytri aðila.

 1. Origo leggur áherslu á réttindi starfsmanna sinna.

 2. Origo ætlar að endurskoða siðareglur birgja og innleiða birgjamat hjá samstæðunni.

 3. Stöðug eftirfylgni við birgjamöt.

 4. Upplýsa og fræða hagaðila um sjálfbærniverkefni Origo.

 5. Origo leggur áherslu á öryggi gagna- og persónuvernd fyrir viðskiptavini sína.

 6. Origo innleiðir mat á UFS áhættu fyrirtækisins.

Kolefnisjöfnun

Sjálfbærnistefna Origo er til marks um góðan vilja á vegferð til sjálfbærni en hún mun aðstoða félagið við forgangsröðun þeirra verkefna sem skipta munu mestu máli fyrir framtíðina. Origo hefur lagt áherslu á að sjálfbærnistefnan og mælingar á árangri vegna hennar séu unnar innan ramma þeirra innlendu og alþjóðlegu laga og reglugerða sem snúa að hinum þremur UFS þáttum.

Við útreikninga á umhverfisuppgjöri Origo er stuðst við „Greenhouse Gas Protocol" sem er stöðluð aðferðafræði sem innleidd hefur verið af fjölda fyrirtækja um allan heim með góðum árangri. Umhverfismælingarnar fara fram í uppgjöri sem tekið er út úr kerfi Klappa en aðrar mælingar eru teknar út úr upplýsingakerfum Origo. Þessar nákvæmu upplýsingar munu aðstoða félagið við kolefnisjöfnun starfseminnar.

Markmið fyrir hvern flokk

Órjúfanlegur hluti af stefnunni eru sex markmið fyrir hvern flokk, umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhætti.

Heildar sjálfbærniuppgjör Origo verður gert samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq í takt við stefnuna.

Nákvæm aðgerðaráætlun og leiðir fylgja til þess að ná fram helstu markmiðum stefnunnar.

Hér er að finna gögn og skýrslur sem tengjast sjálfbærnistefnu Origo